10.02.1930
Neðri deild: 20. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í C-deild Alþingistíðinda. (410)

67. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka, hlutafjárauki o. fl

Frsm. minni hl. (Ólafur Thors):

Þó að mér þyki ekki, sem öll meðferð þessa máls hafi verið með sem mestri einlægni, get ég ekki annað en láðst að þeirri hreinskilni, sem kemur fram í vali hv. meiri hl. n. á frsm. Mér finnst mjög vel til fallið, að þessir tveir framsóknarmenn, sem eiga sæti í n. og eru auk þess flm. að öðru því frv., sem fyrir liggur um bankann, skuli velja sér sósíalista sem frsm. Sósíalistar hafa lengi sem flokkur verið ráðnir fjandmenn Íslandsbanka og hefðu verið banamenn hans, ef þeir hefðu getað. Þetta er því viðeigandi áframhald af því, að Alþýðublaðið hefir verið látið segja það, sem ekki var talið rétt, að Tíminn segði.

Um framsöguræðu hv. frsm. meiri hl. vil ég segja það, að í sjálfu sér snerti hún að engu leyti kjarna þessa máls. Forsaga málsins var rædd við 1. umr. þess á mánudaginn var í hv. d. og er í rauninni útrætt mál, sem a. m. k. aðeins að litlu leyti getur haft, áhrif á þær ákvarðanir, sem nú liggur fyrir hv. d. að taka. Það er nefnilega ekki um það að ræða að endurreisa bankann eins og hann var fyrir 10 árum, heldur að endurreisa Íslandsbanka eins og hann var fyrir lokunina og er nú, og það er stofnun, sem hægt er að meta sjálfstætt út af fyrir sig án tillits til forsögu málsins eða þess, sem valdið hefir stöðvun bankans.

Að svo miklu leyti, sem hv. frsm. meiri hl. vék að sögu eða meðferð þessa máls í n., sagði hann ýmist ónákvæmlega eða órétt frá. Minni hl. n. hefir sagt sögu málsins í sínu áliti, og sé ég ekki ástæðu til að endurtaka hana hér í umr., og er það sumpart vegna þess, að saga málsins mun koma almenningi fyrir sjónir, þar sem álit okkar minnihl.manna verður birt í víðlesnasta blaði landsins innan skamms. Þó þykir mér rétt að drepa örlítið á sögu þess í n., og er þá fyrst um hana að segja og út á hana að setja, að þrátt fyrir ítarlegar tilraunir okkar flm. þess frv., sem liggur hér fyrir til umr., til að hafa fregnir af skoðun bankastjóra Landsbankans, hefir hvorki tekizt að fá vitneskju um skoðanir þeirra né ráðleggingar um, hvaða leið skuli fara. Þó er það vitanlegt, að alstaðar þykir sjálfsagt, þegar slík flókin fjármál koma fyrir, að fyrst sé spurt, hvað stjórn seðlabanka ríkisins leggi til að gert sé. Og svo rammt hefir það verið, að þótt okkur minnihl.mönnum tækist síðastl. laugardag að fá formann n. til að æskja þess, að bankastjórar Landsbankans kæmu á fund í þeim tilgangi að hafa spurnir af þeim um álit þeirra í málinu, fengum við engin svör við fyrirspurnum okkar, þegar þeir komu. Bankastjórarnir óskuðu eftir að fá að vita, hvort þær fyrirspurnir væru bornar fram í nafni n. eða hvort n. sem slík óskaði þeim svarað; og við atkvgr. tókst svo undarlega til, að við sjálfstæðismenn tveir einir greiddum atkv. með því, en hinir, og þar með sjálfur form. n., neituðu að greiða atkv. En bankastjórarnir sögðu: Fyrst meiri hl. n. óskar þess ekki, sjáum við ekki ástæðu til að svara. En þetta er því ferlegra fyrir það, að fyrirspurnir okkar voru málinu ekki lítt eða óviðkomandi, heldur miðuðu þær að innsta kjarna þess, þar sem við spurðumst fyrir, hvort þeir teldu tiltækilegt að opna Íslandsbanka að nýju með framlagi ríkissjóðs, ef aðgengilegir samningar fengjust við aðra skuldheimtumenn bankans; hvort þeir teldu nauðsynlegt, að ríkisstj. hefði afskipti af málinu; og í þriðja lagi, hvort þeir ef til vill litu svo á, að alls ekki væri hægt að opna bankann að nýju. Þegar slíkar fyrirspurnir eru bornar fram í jafnalvarlegu máli, þá stappar það háðung næst, að formaður n., sem kvatt hefir þennan ábyrga aðila til fundar, skuli aftra því, að svar fáist, og það því fremur, sem þetta er aldraður, reyndur og gáfaður þm., sem hér á í hlut. Þetta er þinghneisa.

