10.02.1930
Neðri deild: 20. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í C-deild Alþingistíðinda. (412)

67. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka, hlutafjárauki o. fl

Fjmrh. (Einar Árnason):

Forsaga þessa máls er ekki löng. Ég býst við, að öllum hv. þm. sé minnisstætt, þegar þeir fengu tilkynningu fyrir rúmri viku síðan, að lokun Íslandsbanka stæði fyrir dyrum. Það var þannig lagt fyrir, að þess var krafizt mjög alvarlega, að þingið tæki á sig fyrirvaralaust ábyrgð á öllum fjárreiðum Íslandsbanka. Það var farið fram á þetta, jafnvel þótt engin skýrsla lægi fyrir um fjárreiður bankans. Bankastj. hafði ekkert lagt fyrir, sem hægt var að fóta sig á. Og nú — eftir viku — hefir enn ekkert komið fram til skýringar á því, hvernig í raun og veru fjárhagur bankans er. Bankastj. hefir enn ekki skýrt frá því, hvorki fjmrn. eða seðlabanka ríkisins, að hann hafi yfir höfuð lokað. Það hefði þó mátt ætla, að eitthvað hefði komið fram frá bankanum þess efnis, að hann óskaði a. m. k. aðstoðar til þess, að ekki yrði hægt að gera fjárnám í bankanum.

Ég verð nú að segja það, að mig undrar það mjög, ef bankastjórn Íslandsbanka hefir ekki verið kunnugt fyrr en allra seinustu daga, hvernig fara myndi. Mig undrar það, að síðastl. þrír mánuðir skuli ekki hafa sýnt henni það glöggt og ljóst, til hvers myndi draga. Ég veit ekki til, að bankinn hafi átt neina von um það síðustu mánuðina, að fá fé til rekstrar. Og ég held, að öllum, sem til þekkja, megi vera ljóst, að slíkt var óhjákvæmilegt fyrir hann, ef hann átti að geta haldið áfram starfi.

Þegar þetta mál var lagt hér fyrst fyrir þingið, var engar upplýsingar hægt að fá um fjárhag bankans, aðrar en þær, sem komu fram í ræðum ýmissa þeirra manna, sem mæltu fastast með því, að ríkissjóður tæki á sig alla ábyrgð á öllum fjárreiðum bankans. Þá var það talið orsök að lokun bankans, að hann hafi orðið að afborga svo mikið af skuldum sínum. Það mun hafa verið hv. 2. þm. G.-K., sem gaf nokkra skýrslu um þetta efni. Sú skýrsla hefir nú verið prentuð í einu dagblaðinu. Ég bar þá þegar nokkrar brigður á, að hann færi með rétt mál í einstökum atriðum, og hv. þm. gekk fast eftir að vita hjá mér, í hverju missagnir hans lægju. (ÓTh: Ég vil taka fram, að það er ein prentvilla í hinni prentuðu skýrslu). Ekki mun ég ásaka hv. þm. fyrir eina prentvillu; hennar gætir svo lítið í öllu hans rangfærslumoldviðri. En ég geri ráð fyrir, að okkur beri allmikið á milli um ýmsar þær tölur, sem fram hafa komið, og niðurstöðurnar, sem hann hefir komizt að um það, hvað mikið Íslandsbanki hafi minnkað skuldir sínar á árinu 1929. Ég ætla ekki algerlega að ganga út frá því, sem hv. 2. þm. G.-K. sagði, en aðallega halda mér við það, sem kom fram hjá öðrum, vegna þess að hv. 2. þm. G.-K. fór nokkuð lengra en aðrir í því að slá föstu um þetta efni. Ég held mig þá aðallega við fullyrðingar Íslandsbankastjórnarinnar sjálfrar, sem fram komu í bréfi því, sem hún skrifaði mér og lesið var hér upp á fyrsta fundi um þetta og einnig birt í blöðum. Þar telur bankastj., að bankinn hafi lent í erfiðleikum mikið vegna þess, að hann hafi minnkað skuldir sínar um eina millj. kr. Ef ég man rétt, mun hv. 2. þm. G.-K. hafa haldið fram, að þær hafi minnkað um1½ millj. kr. Í þessu sambandi hefir verið haldið fram, að afborganir og greiðslur af lánum hafi verið þessar, sem hér segir:

Til Privatbankans 400 þús. kr., til póstsjóðsins danska eða ríkissjóðsins 400 þús. kr. Til Landsbankans, helmingur af dollaravíxlinum, 500 þús., afborgun af enska láninu 100 þús., og seðlainndráttur 625 þús. Þetta gerir samtals 2 millj. 25 þús. kr.

