10.02.1930
Neðri deild: 20. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 101 í C-deild Alþingistíðinda. (417)

67. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka, hlutafjárauki o. fl

Frsm. minni hl. (Ólafur Thors):

Ég mun láta mig litlu skipta, þótt andmælendur þessa frv. hafi með rakalausum hártogunum reynt að reita mig til reiði. Mun ég sem endranær halda mér við kjarna þessa máls og reyna enn á ný að grafa hann upp úr þeim haugi rakalausra fullyrðinga, gífuryrða og blekkinga, sem reynt hefir verið að hlaða að honum. Ég skal þá snúa mér að ræðu hv. frsm. meiri hl.

Hv. frsm. hafði þær upplýsingar frá hv. 3. landsk., að Íslandsbanki hafi dregið svo mjög saman seglin síðustu 8 til 9 ár, að velta hans hefði minnkað úr 59 millj. niður í 39 millj. kr. Þetta ber þó alls ekki að taka sem algilda sönnun þess, að efnahagur bankans hafi að sama skapi versnað, því velta og efnahagur er sitt hvað. Að velta Íslandsbanka hefir minnkað, er vitanlega bein afleiðing af ráðstöfunum löggjafarvaldsins, því að seðlaútgáfa bankans hefir verið stöðvuð og hann skyldaður til þess að leysa inn seðla sína aftur. Af þessum og öðrum ástæðum hefir rekstrarfé bankans minnkað svo mjög, að valda hlaut verulegri hnignun í starfsemi bankans.

Um skyndimatið sagði hv. þm., að ég hefði farið rangt með. Sagði hann, að annar matsmaðurinn, Pétur Magnússon, hafi tekið fram, að sitt mat væri eingöngu byggt á mati Jakobs Möllers, en það er alls ekki rétt. En hitt tók Pétur Magnússon fram, að hann hefði verri aðstöðu heldur en Jakob Möller og að hann yrði meira en Jakob Möller að byggja á skýrslum annara manna. Það er líka rangt hjá hv. þm., þegar hann segir, að matið hafi verið framkv. þannig, að aðeins hafi verið lögð til grundvallar skýrsla bankaeftirlitsmannsins frá 1927 og aðeins þeir sömu 45 skuldunautar, sem þá þóttu tortryggilegir, verið að nýju athugaðir.

Það er að vísu rétt, að skýrsla bankaeftirlitsmannsins er lögð til grundvallar, en svo er bætt við hana skýrslum og upplýsingum frá bankastj. og starfsmönnum um þá menn, sem mest skulda. En það liggur í hlutarins eðli, að endanlegur dómur um hag bankans valt á því, hver dómur matsmanna varð um þá menn, sem mest skulda, og það væri sviksamlegt, ef sú skýrsla, sem bankastj. lætur skoðunarmönnum í té, væri röng. En ef skoðunarmenn hafa í raun og veru kynnt sér ítarlega hag þessara manna, þá verður ekki komizt hjá að játa, að þeir eru líka bærir um að kveða upp endanlegan dóm um hag Íslandsbanka.

Hv. þm. benti á það, að útibúið í Vestmannaeyjum hefði ekki verið metið sérstaklega. Ég man ekki, hvort það kom fram í skýrslunni, og vil ekki neita því, að það kunni að vera rétt, sem hv. þm. segir, en hitt er á flestra vitund, að engar líkur eru til, að það verði tap á því útibúi, því að Vestmanneyingar eru yfirleitt óvenjulega vel stæðir, nær allir bjargálnamenn, ef ekki meira. Maður fær gleggstan samanburð á atvinnurekstri þar og annarsstaðar með því að athuga, hvert tap hefir orðið á Olíuverzlun landsins í Vestmannaeyjum. — Ég hefi þau ummæli frá hv. þm. N.-Ísf., að af þeim 800 þús. kr., sem nú eru útistandandi af skuldum gömlu steinolíuverzl. ríkisins, skuldi Vestmanneyingar ekki nema 30–40 þús. kr.

Hv. þm. kvað það rétt hjá mér, að ef Landsbankinn tæki við þeim atvinnurekstri, sem hingað til hefir verið rekinn fyrir lánsfé frá Íslandsbanka, þá yrði áhætta ríkissjóðs hin sama, hvort sem Íslandsbanka yrði lokað eða ekki. Hv. þm. segir að vísu, að allur atvinnurekstur verði ekki fluttur þangað, ekki nema sá, sem starfi á heilbrigðum grundvelli. Við skulum reyna að vera sammála um það, en er þá ekki þessi jafnaðarmannaforingi hræddur við það atvinnutjón, sem kann að hljótast af því, að talsvert af atvinnufyrirtækjum þeim, er Íslandsbanki hefir stutt, verði talin óheilbrigð.