Að öðru leyti vil ég víkja að því um störf n.; að eins og hv. frsm. meiri hl. gat um, vorum við nm. sammála um það fyrsta daginn, að engin tök væru á að ráða málinu til lykta þá, heldur ættum við að afla upplýsinga og bera okkur saman. Svo var það á miðvikudag — en við höfðum tekið við málinu á mánudag —, að fregnir munu hafa borizt hingað frá útlöndum, sem vöruðu sterklega við afleiðingunum fyrir ríkið af því, ef bankanum væri lokað. Meðal þeirra, sem vara við afleiðingunum, er sendiherra okkar í Kaupmannahöfn, og hann mun hafa varpað fram uppástungum um leiðir, sem til athugunar kæmi, hvort reyndust færar, og leiða að því marki að opna bankann aftur. Þegar þessar fregnir bárust n., þótti öllum nm., a. m. k. sjálfstæðismönnum og framsóknarmönnum, sem sjálfsagt væri að athuga gaumgæfilega þessar leiðir, sem sendiherrann hafði lauslega vakið máls á, og vorum við sammála um að ekki dygði um það að fást, þó að einhver frestur yrði á störfum n. Nú fór svo, að sú rannsókn stóð yfir síðari hluta miðvikudags, fimmtudag, föstudag og fram á laugardag. Það, sem ég nú hefi við meðferð málsins að athuga, er það, að við sjálfstæðismennirnir í n. vorum hvorki kvaddir til ráðagerða né til þess að taka ákvörðun um, með hverjum hætti þessum lauslegu málaleitunum sendiherra vors skyldi svarað. Málið var þannig í þýðingarmiklum og veigamiklum atriðum dregið úr höndum n. og fært yfir í hendur flokks eða flokka. Þetta tel ég mjög aðfinnsluvert. Hitt tel ég líka undarlegt, að þegar loks kemur svar frá sendiherranum við þeirri fyrirspurn, sem hæstv. forsrh. hafði sent honum í tilefni af hinu upphaflega skeyti hans, — þegar loks kemur svar, sem ég held, að beri það með sér, að hann telji þær leiðir færar, sem honum höfðu hugkvæmzt, þá er slitið samningsumleitunum við hann. Mér er spurn: Til hvers er verið að þessu, ef það átti að verða til þess, að ef sendiherrann teldi tök á að leiða málið til heppilegra lykta, þá yrði hætt að semja um það? Ég vil ekki gera þessum mönnum getsakir, en rökrétt ályktun af þessu er sú, að sendiherrann hafi verið spurður í fullu trausti þess, að svar hans yrði að síðustu neitandi.

Ég ætla ekki að ræða þessi skeyti, af því að hæstv. forsrh. hefir óskað, að þau verði ekki gerð að umtalsefni, nema að takmörkuðu leyti, enda þótt öll slík skeyti ætti að gera opinber.

Í fáum dráttum er það þá þetta tvennt, sem ég ámæli n. og hinum ráðandi þingmeirihluta fyrir, og mun ég svo ekki fara nánar út í meðferð málsins. Aðeins skal ég skýra frá því, að eftir að þetta svarskeyti sendiherra hafði borizt, og við höfðum haldið fund á laugardagskvöld, þótti sýnt, að ekkert samkomulag næðist, og óskuðum við ekki frekari árangurslausra tilrauna, heldur yrði samningum slitið við meðnm. okkar og reynt að reka málið áfram í einhverju formi.