Nú er þetta að því leyti rangt, að bankinn seldi gull fyrir 560 þús. kr., þegar hann dró inn seðlamilljónina. Þetta rýrði því ekki fjármagn bankans, nema um mismuninn á 560 þús. og 1 millj., eða um 440 þús. Gullið fékk hann greitt með seðlum frá Landsbankanum. Þess vegna er þessi upphæð á afborgunum oftalin um (625000 = 440000) 185 þús. Skuldalækkunin er því ekki 2 millj. 25 þús., heldur 1 millj. 840 þús.

Á móti þessu hefir Íslandsbanki hækkað skuldir sínar þannig: Við Landsbankann hefir skuldin hækkað úr 1844 þús., sem hún var í lok ársins 1928, upp í 3 millj. 347 þús. í árslok 1929, eða um rúmlega 1½ millj. Við Hambros Bank í London úr 2000 sterlingspunda innieign 31. des. 1928 í 40000 sterlingspunda skuld 31. des. 1929. Hækkunin er því 930 þús. krónur.

Skuldahækkunin alls á árinu er þá orðin samkv. þessu 2 millj. 433 þús., en lækkunin 1 millj. 840 þús., eins og ég hefi áður tekið fram. Útkoman er þá sú, að bankinn hefir hækkað skuldir sínar á síðasta ári um 593 þús. kr. Þetta er sú rétta niðurstaða, þrátt fyrir það, þó hv. 2. þm. G.-K. og fleiri haldi því fram, að bankinn hafi lækkað skuldirnar um 1–1½ millj.

Um aðrar skuldir bankans verður ekkert vitað með vissu, vegna þess — eins og ég hefi tekið fram —, að engar skýrslur hafa komið fram um það atriði. Ekki hafa heldur neinar skýrslur verið gefnar um það frá bankastj., hverjar mundu vera aðkallandi útborganir eða skuldagreiðslur bankans á yfirstandandi ári, ef hann heldur áfram starfi sínu.

Ég hefi heyrt á það minnzt, að þýzkur banki mundi eiga inni í Íslandsbanka ½ millj. kr. Ekki þori ég að fullyrða, hvort þetta er rétt, og það er erfitt að vita, hvernig þessu í raun og veru er varið, því bankastj. þegir um þetta o. fl. Aðrir erlendir bankar munu eiga þar inni um 300 þús. kr. Það hefir ennfremur verið sagt í blöðunum, að bæjarsjóður Reykjavíkur ætti allmikið fé í bankanum, sem hann þyrfti að útborga á þessu ári, og sennilegt þykir mér, að þessar skuldir þurfi allar að greiða.

Þá er enn eitt atriði. Það eru ábyrgðir bankans. Það er vitanlegt, að bankinn er í ábyrgðum fyrir ýmsa viðskiptamenn sína. Hversu miklar þær ábyrgðir eru, hefir maður ekki nokkra minnstu hugmynd um. Ekki veit ég heldur, hvort þeir tveir menn, sem framkvæmdu skyndimatið, hafa tekið nokkurt tillit til þeirra ábyrgða, — veit ekki, hvort þeir hafa fengið skýrslu um þær. En það getur vitanlega haft mikið að segja, hvort þessar ábyrgðir eru teknar með í matinu eða ekki.

Ég skal ekki eyða miklum tíma í að rökræða það við hv. frsm. minni hl. n., hver sé hættan fyrir ríkissjóð, ef bankanum er lokað, eða hvað hún sé mikil, ef ríkið tekur hann að sér að öllu leyti. Hv. frsm. taldi, að áhættan við lokun bankans væri gífurlega mikil. Hann viðurkenndi það, að mér skildist, að einhver hætta gæti verið í því að reisa hann við. Og hann sagði, að um þá hættu mætti alltaf deila. Það er alveg rétt hjá honum. Um þetta hvorttveggja má alltaf deila. Og mér dettur ekki í hug að halda því fram eitt augnablik, að lokun bankans skapi okkur ekki erfiðleika. Og mér dettur heldur ekki í hug að halda fram, að þetta mál sé ekki eitt það allra stærsta fjárhagsmál, sem við höfum haft með höndum nú lengi. En málið er eigi að síður svo vaxið, að það er mjög mikil ástæða til þess að sjá fótum sínum forráð við lausn þess, eftir því sem mögulegt er. Ég ásaka engan, þótt hann hafi þá skoðun, að réttara sé, að ríkið taki á sig áhættuna við að reisa bankann. En ég vil heldur ekki, að þeir ásaki hina, sem vilja líta í kringum sig áður en þeir samþ. að binda þjóðinni þann bagga að taka bankann algerlega upp á sínar eigin herðar.

