03.02.1930
Neðri deild: 13. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í C-deild Alþingistíðinda. (401)

67. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka, hlutafjárauki o. fl

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég álít illa farið, að þessar umr. gátu ekki farið fram eins og hv. aðalflm. mun hafa ætlazt til. Framsöguræða hans var alls ekki löng og benti til þess, að hann mun ekki hafa ætlazt til, að langar umr. yrðu um þetta mál að sinni. Ég tel illa farið, að þessar umr. hafa orðið svona langar, því málinu hefði orðið það stórum meiri hagur, að n. hefði fengið þennan tíma til að vinna að málinu og leita í næði að samkomulagsgrundvelli til að byggja till. sínar á. Að því loknu var svo tími kominn til fyrir hv. þm. að deila um málið.

Máli þessu horfir svo við nú, að hvað sem um lausn þess má deila, þá er það þó sameiginleg ósk allra, að flýtt verði sem mest afgreiðslu þess. Sú hætta vofir yfir bankanum, að ófyrirleitnir og harðvítugir kröfuhafar á bankann geri rétt sinn gildandi á kostnað annara kröfuhafa.

Ég vonaðist til, að samkomulag gæti fengizt um að koma í veg fyrir þetta og að hv. þm. gætu geymt rétt sinn til að rífast, þar til þetta væri búið. En þar sem þetta hefir nú ekki tekizt og við erum hvort sem er farnir að vaka, þá er rétt að skýra nokkur atriði þessa máls nánar en gert hefir verið.

Út af þeim tíðindum, að Íslandsbanki hefði lokað, er eðlilegt, að margir hafi spurt að því, hver rök liggja til þess, að svo þurfti að fara.

Hér hafa tveir eða fleiri hv. þm. talað um það — í fullri alvöru, að því er virðist —, að afkoma bankans hafi oltið á því, hvort hann fékk nokkur hundruð þús. kr. að láni fáum dögum fyrr eða síðar. M. ö. o. að þessi litla upphæð veitt að láni nokkrum dögum fyrr hefði getað bjargað Íslandsbanka. En ég vil reyna að gera mönnum það ljóst, að margar og miklar dýpri ástæður liggja að baki þessa atburðar. Og sá aðdragandi, sem leiddi til þessara úrslita, var í raun og veru orðinn svo langur og svo margháttaður, að það er meir að undra, að þetta skyldi ekki koma fyrir miklu fyrr.

Ég vil þá fyrst minna á tvennt gamalt, sem þótt það sé gamalt, hefir alltaf síðan verið nýtt fyrir bankann.

Árin næstu eftir stríðið reyndu á þolrif fjármálamanna um víða veröld. Við Íslendingar vorum þá svo óheppnir að aðalpeningastofnun landsins, Íslandsbanka, stýrði þá sem aðalbankastjóri útlendur maður, sem brast bæði mannvit og mannkosti til þess að gegna því afarþýðingarmikla starfi. Hann var settur til þessa starfs af þeim útlendu mönnum, sem Íslendingar, í gáleysi sínu, höfðu afhent seðlaútgáfuréttinn og aðalstjórn peningamálanna.

Hin hörmulega bankastjórn þessa útlendings leiddi böl yfir alla þjóðina með hinu gífurlega verðfalli peninganna. Og Íslandsbanki varð fyrir geysilega miklum töpum. Hann var þá særður því ólífissári, sem síðustu droparnir blæddu úr þegar bankanum var lokað, á mánudaginn var.

Við þessum tíðindum var snúizt með nokkuð undarlegum hætti.

Þessi útlendingur hvarf frá Íslandi nokkru síðar. Dýrkeyptari varð hann Íslandi en nokkur annar útlendingur, sem til Íslands hefir komið — og er þá mikið sagt. En þeir, sem þá höfðu völdin í Íslandsbanka, tóku það til ráðs, að þeir veittu honum að gjöf hærri fjárhæð en nokkrum útlendingi hefir verið gefin frá Íslandi — úr sjóði þeirrar stofnunar sem hann hafði svo skemmilega stjórnað.