Við minnihl.menn erum á öndverðum meiði við hv. meiri hl. um, hverja leið beri að fara í þessu máli. Við teljum rétt og sjálfsagt að opna bankann og álitum þá aðferð ekki aðeins heppilegasta, heldur einu réttu leiðina. Það er ekki með sanni hægt að vefengja, að stórtjón mundi af hljótast fyrir landið, ef bankanum verður lokað að fullu. En um hitt er hægt að deila, — því að jafnan má um flest deila —, hvort það tjón, er landið bíður, ef bankanum verður lokað að fullu, er meira eða minna en sá skaði, sem kynni að hljótast af ráðstöfunum þeim, sem þyrfti að gera til þess að bankinn gæti hafið starfsemi sína að nýju; og um þessa hlið málsins erum við nm. að sjálfsögðu á öndverðum meiði.

Ég tel, að margar leiðir megi fara til þess að opna megi bankann að nýju, en ég ætla að láta mér nægja á þessu stigi málsins að ræða sérstaklega út frá þeim till., sem við hv. 1. þm. Skagf. flytjum, en eins og menn vita, miða þær að því, að ríkið leggi bankanum til starfsfé að upphæð 3 millj. kr. og ríkissjóður taki ábyrgð á innstæðufé hans.

Þegar menn ræða um, hver áhætta fylgi þessu, verður að sjálfsögðu fyrst að spyrja um það, hvernig sé hagur Íslandsbanka, þeirrar stofnunar, sem farið er fram á, að ríkið leggi til fé og taki ábyrgð á. Nú er það að segja um hag bankans, að hann hefir verið metinn alveg nýlega, að vísu í skyndi, en þó má ganga út frá, að það mat hafi við mikil rök að styðjast. Matsmennirnir komust að þeirri niðurstöðu, að bankinn ætti fyrir skuldum, eða sem næst því. En þá er ástæða til að spyrja. Hver bað um matið og útnefndi matsmennina? Það var hæstv. forsrh. Ég veit, að ég má segja það um annan matsmanninn, Pétur Magnússon bankastjóra, að honum mun ekki hafa verið annað ljóst, þegar hann uppfyllti ósk um matið, heldur en að hún væri borin fram af forsrh. Íslands. Þess vegna er það svo, að ef ekki má neitt upp úr þessu mati leggja, þá vaknar sú spurning: Hvers vegna var hæstv. forsrh. þá að biðja um það?

Það er ekki nema eðlilegt, að sú spurning komi fram í huga margra, hvernig þetta mat hafi verið framkvæmt og hversu megi treysta því. Á því veltur í raun og veru endanleg úrlausn þessa máls að talsverðu leyti. Er því rétt að segja nokkuð nánar frá þeirri rannsókn. Hið eina, sem við bankamálanm. getum eiginlega hælt okkur af, er, að við fengum þá menn, er rannsakað höfðu hag bankans, þá bankaeftirlitsmann Jakob Möller og bankastjóra Pétur Magnússon, á fund til n. Möller sagðist hafa athugað bankann í ársbyrjun 1927, og þá athugað hag þeirra viðskiptamanna bankans, er skulduðu 2000 kr. og þar yfir. Gerði hann skýrslu um þá menn alla, er ber með sér álit hans á hag hvers einstaks skuldunauts, eins og hann áleit hann vera þá. Sú skýrsla var nú lögð til grundvallar fyrir hinu nýja mati. Til viðbótar var svo notuð sú bók bankans, þar sem skrásettir eru allir skuldunautar bankans, lánsupphæðir og tryggingar þeirra. Auk þess fengu þeir skýrslu frá bankastjórum og starfsmönnum bankans um alla stærri viðskiptamenn. Eftir að hafa athugað öll þessi plögg, komust matsmennirnir að niðurstöðu um það, að það væru 60–70 nöfn alls, sem sérstaklega þyrfti að athuga. Þessi tala færðist svo niður í 45 nöfn, er nánar var athugað. Með þessi 45 nöfn var síðan fylgt þeirri reglu, að ef ekki var alveg tvímælalaust að ræða um eignir fram yfir skuldir, þá kröfðust matsmennirnir þess að fá að sjá rekstrar og efnahagsreikning viðkomandi manns. Dómur matsnefndar var þó eigi upp kveðinn eftir þeim reikningum, heldur eftir áliti matsmanna á raunverulegu gildi þeirra reikninga. T. d. spurðust þeir fyrir um hag ákveðins skuldunauts. Að eigin dómi átti sá maður til 350 þús. kr. En til grundvallar lögðu þeir samt ekki það mat, heldur sitt eigið. Og eftir því töldu þeir þann mann eiga 150 þús. kr. og byggðu svo dóm sinn á því. Eftir þessari reglu fóru þeir með alla hina aðra stærri skuldunauta bankans.