Hv. frsm. minni hl. minntist á, að sparifjáreigendur yrðu hart úti. Víst geta þeir orðið hart úti. En það er ekki fyrsta skipti, sem sparifjáreigendur hér á landi hafa tapað fé sínu, og hefir ekkert verið um það fengizt — alls ekki minnzt á, að ríkissjóður ætti að borga þeim. Það má minna á sparisjóðinn á Eyrarbakka, sem varð gjaldþrota. Hann var til umr. í þinginu, og aldrei minnzt á það, að ríkissjóður ætti að bera tap sparifjáreigenda. Annar sparisjóður er nú þegar kominn í gjaldþrot, og ég veit heldur ekki til, að neinn hafi nefnt, að ríkissjóður ætti að taka hann upp á sínar herðar.

Hv. frsm. minni hl. talaði um, að lánstraust okkar í útlöndum mætti telja „fátæka mannsins einasta lamb“. En hver er það, sem að hans dómi hefir lagt á höggstokkinn þetta einasta lamb fátæka mannsins? Er það þjóðinni í heild að kenna, að svo hefir farið fyrir Íslandsbanka, sem raun er á orðin? Er það almenningur í landinu, sem hefir stjórnað bankanum? Eða hver ber ábyrgðina? Mér hefir virzt, að meðhaldsmenn bankans gleymi því jafnan, að þetta er einkastofnun, sem alltaf hefir verið sjálfráð um stjórn sína og starfsemi, þó að með gömlum lögum hafi, að nafninu til, verið settur sá stimpill á bankann, að forsrh. væri formaður bankaráðsins.

Því má ekki gleyma, að bankaráð Íslandsbanka hefir haft allt annað verksvið en það, sem Alþingi hefir sett bankaráði Landsbankans. Staða í bankaráði Íslandsbanka hefir aldrei verið hugað sem starf, þannig að bankaráðið gæti gripið inn í fjárreiður og daglegan rekstur bankans, eins og bankaráð Landsbankans gerir nú.

Ég vil alls ekki tefja þessar umr. nú með langri ræðu, en vonast til, að hv. þdm. hraði þeim svo, að hvort frv., sem ofan á verður, fái sem greiðastan gang í gegnum þingið, því að málinu liggur á. Ég geri ekki ráð fyrir, að umr. breyti þeim skoðunum, sem þingmenn eru búnir að mynda sér þessa síðustu viku, síðan bankanum var lokað.

En til þess að flýta fyrir afgreiðslu þessa máls, vildi ég, þó að það sé ekki stranglega formlegt, mega minnast á brtt., sem ég flyt á þskj. 93; þær eiga að vísu ekki við það frv., sem fyrr kemur undir atkv., heldur það næsta, en ég skoða það svo, að aðalumr. fari fram um bæði þessi mál nú samtímis, þannig að þegar þeim er lokið um fyrra málið, þá verði þær ekki teknar upp um síðara frv., ef það kemur undir atkv. Vona ég, að hæstv. forseti hafi ekkert við það að athuga, þó ég geri grein fyrir brtt. nú.

Fyrri brtt. er þess efnis að heimila fjmrh. að fresta framkvæmd á skiptameðferð á búi Íslandsbanka til 1. marz næstk., þó að frv. á þskj. 68 verði samþ. M. ö. o. að þau atriði frv., sem lúta að skiptunum, komi ekki til framkvæmda fyrri en nauðsynlegar athuganir hafa verið gerðar á fjárreiðum bankans, þannig að hægt verði að taka ákvarðanir um hann af meiri kunnugleik. Á bak við þessa brtt. felst það, að fjmrh. skipi tveggja eða þriggja manna nefnd til þess að athuga hag bankans, og að fenginni skýrslu þeirrar n. sé niðurstaðan lögð fyrir þingið, í síðasta lagi fyrir 1. marz næstk. (MJ: Verða skipaðir sömu menn og áður til að skoða bankann?). Ég get ekki um það sagt að svo stöddu, hverjir verða skipaðir í n. Fyrst verð ég að vita, hvort brtt. gengur í gegnum þessa hv. þd. Ef sú framkvæmd verður samþ., sem hér er gert ráð fyrir samkv. brtt., þá er mjög nauðsynlegt að hraða málinu. — En hinsvegar, ef frv. á þskj. 67 verður samþ., þá hlýtur það að tefja fyrir því frv., sem brtt. eiga við, og jafnvel leiða til þess, að það nái ekki fram að ganga.

Á 2. brtt. legg ég ekki sérstaka áherzlu, en ég tel þó rétt að breyta nafni frv. í meira samræmi við efni þess, eins og það verður, ef fyrri brtt. verður samþ.