03.02.1930
Neðri deild: 13. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í C-deild Alþingistíðinda. (396)

67. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka, hlutafjárauki o. fl

Bjarni Ásgeirsson:

Af því að nú hefir enn verið byrjað á þeim sama leik, sem leikinn var hér í nótt, og ráðist á Landsbankann vegna þeirra atburða, sem gerzt hafa þessa síðustu daga, og þannig verið gerð tilraun til æsinga gegn þjóðbankanum, tel ég það skyldu mína að taka svari bankans, þar sem ég er bankaráðsmaður við Landsbankann og því allkunnugur þessum málum.

Árásirnar á Landsbankann eru aðallega þrennskonar.

Í fyrsta lagi er bankinn ásakaður fyrir að hafa brotið 69. gr. landsbankalaganna. Í öðru lagi er honum gefið það að sök, að hann hafi með því orðið þess valdandi, að Íslandsbanki varð að loka.

Og í þriðja lagi er bankinn borinn þeim sökum, að hann hafi með því að draga á langinn að svara Íslandsbanka valdið því, að þetta mál komst í slíkan eindaga og að órói skapaðist út af bankanum.

Ég skal nú gera nokkra grein fyrir þessum þrem atriðum, og byrja þá á því, sem ég taldi fyrst.

Til þess að gera mönnum ljóst, hvað hæft sé í þeirri ásökun, að Landsbankinn hafi brotið lög á Íslandsbanka, verð ég að lesa hér upp 69. gr. landsbankalaganna. Hún hljóðar svo:

„Landsbankinn endurkaupir af Íslandsbanka góða viðskiptavíxla gegn forvöxtum, sem séu ekki minna en 1% lægri en forvextir Íslandsbanka, þó aldrei lægri en 1% undir forvöxtum Landsbankans til peningastofnana, fyrir allt að 5/8 þeirrar upphæðar, sem Íslandsbanki hefir á hverjum tíma dregið inn af seðlaveltu sinni, miðað við 31. okt. 1922, en þá telst seðlavelta Íslandsbanka hafa verið 8 millj. kr. Eftir að Íslandsbanki hefir dregið inn alla seðla sína, minnkar fjárhæð sú, sem Landsbankinn endurkaupir með þessum kjörum, um ½ millj. kr. á ári hverju, þar til hún hverfur alveg“.

Eftir þessari gr. er það ótvírætt — og mér skilst, að meira tillit eigi að taka til l. sjálfra, þegar þau eru svo skýr, heldur en til þeirra skýringa, sem þeir, er l. hafa samið, vilja gefa á þeim —, að Landsbankinn skuldbindur sig til að kaupa af Íslandsbanka gegn sérstökum kjörum 5/8 af því seðlamagni, sem Íslandsbanki dregur inn á hverjum tíma, þannig að þegar hann er búinn að draga inn 8 millj., á Landsbankinn að hafa endurkeypt af honum 5 millj. í víxlum. Nú hafði Íslandsbanki til 31. okt. síðastl. ekki dregið inn nema 3 millj., og átti þá Landsbankinn 1. samkv. að hafa keypt af honum víxla fyrir 1875000 kr., en skuld Íslandsbanka á seðlakontónni nemur þá 3347000 kr. Þegar svo Íslandsbanki 31. okt. síðastl. haust dragur enn inn 1 millj. og fer fram á, að Landsbankinn endurkaupi að sér víxla fyrir 625 þús. kr., fær hann neitandi svar, af því að Landsbankinn hefir þá þegar keypt af Íslandsbanka með hinum lögákveðnu kjörum víxla fyrir 3347000 kr., þó að honum bæri ekki skylda til að fara hærra en í 2500000 kr., og það fyrst nú, þegar Íslandsbanki hafði dregið inn seðla fyrir fjórðu millj. Það, sem Landsbankinn því hefir brotið við Íslandsbanka, er þetta: Hann hefir keypt af Íslandsbanka víxla fyrir 847 þús. kr. fram yfir það, sem hann var skyldugur til að lögum. Það er því svo fjarri, að Landsbankinn hafi ekki gert skyldu sína, að hann þvert á móti hefir gert meira en honum bar að gera.

Ég vil í þessu sambandi ennfremur benda á það, að samkv. beiðni Íslandsbanka fyrir nokkrum árum var víxlakontónni breytt í hlaupareikning eða svokallaðan hlaupareikningsyfirdrátt, og er ávinningur Íslandsbanka af því sá, að þegar hann hafði fé í sjóði umfram þarfir sínar, gat hann lagt það inn á hlaupareikninginn, í stað þess að leggja það inn sem innlánsfé, og lækkað þar með víxlakontóna og notið þess munar, sem er á útláns og innlánsvöxtum. Landsbankinn hefir því í þessu atriði einnig farið lengra en honum bar skylda til.