Hv. þm. tók undir það með öðrum meirihl.nm., að ég hefði farið óráðvandlega með kafla, sem ég las upp úr þskj. þeirra. Ég viðurkenni það ekki. Ég var, eins og menn muna, að tala um þann mismun, sem væri á till. minni og þeirra, að því er mundi snerta lánstraustsspjöll út á við, og las upp tvær setningar, sem vel geta verið sjálfstæðar. Ég hefi því ekki gert mig sekan um óráðvendni í meðferð neinna skjala. — Að öðru leyti gefur ræða hv. frsm. meiri hl. mér ekki frekara tilefni til andsvara.

Þá ætla ég að víkja nokkrum orðum að hv. form. n. Hv. form. taldi, að ég hefði sagt skakkt frá um sögu þessa máls, þ. e. a. s. að svo miklu leyti, sem ég kom að atburðunum, sem gerzt höfðu innan n. En ég vík engu frá því, sem ég áður hefi sagt. — Það er að vísu rétt, að allir bankastjórarnir færðust undan að svara, með þeim rökum, að bankaráðið væri lögum samkv. ábyrgur aðili til að svara fyrir hönd Landsbankans undir slíkum kringumstæðum. Það er rétt. En hitt er líka rétt, að Georg Ólafsson bankastjóri skýrði frá því, að hann liti svo á, að það væri ekki bankaráðið, sem hefði verið kvatt hingað til að svara, heldur væru það bankastjórarnir, sem væru beðnir um að svara, og að hann sæi ekki ástæðu til að leyna skoðun sinni í þessu máli, ef n. óskaði umsagnar þeirra. En bankastjórarnir kváðust ekki vilja svara, nema því aðeins, að meiri hl. n. krefðist þess, og það er hlálegt, að hv. form. skuli hafa látið svarið stranda á því, að hann vildi ekki svara þessu, þótt hann hefði sjálfur beðið bankastjórana að koma á fund með n., einmitt í þeim tilgangi að spyrja um álit þeirra.

Hv. form. n. sagði einnig, í sambandi við skeytaskiptin, að það væri engin ástæða til fyrir okkur að kvarta yfir því, að við hefðum ekki fengið að vita um skeyti þau, er fóru á milli hæstv. stj. og sendiherra ríkisins í Kaupmannahöfn, af því að slík skeyti væru ekki nema að nokkru leyti ætluð þingnefndum. En ég bendi á það, að við erum af þd. kosnir til að fara með mál af hennar hendi að öllu leyti, en ekki aðeins að nokkru leyti, og að það er ekki vel til fallið, að slíkt mál sé skyndilega dregið úr höndum slíkrar n. og gert að flokksklíkumáli.

Þá skal ég leyfa mér að víkja nokkrum orðum að ræðu hæstv. fjmrh. Hæstv. ráðh. kvartar enn yfir því, að ekki liggi neitt það fyrir í þessu máli, sem segi til um hag Íslandsbanka. Ég sagði það í minni fyrri ræðu, og hv. þm. V.-Ísf. staðhæfði það í sinni ræðu, og hæstv. ráðh. virðist álíta það líka, að allt velti á því, hver hagur Íslandsbanka sé. Ég skal aðeins benda á það, að þetta mat, sem framkvæmt var á bankanum, er ekki þess eðlis, að hægt sé að ganga framhjá því.

Hæstv. ráðh. hefir tekið undir með þeim mönnum, sem láta í ljós undrun sína yfir því, að bankastj. Íslandsbanka skuli eins og hafa vaknað við vondan draum við það, að bankinn var að hruni kominn, og aldrei vitað um það, að þetta myndi dynja yfir. En ef þetta er réttur áfellisdómur um bankastj., þá megum við ekki halda það, að form. bankaráðsins geti gengið alveg ómeiddur frá; ef það var svo augljóst, sem ádeilumönnum þykir, bar þá ekki formanni bankaráðsins að vita eitthvað um þetta, og getur fjmrh. Íslands þvegið hendur sínar? En ef þeir báðir skildu þetta, bar þeim þá ekki að ýta við hinni sofandi bankastj. Nei, bankinn hefir, eins og hv. þm. Dal. segir, staðið á veikum fótum, en aðaleign hans, sem annara banka, er það traust, sem hann nýtur, en það hafa verið gerðar margar tilraunir til að láta það högg ríða, sem eyðilegði bankann, með því að skaða traust hans, en það gat enginn vitað, hvenær það myndi ríða honum að fullu. Hitt vita allir, og stj. bankans líka, að hann stóð höllum fæti, en það er sitt hvað að vita það og hafa reynt að tryggja bankann gegn falli; eða að hafa getað reiknað það út stærðfræðilega nákvæmlega, hvenær rógurinn gæti riðið bankanum að fullu.

Hæstv. ráðh. minntist á ræðu mína, sem ég hélt á fundi hér fyrir viku síðan. Við áttum þá saman nokkur viðskipti; ég flutti þá allítarlega ræðu, en hæstv. ráðh. sagði um hana, að ég hefði ýmist farið með rangt mál eða ekki vitað, hvað ég hefði sagt. Ég skoraði á hæstv. ráðh. að skýra frá því, hvað rangt væri hjá mér; hann neitaði fyrst, en stóð svo upp eftir nokkurn tíma, og þá sýnilega vanbúinn að rökstyðja mál sitt, en þegar ég hélt áfram að sauma að hæstv. ráðh., kvaðst hann hafa annað að gera en vera að rífast um smámuni. Hann var þá kominn að því, að það, sem ég hefði farið rangt með, hefðu verið smámunir. Ég er hæstv. ráðh. sammála um það, en nú er hann þá væntanlega við því búinn að leiðrétta þá skýrslu, sem ég hefi gefið í málinu.

