10.02.1930
Neðri deild: 19. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í C-deild Alþingistíðinda. (371)

72. mál, þingmannakosning í Reykjavík

Flm. (Magnús Jónsson):

* Ég skal ekki þreyta hv. d. með því að reifa þetta mál með langri ræðu. Ég býst við, að hv. þdm., hvort sem þeir eru sammála okkur eða ekki, muni hljóta að finnast það eðlilegt, þegar byrjað er að bera fram till. um fjölgun þingmanna, til að bæta úr því misrétti, sem ríkir um þá, að þá sé á það minnzt, hve fáa þm. Reykjavík sendir á þing. Hér býr nú einn fjórði allra landsmanna, en þessi fjórði hluti landsmanna sendir aðeins 4 þm. af 36 kjördæmakosnum, og það sjá allir, hvað sem sagt er um aðstöðu Reykjavíkur til þess að hafa áhrif á þingmenn o. s. frv., að þetta nær engri átt. Að réttu lagi eru tíu þm. það minnsta, sem Reykjavík ætti að senda, ef farið væri eftir höfðatölu einni. Rétt væri, að Reykjavík kysi a. m. k. 10 þm., því að tíu er þó ekki alveg fjórði hluti (af 42), sem svarar til þess, sem Reykjavík ætti að kjósa.

Annars er margt að segja um það, eftir hverju ætti að fara, þegar ákveðið verður um þingmannafjölgun, — en ég skal ekki fjölyrða um það, heldur aðeins mælast til þess, að frv. verði vísað til 2. umr. og þeirrar n., sem hefir annað svipað frv. til meðferðar — og mun vera allshn.

Stjarna (*) aftan við nafn ræðumanns táknar, að þm. hafi óskað þess getið, að ræðan sé prentuð eftir óyfirlesnu handriti innanþingsskrifara.