13.02.1930
Neðri deild: 23. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1158 í B-deild Alþingistíðinda. (376)

12. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég sagði ekki, að ég hefði gert kjöttollssamninginn, heldur að ég hefði stuðlað að því, að hann var gerður eins og hann varð. Og þetta vita íslenzkir bændur og hafa sýnt það í verki, hvernig þeir líta á framkomu mína í því máli.

Ég hefi heldur ekki drepið Íslandsbanka. Það var sagt um Rómaborg, að þrír væru höfundar hennar. Eins má segja um Íslandsbanka, að þrír séu banamenn hans. En ég var enginn þeirra. Og sú úrlausn, sem nú er fengin á Íslandsbankamálinu, er miklu betri en það ástand, sem áður var. Hafi ég að því stuðlað, hrósa ég happi.

Hv. 1. þm. Skagf. sagði, að það væri gott, að enski samningurinn hefði dregizt inn í umr., ef það yrði til þess að hjálpa stj. En ég segi, að það sé þó ennþá betra, ef það yrði til þess að hjálpa þjóðinni, svo að slíkt kæmi aldrei fyrir aftur.