Og þeir, sem völdin höfðu á þjóðarbúinu, tóku það til ráðs að veðsetja tolltekjur Íslands fyrir hinu mesta ókjaraláni, sem tekið hefir verið fyrir Íslands hönd, og var meiri hluta lánsfjárins varið til þess að bjarga Íslandsbanka.

Enn er að minnast liðinna tíðinda. Fyrir fimm árum var til þess stofnað að hækka í mjög stórum stíl og á tiltölulega mjög stuttum tíma verðgildi íslenzkra peninga. Þetta leiddi af sér geysimikla örðugleika fyrir framleiðendur bæði til lands og sjávar. Töp atvinnurekenda af gengishækkuninni lentu vitanlega að töluverðu leyti á lánardrottnum þeirra, bönkunum. Hefir sá af bankastjórum Íslandsbanka, sem bezt skyn ber á að meta það, talið að tap bankans á gengishækkuninni muni hafa numið 4–6 millj. kr. Og enn á ný kom bankanum hjálp frá ríkinu til þess að standast þetta mikla áfall.

Þau miklu töp, sem Íslandsbanki varð fyrir fyrst fyrir tíu árum og því næst eftir gengishækkunina fyrir tæpum fimm árum, hafa vitanlega hvílt á honum með ærnum þunga síðan. Jafnt og þétt hefir hann sligast undir vaxta- og afborganabyrðinni af skuldunum.

Skuldirnar frá áfallaárunum hefir bankinn vitanlega orðið að borga með árlegum afborgunum. Samningar um þær greiðslur voru gerðir, meira og minna hagstæðir. Jafnt og þétt hefir orðið að afborga. Má þar til einkum nefna afborganir af skuld til hins gamla viðskiptavinar, Privatbankans í Kaupmannahöfn. af skuld við ríkissjóð Dana og af skuld við ríkissjóð Íslands, enska láninu. Þessar og aðrar smærri afborganir munu næstliðin ár hafa að jafnaði numið meiru en einni millj. kr. á ári.

Í þessu sambandi má og geta þess, að samkv. lögum ber bankanum að draga inn eina millj. króna á ári af seðlum sínum og hafði þegar gert það fjögur árin. En að því leyti, sem það gull hrökk ekki til, sem losnaði jafnhliða, hefir Landsbankinn meira en hinu svaraði endurkeypt af Íslandsbanka víxla, svo að fjármagn hans hefir ekki skerzt við það.

En í staðinn fyrir þær afborganir, sem að framan eru nefndar og árlega rýrðu til stórra muna fjármagn bankans, hefir ekki tekizt að afla bankanum neins nýs fjármagns, svo teljandi sé.

Þannig hefir fjármagn bankans þrotið árlega.

Minnkandi fjármagn, og einnig dýrt rekstrarfé, hefir dregið úr afkomumöguleikum bankans undanfarið.

Sparifé hefir bankinn aðeins haft tiltölulega lítið í sínum vörzlum undanfarin ár — miklu minna en áður var. Yfirleitt hefir tiltölulega mjög lítið af því fé, sem hann hafði til að starfa með undanfarið, verið með sæmilegum kjörum.

Kjörin á enska láninu t. d. svo slæm, hinir raunverulegu vextir svo gríðarlega háir, að þeir eru að mun hærri en þeir vextir, sem bankinn hefir tekið af víxlum sínum. Og kjörin á þeim lánum, sem Íslandsbanki hefir sumpart haft föst og sumpart fengið um tíma árlega hjá Landsbankanum, hafa verið þau, að á þeim hefir Íslandsbanki a. m. k. sáralítið eða ekkert hagnazt.

Má af þessu það liggja í augum uppi, að hagnaðurinn af lánastarfsemi bankans undarfarin ár getur ekki hafa verið mikill.

En bankinn hefir verið dýr í rekstri. Það lag er nú einu sinni komið á, að bankarnir á Íslandi launa starfsfólki sínu betur en nokkrar aðrar stofnanir, undantekningarlítið, og hefir samanburður í því efni við ríkisstofnanir orðið flestum lítt skiljanlegur.

