10.02.1930
Neðri deild: 20. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 97 í C-deild Alþingistíðinda. (416)

67. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka, hlutafjárauki o. fl

Frsm. meiri hl. (Héðinn Valdimarsson):

Ég get sparað mér að svara miklu þeim röksemdum, sem fram hafa verið fluttar af hálfu fylgismanna þessa frv. Hv. 2. þm. G.-K. vildi sem minnst minnast á sögu bankans, og er það mjög að vonum. Söguleg rannsókn á bankanum leiðir það eitt í ljós, að bankinn hefir á síðustu árum verið í stórkostlegri hnignun, þrátt fyrir góðærin, og að ríkið hefir hvað eftir annað orðið að hlaupa undir bagga með honum og forða honum frá gjaldþroti, en allt kemur fyrir ekki. Hv. þm. gat um, að tap bankans myndi verða meira, ef honum væri lokað, en ef hann fengi hjálp til þess að halda áfram starfsemi sinni. En reynslan segir annað. Hún segir beinlínis, að því meira fé, sem ríkið hefir fleygt í bankann, því meiru hefir hann tapað. Þessu til stuðnings má benda á mat bankaeftirlitsmannsins 1926, þótt að öðru leyti sé lítið á því byggjandi. Hvað útibúin snertir, þá er það alveg sama sagan, enda ekki von á öðru, því eftir höfðinu dansa limirnir. Útibúið á Seyðisfirði tapaði t. d. meiru og meiru, eftir því sem það hélt lengra áfram og því var lagt til meira fé. Þessi var reynslan alstaðar. Þess vegna getur engum blandazt hugur um, að bezta ráðið til að afstýra meiri töpum en þegar eru orðin er það, að loka bankanum umsvifalaust, og hefði betur fyrr verið gert.

Hv. þm. talaði um skyndimat það, er fram fór á hag bankans um daginn, og að við nm. hefðum átt tal við matsmennina út af því. Við lýsingu hv. þm. á því samtali hefi ég margt að athuga. Fyrst og fremst gat hann þess að engu, að annar matsmaðurinn, Pétur Magnússon, hafði ýmsa fyrirvara um álit sitt. T. d. kvað hann sitt álit vera að mestu byggt á mati bankaeftirlitsmannsins 1926, en það mat hefir auðsjáanlega verið rangt. Tóku þeir 45 menn út úr, sem líklegt þótti, að yrði tap á, og auk þess nokkra menn. aðra eftir bendingum starfsmanna bankans. Engin ítarleg rannsókn lá hér til grundvallar. Sama er um útibúin að segja. T. d. hafði bankaeftirlitsmaðurinn lýst því yfir, að á útibúinu í Vestmannaeyjum væri ekki um nein töp að ræða, og var þessi yfirlýsing tekin gild að svo stöddu. Nú má geta nærri, hvort útibúið í Vestmannaeyjum hefir engu tapað. Slíkt tekur enginn trúanlegt. Enda ræður það að líkindum, að slíkt mat hlýtur að vera mjög óábyggilegt, þar sem það er framkvæmt á svo stuttum tíma, og auk þess að miklu leyti byggt á öðru mati, sem að allra áliti er hið mesta hneyksli.

Þá sagði hv. þm., að í sama stað kæmi, hvort Íslandsbanki yrði lagður niður, ef viðskipti hans flyttust í annan banka. Þetta er vitanlega rétt, því ef Landsbankinn tæki við viðskiptum Íslandsbanka, þá flyttist ríkisábyrgðin, sem nú er á Landsbankanum um leið á viðskipti þau, sem kæmu úr Íslandsbanka. En hitt dettur engum í hug, að Landsbankinn taki við öllum viðskiptum Íslandsbanka, heldur aðeins þeim, sem heilbrigð eru. Enginn ætlast til, að Landsbankinn taki við fyrirtækjum, sem ár eftir ár hafa ekki getað staðið í skilum með vexti af lánum, hvað þá heldur afborgað þau. Vitanlega koma þau fyrirtæki ein til greina, sem lífsþróttur er í og starfa á heilbrigðum grundvelli, og ykist ríkisábyrgðin á Landsbankanum ekki við það.

Ég skal játa því, að viðskiptayfirfærslur úr Íslandsbanka yfir í Landsbankann kunni að valda nokkrum örðugleikum. sérstaklega í héruðum eins og Vestmannaeyjum, sem áður hafa eingöngu haft viðskipti í Íslandsbanka, vegna þess að sá banki einn hefir þar útibú. Væri betur, að þál. till., sem lá fyrir þinginu í hitteðfyrra og ég var flm. að, hefði verið samþ. og Landsbankinn hefði þá þegar sett á fót útibú í Vestmannaeyjum. En þótt rekstrarlán Eyjamanna hafi verið fengin hjá útibúi Íslandsbanka þar að mestu leyti, þá hafa þó peningarnir sjálfir komið að mestu leyti beint úr Landsbankanum. Lán þessi hafa að jafnaði ekki verið tryggð í húsum eða fasteignum, heldur verið veitt út á veiddan eða óveiddan afla. Þess vegna myndi yfirfærslan ekki þurfa að taka langan tíma, né valda verulegum truflunum í atvinnu þar. Og Landsbankanum væri vitanlega miklu hagkvæmara að veita fjármagninu beint til þeirra, sem á því þurfa að halda, heldur en að hafa millilið í þeim viðskiptum.

