03.02.1930
Neðri deild: 13. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í C-deild Alþingistíðinda. (402)

67. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka, hlutafjárauki o. fl

Fjmrh. (Einar Árnason):

Það hefir komið fram í umr. bæði nú og síðastl. nótt, að einstöku hv. þm. telja, að Landsbankinn hafi sýnt Íslandsbanka meiri stirðleik en sanngjarnt megi teljast og að hann hefði getað greitt betur fram úr vandræðum Íslandsbanka en hann hefir gert. Nú vil ég vekja eftirtekt manna á því, og það er álit mitt, að vandlega beri að greina á milli þeirra tveggja atriða, hvort um venjuleg viðskipti er að ræða, eða hvort svo langt er komið, að um beina hjálp sé að ræða.

Ég lít svo á og veit, að landsbankastj. er sömu skoðunar, að Landsbankinn hafi ekkert leyfi til að veita Íslandsbanka peninga, þegar svo langt er komið, að augljóst er, að það er aðeins stundarhjálp. Lokunin hlýtur að koma. Það verður aðeins dráttur um fáar vikur. Að 625 þús. kr. hefðu bjargað bankanum, er fjarstæða, sem enginn trúir.

Út af því umtali, að Íslandsbanki væri aðalbjargvættur sjávarútvegsins og legði honum til peninga, þá vildi ég skýra frá, hvernig aðstaðan hefir verið milli Íslandsbanka og Landsbankans síðustu mánuðina. Þá bað Íslandsbanki Landsbankann um 625 þús. kr. lán. Einnig fór hann fram á að fá sérstaka samninga um hlaupareikningsfé. Og í þriðja lagi vildi hann fá Landsbankann til að kaupa af sér 4 millj. kr. viðskiptavíxla, aðallega fiskvíxla. Um leið og þetta kemur fram, er því og lýst yfir við stj. Landsbankans, að Íslandsbanki hafi ekkert rekstrarfé og að hann geti ekki greitt ½ millj. kr. víxilskuld við Landsbankann, sem féll í gjalddaga í september síðastl. og hefir legið í vanskilum síðan. Þegar þannig var ástatt, þá finnst mér ekkert undarlegt, þótt Landsbankinn hikaði við að hætta fé sínu lengur til Íslandsbanka. Og þegar þess er ennfremur gætt, að það fé, sem Íslandsbanki lagði fram til sjávarútvegsins, var fengið hjá Landsbankanum að nokkru leyti, þá var það ekki nema krókaleið, að játa það ganga í gegnum Íslandsbanka. Landsbankinn hefir keypt fiskvíxla, og nú vildi hann heldur fara þá leið, að lána beint til notenda. Sú leið er líka eðlilegri. Ég get heldur ekki séð, að það sé lakara, að það fé, sem Landsbankinn leggur hvort sem er til útgerðarinnar, komi beint frá honum, heldur en þó það fari í gegnum Íslandsbanka.

Hinsvegar er það álit mitt, að það væri betra fyrirkomulag, að tveir bankar störfuðu hér. Gæti þá hvor þeirra tekið að sér vissa tegund af útlánum. Væri því gott, að Íslandsbanki gæti haldið áfram starfi sínu, eða þá nýr banki í hans stað, ef hann gæti orðið svo sterkur, að seðlabankinn gæti áhættulaust látið hann fá þá seðlafúlgu, er hann kynni að þurfa til þeirrar starfsemi. Nú var svo komið í síðastl. mánuði, að landsbankastj. sagði, að ekki væri lengur til sín að leita um hjálp, heldur yrði stj. Íslandsbanka að leita til landsstj. um aðstoð. Þetta voru sjálfsögð svör frá bankans hálfu. Bæði bankastjórum og bankaráði Landsbankans var það ljóst, að seðlabanki landsins mætti ekki stofna sér í slíka fjárhagshættu. Ég skal ekkert um það segja, hvort hér var um mikla eða litla hættu að ræða. En hætta var það; og það eitt var víst, að hér var eigi lengur um viðskipti að ræða, heldur hjálp. Og það er meira að segja vafamál, hvort Landsbankinn hefir haft heimild til þess að ganga eins langt og hann gerði.

Það var eitt atriði í ræðu hv. 1. þm. Reykv., sem vakti athygli mína. Hann lagði ekki lítið upp úr þeirri skoðun, sem fór fram á Íslandsbanka um leið og hann lokaði, og gerð var á einum sólarhring. Ég skal vitanlega ekkert um það segja, hve ábyggileg hún er. Getur verið, að hún sé það, og getur líka verið, að hún sé það ekki. En það eitt er víst, að hv. 1. þm. Reykv. veit ekkert um það, hve ábyggileg þessi 24 klst. skoðun er. Ég vil benda á það, að þegar Landsbankinn var rannsakaður síðast, þá ætla ég, að fimm menn hafi framkvæmt þá skoðun og verið að því í sex mánuði. Og þótt ég vilji alls ekki gera lítið úr þessum mönnum, sem litu yfir pappírana í Íslandsbanka um kvöldið, þá finnst mér ekki, að þingið geti tekið þetta sem góðan og gildan úrskurð um það, að það sé engin hætta fyrir ríkið að taka á sig ábyrgð á stórum fjárútlátum fyrir bankann. Það þarf að koma eitthvað fram, sem meiri veigur er í, til þess að það sé alveg víst, að hér sé engin áhætta fyrir ríkissjóðinn.