10.02.1930
Neðri deild: 20. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í C-deild Alþingistíðinda. (415)

67. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka, hlutafjárauki o. fl

Bjarni Ásgeirsson:

Ég vil einungis þakka hæstv. fjmrh. fyrir till. hans, sem opnar nýja möguleika þess, að mál þetta geti fengið heillavænlegri úrlausn en nú eru horfur á. Hefir hæstv. ráðh. nú lofað því, að endurmat á bankanum skuli fara fram hið bráðasta, og leggjast fyrir þingið fyrir 1. marz, til þess hv. þm. geti lagt þá rannsókn til grundvallar fyrir till. sínum um endanlega úrlausn þessa máls. Ég vil því, með sérstakri hliðsjón af þessari væntanlegu rannsókn, beina þeim tilmælum til bankaráðs Íslandsbanka, að það grenzlist fyrir um, hvað erlendir lánardrottnar vilja gera til verndar sínum hagsmunum, og hvort og með hvaða skilyrðum þeir væru fáanlegir til þess að styðja að endurreisn bankans. Sömuleiðis er sjálfsagt að leita stuðnings innlendra manna um það efni. Ef svo kynni að reynast, að hagur bankans væri sæmilegur, og ef hinir útlendu lánardrottnar væru fáanlegir til samvinnu, þá hygg ég, að hv. þm. myndu skoða huga sinn tvisvar áður en þeir hníga að því ráði að loka bankanum. Ég er því hæstv. ráðh. mjög þakklátur fyrir að hann hefir opnað möguleika fyrir slíkri rannsókn, áður en fullnaðarráðstöfun verður gerð um bankann. Það, sem mestu máli skiptir, er að fá vitneskju um raunverulegan hag bankans og um endurreisnarvilja þeirra, sem sérstaklega eiga hagsmuna að gæta í sambandi við gjaldþrotaskipti Íslandsbanka. Þess vegna verður það að teljast með öllu óforsvaranleg afgreiðsla, ef Alþingi ræður málinu til lykta án þess að hafa nákvæma rannsókn til grundvallar. En með því að hæstv. fjmrh. hefir nú flutt till. þess efnis að veita frest til þess að frekari rannsókn megi fram fara, áður en bú bankans verður tekið til skiptameðferðar, þá vænti ég þess, að mál þetta fái að lokum þá afgreiðslu, sem þinginu er sómi að og þjóðinni til hagsmuna. Ég ber það traust til hæstv. ráðh., að honum megi heppnast að ráða fram úr þessu vandamáli á þann veg, sem skynsamlegastur er.