Hæstv. ráðh. hafði það eftir mér, að lánstraustið væri eina lamb fátæka mannsins, og ráðh. varpaði fram þeirri spurningu, hvort ætti að leggja þetta lamb á höggstokkinn. Hæstv. ráðh. svaraði sér sjálfur. — En ég vil segja það um þau töp, sem Íslandsbanki hefir beðið, að þau hafa yfirleitt þannig orsakazt, að bankinn hefir tekið á sig töp, ýmist atvinnurekenda eða kaupsýslumanna. En töp atvinnurekenda hafa venjulega hlotizt af því, að þeir hafa borgað þeim, sem unnu hjá þeim, hærra en þeir hafa þolað, en kaupsýslumenn hafa goldið framleiðendunum meira fyrir vöruna en þeir sjálfir hafa síðar getað fengið fyrir hana. Þessi töp eru þá aðallega eignatilfærsla innan þjóðfélagsins, en ef hæstv. ráðh. spyr að því, hver hafi leitt lambið á höggstokkinn, þá vil ég svara því til, að lánstraust landsins er að vísu í voða, en það er ekki allt farið fyrr en synjað verður um þær ráðstafanir, sem talið er að tryggi það. Lambið er ekki til slátrunar leitt ennþá, og þó að hæstv. ráðh. sýnist vera byrjaður á að brýna kutann, þá vona ég, að hann hugsi sig um, áður en hann slátrar fátæka mannsins einasta lambi.

Svo vil ég víkja örfáum orðum að hv. þm. V.-Húnv., en þar þarf ég þó litlu að svara, mest fyrir það, að hann bar fram minni rök en aðrir ræðumenn, þótt aðrir hafi heldur ekki borið fram mikið af þeim, enda sýnist það svo, að þeir hafi af litlu að taka. Hv. þm. hafði það eftir mér, að ég hefði sagt, að Framsóknarflokkurinn væri að fjandskapast við bankann. Ég hefi staðhæft þetta og ætla að sanna það, og ég skal þá ekki grípa til annars en stjórnarblaðsins og þeirrar einu greinar, sem hæstv. dómsmrh. hefir skrifað um málið. Hvernig farast honum þá orð um þann banka, sem þingið er nú að taka ákvörðun um? Við skulum heyra ummæli hæstv. dómsmrh., með leyfi hæstv. forseta:

„Sennilega hefir aldrei verið gengið lengra í forsjárlausri ósvífni um fjármál en þetta kvöld, þegar leiðtogum íhaldsins datt í hug, að það gæti á einni nóttu blekkt og bugað allt Alþingi, svo að það gengist undir allsherjar ábyrgð á öllum skuldum hins stærsta gjaldþrotafyrirtækis, sem nokkurntíma hefir verið á Íslandi“.

Það er álit þeirra manna, sem metið hafa bankann, að ef hann fengi að halda áfram starfsemi sinni, þá eigi hann fyrir skuldum. En á meðan verið er að ræða um það að láta meta bankann að nýju, skrifar dómsmrh. landsins það, að sjálfstæðismenn hafi ætlað að blekkja Alþingi til að gangast undir ábyrgð á stærsta gjaldþrotafyrirtæki landsins. Er þetta af velvild mælt til bankans, eða af köldum hug hins gamla fjandmanns bankans? Og þar sem hv. þm. V.-Húnv. fyllir flokk hæstv. dómsmrh., þá er bezt að hann fái að bera þá bagga með ráðh., sem þessi hæstv. ráðh. er að margra dómi ekki fær um að bera.

Það sá á, að hv. þm. fann til þess, að hann þurfti að gera grein fyrir því, að jafnaðarmaðurinn var gerður að frsm. meiri hl. n. Og sú grein, sem hv. þm. gerði fyrir því, var það, að hann hefði verið kosinn skrifari í n., og að hann hefði þess vegna orðið að vera frsm. Ég orðaði það svoleiðis, að hann var kosinn skrifari, til þess að þurfa að verða frsm., þ. e. a. s. það var hv. meiri hl. n., sem kaus hann. Ég stakk upp á bezta manni n., hv. l. þm. Skagf.; ég var kominn í röðinni alla leið niður að hv. þm. Húnv., þegar jafnaðarmaðurinn var kosinn. Ég skal játa það, að þegar slíkt mál er á ferðinni sem þetta, þá getur það verið hyggilegt af framsóknarmönnum að kjósa jafnaðarmanninn til frsm., því að hann er færari um það en þeir, þótt ég hefði á hinn bóginn kunnað betur við, að þeir hefðu reynt að standa í ístaðinu sjálfir.