Þegar nú slíkt mat er framkvæmt af bankaeftirlitsmanninum sjálfum og auk þess af manni, sem nýtur þess sérstaka trausts hæstv. forsrh., að hann velur hann til þessa starfs, enda þótt hann sé ekki pólitískur jábróðir hæstv. ráðh., og matið svo er framkvæmt eins afarvarlega og ég hefi nú lýst, þá finnst mér erfitt að vantreysta niðurstöðunni. En ef stj. samt sem áður vantreystir þessu mati, eða niðurstöðum þeim, er það hefir leitt í ljós, hversvegna hefir hún þá ekki látið fara fram nýtt mat? Einasta ástæðan til þess hlýtur þá að vera sú, að ríkisstj. vill ekki hjálpa bankanum, hversu góður sem hagur hans reynist að fullrannsökuðu máli. Ef nú matið er rétt, þannig að bankinn eigi fyrir skuldum, þá er áhætta ríkissjóðs við að ábyrgjast bankann ekki önnur né meiri en sú áhætta, sem stafa kann af rekstri bankans í framtíðinni, þ. e. a. s. áhættan af skiptavinum bankans. Nú er því haldið fram af andstæðingum okkar, að viðskipti Íslandsbanka eigi að mestu leyti að flytjast yfir til Landsbankans. Ef svo yrði, þá verður áhættan hin sama fyrir ríkissjóð, því samkv. lögunum frá 1928 ber ríkissjóður alla ábyrgð á skuldbindingum Landsbankans. Annarsvegar yrði því áhættan fyrir ríkissjóð gegnum Landsbankann, hinsvegar gegnum Íslandsbanka. Með hliðsjón af matinu má því segja, að hér er aðallega um tilfærslu á ábyrgð ríkissjóðs að ræða.

En hvað verður svo, ef bankanum er lokað að fullu og öllu? — Ég hygg, að þó andstæðingar okkar hafi nokkuð til síns máls um það, að færsla viðskiptanna gangi til Landsbankans, og þótt fullur vilji sé á því hjá stj. og bankastjórum Landsbankans að hlaupa eftir mætti undir bagga, þá sjái þó allir, að atvinnureksturinn mun bíða stóran halla meðan sú tilfærsla fer fram milli bankanna. En auk þess mun Landsbankinn hvorki vilja né geta tekið við öllum þeim atvinnufyrirtækjum, og munu mörg þeirra falla í rústir með lokun Íslandsbanka. Atvinnurekstur landsmanna er hinsvegar að sjálfsögðu svo þýðingarmikill fyrir afkomu ríkissjóðs og þjóðfélagsins í heild, að allrar varúðar verður að gæta um þær ráðstafanir, sem orðið geta til þess að veikja hann og fella í rústir. Ekki sízt mundi þetta koma hart niður á mönnum úti um land, og þó einkum þar, sem svo er ástatt, eins og t. d. í Vestmannaeyjum, að ekki var nema um lánsstofnun Íslandsbanka eina að ræða. Þar mundi tilfærslan taka svo langan tíma, að jafnvel þeir, sem annars hefðu verið vel stæðir, mundu ekki þola það.