Sérstaklega hefir Íslandsbanki jafnan haft dýrt höfuð. Afarhálaunaða bankastjóra, fjölmennt bankaráð og tiltölulega fjölmennan hóp eftirlaunamanna. Fyrr og síðar hefir það verið tízka, að gæta ótrúlega lítillar sparsemi um fé bankans í þessu efni.

Og svo er því yfirleitt þannig varið, að stofnun, sem er að minnka, eins og Íslandsbanki hefir verið að gera undanfarið, á erfitt með að minnka rekstrarkostnaðinn í jafnríkum mæli.

Enn dregur þetta úr afkomumöguleikum bankans og líkum til þess, að hann gæti rétt við.

Svo var til Íslandsbanka stofnað í upphafi, að hann hafði sterka aðstöðu út á við. Hann var a. m. k. með annan fótinn í því landi, Danmörku, sem Ísland hafði þá langsamlega mest viðskipti við. Árum saman átti Íslandsbanki sitt mikla traust að sækja til danskra fjármálamanna og stofnana.

Þessi fótur er nú högginn af.

Ástæður til þess verða ekki raktar í þetta sinn. En mörgum munu þær liggja í augum uppi, að nokkru a. m. k., eftir þeim tíðindum, sem hér hafa gerzt nýlega.

Vinsældir Íslandsbanka og traust í Danmörku hefir mjög rækilega verið að engu gert, og hefir ósleitilega verið að því unnið. Afleiðingarnar fyrir bankann, beinar og óbeinar, er svo breyttist aðstaðan til aðalviðskiptalandsins, stofnana þar og einstaklinga vitanlega líka, munu liggja í augum uppi.

Þetta atriði er eitt hið þýðingarmesta um að skilja, hvernig komið er fyrir bankanum.

Hinsvegar hefir þjóðbankinn, Landsbanki Íslands, eflzt með vaxandi hraða á undanförnum árum við hliðina á Íslandsbanka, sem alltaf hefir verið að minnka.

Landsbankinn hefir dregið til sín meira og meira af sparifé landsmanna, enda ber ríkið sjálft ábyrgð á innieignunum. Hann hefir einnig dregið að sér útlendu viðskiptin, og það sum arðbærustu viðskiptin, með vaxandi hraða.

Inn á við hefir traust Landsbankans jafnan aukizt. Meginhluti þjóðarinnar hefir af ekki óeðlilegum ástæðum látið sér miklu annara um þann bankann, sem hún taldi fyrst og fremst sinn eiginn banka og einhverja þýðingarmestu stofnun þjóðarinnar.

Út á við hefir ekkert það borið við, sem því hefði mátt orka að veikja traust Landsbankans, heldur þvert á móti.

Hnígur enn að hinu sama um afleiðingarnar fyrir Íslandsbanka. Það liggur í augum uppi, að það rýrir afkomumöguleikana að starfa við hliðina á slíkum keppinaut.

Það, sem nú hefir verið fram tekið, er ærið nóg til þess að sýna, að það er ekkert undarlegt, þótt Íslandsbanki hafi lent í erfiðleikum. Hann hefir hlotið að vera í sífelldum erfiðleikum, jafnvel þótt alveg sérstaklega vel hafi látið í ári, og þeir erfiðleikar hafa hlotið að fara vaxandi. Við slíka aðstöðu gat Íslandsbanki ekki átt annað en óvænlega framtíð framundan.

Engan þarf því að undra, þó að Íslandsbanka hafi um síðir rekið upp á sker. Það má nálega svo að orði kveða, að hitt sé undarlegra, að hann gat staðið svo lengi.

Fyrir alllöngu hafði ég fært það í tal við ráðandi menn í Íslandsbanka, hversu óvænleg mér virtist framtíð bankans af þessum ástæðum, sem nú hafa verið nefndar.

Ég benti á það, að fyrir því yrði að hugsa, að hér yrði á einhver breyting, því að þannig gæti þetta ekki gengið áfram.

Þessi ummæli fengu ekki áheyrn, fremur en ýmislegt annað, sem ég bar fram. Mikil bjartsýni um áframhaldandi rekstur bankans virtist a. m. k. vera ríkjandi, og það fram á allra síðustu daga. Þess vegna kom það bankaráðinu, ég held alveg öllu, mjög á óvart, með hve sáralitlum fyrirvara síðustu vandræðin skullu yfir.

