13.02.1930
Neðri deild: 23. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1158 í B-deild Alþingistíðinda. (370)

12. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

Magnús Guðmundsson:

Ég skal segja hæstv. forsrh. Það, að mér er sama, þó að þetta mál hafi dregizt inn í umr. Ef það gæti orðið til þess að hjálpa hæstv. stj., þegar hún fer að leita fyrir sér um lán, þá væri það gott. Hún mun ekki hafa of margar hjálparhellur um þessar mundir.

Hæstv. forsrh. þykist ekki vita, að um enska lánið var gerður aðeins einn samningur, og þó var hann nýlega að lesa upp úr samningnum löggilta þýðingu, og ég fann ekki, að þar væru nein stóryrði og ekki eitt orð um veðsetningu.

Svo fór hann að tala um afstöðu sína til Íslandsbanka, en sem formaður bankaráðsins átti hann að rækja starf sitt vel. En hvernig hefir hann gert það? Þar er sjón sögu ríkari. Eftir hálft þriðja ár er bankinn að drepast í höndunum á honum og sjálfur forsrh. brýnir kutann á

nægjulega.

Hæstv. ráðh. minntist lítilsháttar á kjöttollsmálið og talaði borginmannlega um, að þeir samningar væru sér að þakka. En hitt vita hv. þdm., að það var hæstv. forsrh., sem mest tjón vann því máli. Hann var þá eins og oftar ógætinn og fljótfær og bauð Norðmönnum fríðindi á fríðindi ofan, svo að með naumindum var hægt að komast framhjá því, þegar til endanlegra samninga kom.

Það er hart að þurfa að hlusta á, að hæstv. ráðh., sem hefir af heimsku og fyrir heigulskap slátrað öðrum aðalbanka landsins, skuli leyfa sér að brigzla öðrum um fjármálaafglöp. Hans bankaráðsformennska kostar landið tugmilljónir, og verði nokkuð ritað með rauðu í sögu þessa lands, þá verður það kaflinn um bankaráðsformennsku hans.