Viðvíkjandi lánstraustsspjöllum út á við, þá hefir hv. þm. V.-Húnv. bent á, hverju hv. 2. þm. G.-K. sleppti úr nál. meiri hl. n., og ég sé ekki ástæðu til að endurtaka það. En ég vona, að hv. þdm. hafi skilið, að það kemur ekki út á eitt, hvort sleppt er úr setningum eða þær eru slitnar úr samhengi innbyrðis. Þetta er nú ekki þokkaleg ræðumennska, en slíkt er reyndar ekki óvenjulegt úr þessari átt.

Hv. þm. talaði mikið um viðvörunarskeyti þau, sem borizt hafa gegn lokun Íslandsbanka. Var það að vísu mest léleg upptugga úr flokksblöðum hans, og að því leyti ekki svaravert, en ég vil aðeins benda honum á, að sé það satt, sem hv. þm. Dal. viðurkenndi, að Íslandsbanki hefði nýlega sent Hambro skeyti um, að allt væri í lagi, þá er ekki að undra, þótt Hambro þyki nokkuð kynlega við bregða, er hann heyrir, að bankanum sé lokað svo að segja tafarlaust eftir að það skeyti var sent og engir peningar til í bankanum til að greiða með daglega áfallandi skuldbindingar hans. Ég get því ekki talið slíkt skeyti vott um annað en reiði Hambrosbanka við bankastjórana, með því að til þess liggja þau drög, er ég hefi nú nefnt. (SE: Þetta var einkennilegt). Annað skeytið var frá hluthafa bankans og fyrrv. bankaráðsmanni. Maður getur nú vel skilið, hvað honum gengur sérstaklega til að vara við lokun bankans. Sama er að segja um skeyti það, sem Danastjórn sendi. Báðir þessir aðilar eiga hér hagsmuni að gæta, og vilja því, að bankinn starfi áfram og ríkið taki á sig þann halla, er þeir fyrirsjáanlega fá af lánum sínum til bankans og hlutafjáreign í honum. Svo er skeyti sendiherrans, Sveins Björnssonar, sem auðsjáanlega stendur í sambandi við minni hl. n., þótt undarlegt sé, og væri æskilegt að fá fulla vitneskju um, hvort það kom ekki eftir pöntun íhaldsmanna. Önnur skeyti hafa ekki borizt, og ekki heldur til þjóðbankans. Jafnvel frá Barclays banka, sem ríkissjóður er nú að fá lán hjá, hefir engin fyrirspurn borizt, hvað þá heldur meira. Verða því engar skynsamlegar líkur færðar að því, að Landsbankinn lendi í vandræðum við lokun Íslandsbanka. Eitt skeyti má þó enn nefna, skeyti, sem „Fornjótur“ nokkur sendi Morgunblaðinu samkv. beiðni þess, og þarf enginn að taka það alvarlega. Þessi maður er ókunnugur og áhrifalaus fréttasnati Morgunblaðsins í Danmörku.

Hv. þm. Dal. hélt eina af sínum hjartnæmu ræðum, og get ég leitt hjá mér að svara henni miklu, enda var hún þess eðlis, að þess gerist engin þörf. Fyrst talaði hann um árásir, sem hefðu verið gerðar á bankann fyrir mörgum árum. Sennilega á hann þar við greinir, sem Alþýðublaðið flutti fyrir löngu síðan um Íslandsbanka. Eftir því, sem síðar hefir komið á daginn, hefir bankinn þá verið raunverulega gjaldþrota, og má því til sönnunar benda á afskriftir þær, er síðar fóru fram á eignum bankans frá þessu tímabili. Vildi Alþýðublaðið með þessum skrifum sínum forða ríkinu frá því að henda milljónum í bankann. Það, sem Alþýðublaðið sagði, var því á fullum rökum byggt, og hefði betur farið, að ráðum blaðsins og Alþýðuflokksins hefði þá verið fylgt, bankinn hefði hreinlega verið gerður upp. En hv. þm. Dal. kallar það kannske árás að segja sannleikann.

Þá gat hv. þm. Dal. um, að bankinn hefði grætt ½ millj. á ári. En hvað hefir orðið af þeim gróða, úr því að allt hlutaféð er tapað, eftir því, sem bezt verður vitað, og hver veit, hve miklu meira? Ef bankinn héldi lengi áfram að græða á þennan hátt, mundi innan skamms vera lítið eftir af reitunum handa lánardrottnunum. Hv. þm. talaði um örðuga tíma fyrir bankann. Jú, það eru hvorki meira né minna en beztu árin, sem þjóðin hefir fengið í langa tíð. Hvernig mundi þá fara á krepputímum? Svo heldur hv. þm. langa ræðu um það, að oft hafi munað svo litlu, að Íslandsbanki hafi orðið að stöðva starfsemi sína, og loks hafi það ráðið úrslitum, að Landsbankinn hafi stöðvað lán sín til Íslandsbanka, einar 625 þús. kr. Vill hv. þm. láta líta svo út, sem Landsbankinn hafi með þessu verið valdur að því óefni, sem Íslandsbanki er nú í kominn. En hv. þm. ætti að skilja það, að Landsbankinn heldur áfram að lána Íslandsbanka ár eftir ár án þess að Íslandsbanki sýni nokkra getu til þess að greiða, og þess vegna hlýtur að því að reka, að Landsbankinn fari að hugsa sig um og sjái, að við svo búið megi ekki standa öllu lengur. Lán handa stöðugum vanskilamönnnm verða sjaldan langæ.

Ég ætla svo að endingu að segja það, að betur hefði hv. þm. Dal., þegar hann var ráðherra, aldrei skipað sjálfan sig fyrir bankastjóra í Íslandsbanka, heldur einhvern þann, sem vit hafði á fjármálum. Sýpur hann nú seyðið af því.