Almenningi er að nokkru leyti kunnugt um það áfall, sem bankinn hefir orðið fyrir í útibúinu á Seyðisfirði og uppvíst varð um við rannsókn hins setta bankaeftirlitsmanns á síðastl. hausti. Fyrir banka, sem þegar áður var erfiðlega staddur, er það mikið áfall, að mjög mörg hundruð þúsundir króna hverfa út úr rekstrinum, og að miklu leyti sem gertapaðar. Verður sú ráðsmennska útibússtjórans þar því óskiljanlegri og vitaverðari, hygg ég, því nánar, sem það mál verður athugað að öllu.

En innanlands varð samt enginn órói um bankann út af Seyðisfjarðarmálinu. Góðærið mun hafa átt sinn þátt í að róa menn, og menn hafa haldið, að Íslandsbanki mundi þola þetta sár, eins og svo mörg önnur. —

En þá gerðist sá atburður utanlands, sem telja má víst, að hafi orðið seinasta beina ástæðan til lokunarinnar.

Hlutabréf bankans hafa jafnan verið skráð á kauphöllinni í Kaupmannahöfn, enda hefir meiri hluti hluthafanna jafnan verið danskur.

Hlutabréfin höfðu um langa hríð verið verðföst; keypt og seld, hvert 100 kr. bréf, á 38–40 krónur danskar.

Rúmri viku fyrir lokunina féllu þau allt í einu niður í 24 kr. Næstu dagana stigu þau að vísu dálítið aftur, en það var aðeins stundarfriður. Síðustu dagana fyrir lokunina fóru þau aftur að hríðfalla.

Er svo stutt umliðið síðan, að engar fréttir eru af því komnar, hvað muni hafa valdið þessu snögga og mikla verðfalli hlutabréfanna. Með vissu vil ég og ekki segja, hvað hafi valdið þessu. En það er nú vitað, að fáum dögum fyrir verðfallið hafði aðalviðskiptabanki Íslandsbanka í Kaupmannahöfn bréflega sagt Íslandsbanka upp skuldinni, sem hann á hjá honum og nemur fullum tveim millj. kr.

Það veit enginn hér með vissu, hvort samband er milli þessara tveggja atburða. En það liggur í augum uppi, að þessi lánsuppsögn getur verið langsamlega nægileg ástæða til verðfalls hlutabréfanna. Meira að segja má nálega fullyrða, að hafi það frétzt til hluthafanna, að þessi aðalviðskiptabanki Íslandsbanka hafði krafið hann um alla skuldina, þá hafi það orðið til þess að auka framboð á hlutabréfunum og valdið verðfalli.

En hitt er víst, að þetta verðfall hlutabréfanna varð hin síðasta bein ástæða til þess, að Íslandsbanki varð að loka. Verðfallið kom af stað vaxandi óróa um bankann utanlands. Fyrirspurnir bárust hvaðanæfa að, bæði til einstakra manna og stofnana hér í bænum. Þær leiddu af sér, að óróinn um bankann, sem verðfall bréfanna hafði skapað utanlands, fór nú einnig að gera vart við sig hér.

Ég vil svo út frá þeim umr., sem fram hafa farið hér nú, segja það, að erfiðleikar Íslandsbanka eru miklu meiri og alvarlegri heldur en sumir hv. ræðumenn vilja vera láta. Þess vegna lagði ég líka áherzlu á það á lokaða fundinum síðastl. nótt, að hér dygði ekkert hálfverk, ef reisa ætti bankann við og gera hann færan um að starfa til frambúðar. Ég get því tekið undir með hv. 3. landsk., sem lét hér það álit sitt í ljós, að taka þyrfti fulla ábyrgð á öllum skuldbindingum bankans, ef duga ætti. Það hefir nú verið lagt undir úrslit í þinginu, hvort neita ætti slíkri hjálp. Landsstj. treysti sér ekki til að gera það. Og meiri hl. þingsins treysti sér eigi síðastl. nótt til að gera það, að órannsökuðu máli. En allir erum við reiðubúnir að vinna með öðrum hv. þ.m. að heppilegustu úrslitum þessa máls.