Loks vil ég drepa á það, að samkv. 69. gr. landsbankalaganna bar Landsbankanum ekki að kaupa af Íslandsbanka nema góða viðskiptavíxla. Til þess að sýna, hvað átt sé við með því, verð ég að lesa upp 14. gr. nefndra laga. Hún er á þessa leið:

„Seðlabankanum er heimilt:

1. Að kaupa og selja víxla, tékka og ávísanir, sem greiðast eiga innanlands.

2. Að kaupa og selja víxla, tékka og ávísanir, sem greiðast eiga erlendis. Víxlar þeir, sem greinir í 1. og 2. tölulið, mega ekki vera með lengri gjaldfresti en 6 mánuðum, og má eigi endurnýja þá meira en 6 mánuði samtals“.

Með öðrum orðum: Samkv. landsbankalögunum eiga víxlar þeir, sem seðladeildin kaupir af Íslandsbanka, að borgast upp a. m. k. innan árs. Hver hefir nú reynslan orðið um þetta? Jú, hún er sú, að víxlar þessir eru, ef svo má segja, eilífir, svo að þessi trygging, sem Íslandsbanki setur fyrir skuld sinni, er í raun og veru allt önnur og óálitlegri en lögin gera ráð fyrir. Víxlafúlgan liggur óhreyfð frá ári til árs.

Ég þykist nú hafa sýnt fram á, að hafi Landsbankinn brotið bankalögin, hafi hann brotið þau Íslandsbanka í vil, en ekki til bölvunar, og sný mér því að þeirri ásökun, að Landsbankinn hafi með því að neita Íslandsbanka um þessar 625 þús. kr. orðið þess valdandi, að hann komst í kröggur og varð að loka.

Eins og hv. 2. þm. Reykv. tók fram, nær þessi ásökun ekki nokkurri átt, eins og bezt sést á því, að bankaráðið sjálft telur, að bankinn geti ekki starfað áfram, nema hann fái 1½ millj. kr. nýtt lán, auk meiri eða minni ríkisábyrgðar. Og í frv., sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir, að bankinn þurfi 3 millj. kr. nýtt lán. Það sér því hver maður, hvílík fjarstæða það er, að þessi litla upphæð hefði getað bjargað bankanum. Það eina, sem hún hefði gert að verkum, var að fresta kröggum bankans. Bjargað honum gat þessi litla upphæð ekki. Enda mun landsbankastjórnin hafa óttast það strax í haust, að hér væri um meira alvörumál að ræða en svo, að unnt væri að bjarga Íslandsbanka með þessum 625 þús. kr. Og þegar svo bankastjórarnir við Landsbankann voru búnir að komast að raun um það samkv. viðtali við bankastjórn Íslandsbanka, að hræðsla þeirra var á rökum reist, var skylda þeirra að gefa synjandi svar, til þess að geta staðið því betur í ístaðinu fyrir atvinnuvegi landsmanna, ef bankinn skyldi lenda í einhverjum örðugleikum. Ef þeir hefðu haldið áfram að festa fé Landsbankans í Íslandsbanka, áttu þeir verra með að hjálpa á eftir.

Þá kem ég að síðasta atriðinu, því, að drátturinn á svari landsbankastjórnarinnar hafi komið af stað óróa utan um bankann. Þetta hefir við engin rök að styðjast. Drátturinn olli engum óróa, eins og einn af bankastjórunum við Íslandsbanka hefir líka skýrt tekið fram. Hitt er satt, að það hefði verið æskilegra, að landsbankastjórnin hefði gefið svör sín fyrr, því að þá hefði verið lengri frestur til að ráða þessu máli til lykta. En orsökin til dráttarins var sú, að hún fékk ekki fyrr en nú þá einu, réttu skýrslu um það, hversu viðskiptum Íslandsbanka og hag hans var í raun og veru farið.

Ég held, að öllum þm. hefi verið það ljóst í gær, að þeir eiga nú að ráða fram úr meira og stærra alvörumáli en ef til vill nokkru sinni hefir legið fyrir Alþingi Íslendinga. Annar aðalbanki landsins, sem hefir starfað um fjórðung aldar, er þegar búinn að loka og atvinnuvegirnir, sem við hann styðjast, riða svo, að liggur við falli. Ég hélt líka, að við fyndum allir til ábyrgðarinnar, sem á okkur hvílir um lausn þessa máls. Það er skiljanlegt, að ágreiningur verði um það, hvernig eigi að bjarga. Hitt er aukaatriði, hvernig á því stendur, að nú er svo komið, sem komið er. Aðalatriðið er nú að bjarga því, sem bjargað verður. Ég vona því, að þeim hv. þm., sem eru að dreifa umr. frá kjarna málsins með ádeilum á hina og aðra, sé það ljóst, hvað þeir eru að gera. Svo mikið er víst, að þeir eru hvorki að vinna þessu máli né þjóðinni í heild sinni gagn. Og ég vil skora á þm. að standa saman í þessu máli um slíka lausn þess, sem verða megi þjóð og landi til sannrar blessunar. En hitt, að ætla sér að snúa gremjunni og sársaukanum yfir falli Íslandsbanka í hatur og árásir á sjálfan þjóðbankann, það er aðeins fávísleg tilraun til þess að bæta eitt böl með því að bíða annað meira.