Þá er viðskiptum margra þannig háttað, að jafnvel með góðum vilja er naumast hægt að flytja þau milli banka. Margir skiptavinir Íslandsbanka hafa orðið að veðsetja honum allar sínar eignir til tryggingar lánum, án þess þó að lánað hafi verið að fullu út á þær. Þessir menn hafa því ekkert veð að láta til annars banka, enda þótt hægðarleikur væri og alveg áhættulaust fyrir þann banka, sem veðið hefir, að auka við lánið, er nauðsyn krefur. Hér væri því um allt annað að ræða, ef Landsbankinn ætti að fara að lána slíkum mönnum tryggingarlaust, nema þá að Landsbankinn leysti út veðin frá Íslandsbanka, en slíkt gerist ekki umsvifalaust eða án tafar. Hvernig sem því á það er litið, og með hve mikilli góðvild, sem á þessu yrði tekið, hlyti þó jafnan stórtjón af niðurlagningu bankans að leiða fyrir alla, og lömun og hrun fyrir atvinnuvegina. Ef því Íslandsbanki verður nú lagður á höggstokkinn, þá fara mörg fyrirtækin með. Og þá safnast skuldir og koma fram töp, sem ekki hefðu þurft að verða, ef vilji meiri hl. þingsins færi í þá átt að reisa bankann við. Má því gera ráð fyrir því, þótt bankinn eigi nú fyrir skuldum, að hann eigi það ekki, ef hann verður gerður upp. Og það er ekkert vit í þeirri bjartsýni, að búast við því, að hann eigi fyrir skuldum, ef hann verður lagður á höggstokkinn. Og ef það nú er rétt, sem ég fullyrði að sé, hvar lendir þá sá skaði, sem af því hlýzt? Hann lendir í fyrsta lagi á þeim 10 þús. sparisjóðseigendum, er trúað hafa Íslandsbanka fyrir fé sínu. Og í öðru lagi lendir hann á þeim erlendu lánardrottnum bankans, sem annaðhvort í greiðaskyni eða í trausti þess, að atvinnulíf vort sé heilbrigt, hafa lánað fé sitt hingað.

Um fyrri liðinn, sparisjóðsféð, skal ég ekki fjölyrða. Ég vil aðeins benda á, að réttur sparisjóðseigenda er að því leyti sterkur, að þeir menn, sem leggja inn fé með lágum vöxtum, gera það sem aðalkröfu, að það sé tryggilega geymt. Þetta fé gengur til atvinnurekstrar þjóðarinnar og miðar að því að gera þjóðina sjálfstæða og sterka. Þessir menn eiga því skilið hina beztu meðferð, sem hægt er að láta í té, og eiga kröfu til hennar. Hér er um 10 þús. manns að ræða, sem fæstir eru efnaðir, og þola því ekki tap á fé sínu. Er því skylda löggjafans að gera það, sem hægt er, fyrir þá, ekki sízt þar sem ekki mun hægt að fullyrða, að aðgerðir þingsins 1928, er það tók ábyrgð á Landsbankanum, valdi eigi að einhverju leyti væntanlegu tjóni sparifjáreigenda. Þau lög hafa leitt til þess, að menn hafa frekar geymt fé sitt í Landsbankanum en í Íslandsbanka. En það er einmitt fyrst og fremst þörf bankans fyrir handbært fé, sem veldur nú, hvernig komið er, þótt fleiri séu orsakirnar. Ég vil því rækilega brýna fyrir löggjafanum þá skyldu, að sem bezt verði farið með þessa menn.

Um hina hlið málsins, lánstraust vort út á við, er það að segja, að þar ber mikið milli skoðana okkar og hv. meiri hl. n. Þeir segja í nál. sínu á þskj. 83, með leyfi hæstv. forseta:

„Hættan við lánstraustsspjöll erlendis, sem hrun bankans geti bakað íslenzku þjóðinni og ríkinu, ef ekki verður tekin ábyrgð á öllum skuldbindingum hans, álítur meiri hl. ótímabæran hugarburð“. Og ennfremur segir þar: „En rétt skil um fjárreiður bankans, eftir lögfullri skiptameðferð, mundi öllu líklegri til að endurreisa viðskiptatraustið út á við“.

Þetta er nú í mínum augum álíka viturlegt og ef því væri haldið fram, að þeim mun meira sem væri prettað og svikið, eða því minni sem getan væri, þeim mun meira yrði lánstraustið. Ég hygg, að hv. meiri hl. n. verði einn um þessa skoðun sína. Ég vil í þessu sambandi minna þá á það, sem form. flokks þeirra, hæstv. forsrh., segir um þetta efni í Tímanum síðastl. laugardag. Hann segir þar, með leyfi hæstv. forseta: „.... það liggur í augum uppi, að lokun Íslandsbanka hefir, í bili a. m. k., einnig mikil áhrif fyrir íslenzka ríkið, lánstraust Íslendinga og álit yfirleitt“. — Ég held, að það sé hugarburður hjá hv. meiri hl. n., að þetta sé hugarburður hjá hæstv. forsrh. Ég held einmitt, að hann hafi hér full rök að mæla, eins og við minnihl.mennirnir, sem finnum til þess, að við mundum kikna undir þeim ofurþunga ábyrgðar þeirra álitsspjalla, er af því mundi leiða, ef bankanum væri lokað til fulls. Og þótt í rauninni sé óþarfi að leiða mörg vitni fram í svo augljósu máli, og nóg ætti að vera að vitna í hæstv. forsrh. til að sannfæra flokksmenn hans, þá skaðar þó eigi að nefna, að úr mörgum áttum hafa borizt hingað viðvörunarskeyti, sem brýna það fyrir oss, hvert alvörumál þetta sé og hvað örlagaþrungnar afleiðingar það geti haft, ef bankanum verður lokað. Ég skal sérstaklega minna á skeyti Sveins Björnssonar sendiherra, sem varar sterklega við þessu. Ég álít því þessi ummæli hæstv. forsrh. alveg rétt, svo langt sem þau ná. En við þau má miklu bæta.

Ég get ekki alveg leitt hjá mér þá hlið þessa máls, sem hv. frsm. meiri hl. gat um. Hann gerði samanburð á Íslandsbanka annarsvegar og einkafyrirtæki hinsvegar og lagði það tvennt að jöfnu.

Hann taldi, að ríkið bæri enga frekari ábyrgð á bankanum en hverju öðru einkafyrirtæki. En hér er ólíku saman að jafna. Skipun bankastjórnar og bankaráðs Íslandsbanka er svo háttað, að við komumst ekki undan því áliti útlendinga, að hér sé í raun og veru um þjóðbanka að ræða. Forsrh. er sjálfkjörinn formaður bankaráðsins og helmingur þess skipaður af Alþingi Íslendinga. Af bankaráðinu er svo einn bankastjóri skipaður, en hinir tveir af ríkisstj. Hvernig má það vera, að slíkur banki sé álitinn ríkinu óviðkomandi? Ég er hræddur um, að vanskil þessa banka verði talin vanskil hins íslenzka ríkis og varpi skugga á það, og alveg eins og það er nauðsynlegt lánstrausti hvers einasta manns að standa í skilum, eins er því varið fyrir þjóðunum, og ekki sízt fyrir okkur, sem erum svo smáir. Lánstraustið er fátæklingsins einasta lamb. Og það má með miklum rétti segja, að það sé bezta eign vor Íslendinga.

En svo hættulegt sem ég tel okkur það vera, ef við verðum vanskilamenn fyrir getuleysi og flekkum þar með lánstraust okkar, þá er þó hitt helmingi hættulegra, ef við refjumst um að standa í skilum og hægt er að segja, að við hefðum getað það, en bara ekki viljað gera það. Og þetta verður sagt, ef bankanum verður lokað til fulls, og það með miklum rétti. Það verður sagt, að bankinn hafi verið metinn af hæfum mönnum, skipuðum af sjálfum forsrh., og að það mat hafi sýnt, að bankinn mundi eiga fyrir skuldum. Þetta verður sagt. Og við getum ekki neitað því. Ef nú svo erlendir aðiljar krefjast þess síðar, að Íslendingar standi við skuldbindingar Íslandsbanka, er þá nokkur sá, er telur lánstraust okkar erlendis standa svo föstum fótum, að hann þori nú að fullyrða, að við getum þá sagt nei við þeim kröfum? En ef við neyðumst til að segja já, þá er öll meðferð þessa máls okkur bæði til vansa og stórskaða. Því það er hvorttveggja, að ábyrgðin verður miklu dýrari, ef bankinn er að velli lagður, og hitt, að lánstraust okkar bíður þess seint bætur, ef það sannast, að neyðin en ekki skilvísin réði gerðum okkar.

Það er því ekki eitt, sem styður álit okkar minni hl., heldur allt.

Ég enda mitt mál með því að lýsa yfir fyrir okkar hönd, að við erum reiðubúnir til samninga við hverja þá menn og um hvert það samkomulag, sem gæti leitt til þess, að bankinn yrði opnaður, án þess að við teldum, að með því yrði ríkissjóði stofnað í áhættu. Við erum reiðubúnir til slíks samkomulags, og við teljum engin tvímæli á, að að þessu marki liggi ekki aðeins ein leið, heldur margar leiðir.

0411