10.02.1930
Neðri deild: 20. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í C-deild Alþingistíðinda. (419)

67. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka, hlutafjárauki o. fl

Hannes Jónsson:

Hv. 2. þm. G.-K. minnti mig á þann sið, sem tíðkaðist meðal þjóðhöfðingja í fyrri daga. Við hirðir þeirra voru jafnan ýmsir ágætir menn, en þar voru líka menn, sem lægra voru settir og nefndust hirðfífl. Hv. þm. hefir nú leikið listir sínar hér í hv. deild. En því miður minntu þær kúnstir ekki á þjóðhöfðingjann, heldur á hirðfíflið.

Hv. þm. var að draga upp skemmtilegar myndir af sjálfum sér. Hann var að lýsa kosningu í Íslandsbankanefndinni og kvaðst hafa viljað fá færasta manninn í skrifarasætið og því byrjað á að stinga upp á sjálfum sér. Hér hefir hv. þm., að mínum og annara dómi, ekki einungis brugðið upp glöggri mynd af þingsögu sinni, heldur og af æfisögu sinni. Þetta traust hv. þm. á sjálfum sér er mjög einkennandi fyrir hann. Hv. þm. virðist ekki geta áttað sig á því, að upphaf þeirrar gr. úr nál. meiri hl., sem hann las upp áðan, er engin neitun um það, að lántraustsspjöll hafi hlotizt af lokun bankans. Þvert á móti er einmitt í síðari hluta gr. tekið fram, að svo muni vera. Lánstraustsspjöllin eru þegar orðin og það, sem um er að gera, er að vernda það lánstraust, sem vér enn eigum eftir, og reyna að vinna það, sem tapað er. En að það verði gert aðeins með því að taka ábyrgð á öllum skuldbindingum bankans, teljum við ótímabæran hugarburð. Ef hv. þm. skilur ekki þetta, þá er það af því, að hann vill ekki skilja það. Það er einmitt sá ljóður á ráði þessa hv. þm., hvað hann er tregur til að viðurkenna, ef hann fer með rangt mál, en slíkt er ekki háttur viturra manna. Skal ég og heldur ekki bera á móti því, að til of mikils sé mælzt, að krefjast hins sama af hv. 2. þm. G.-K. Ég þarf alls ekki að afsaka, að hv. 2. þm. Reykv. var gerður að frsm. meiri hl. n. Fyrir þekkingu sína og vitsmuni er hann miklu betur fallinn til þess að hafa framsögu í slíku máli en hv. 2. þm. G.-K. Hv. sami þm. var að skemmta sér við það að gera lítið úr okkur hv. 1. þm. S.-M. og mér, með því að við værum ekki færir um að hafa framsöguna. Þetta er seinheppilegt, eins og margt annað hjá þessum hv. þm. Með þessu vill hann gefa líka í skyn, að hv. 1. þm. Skagf. hafi heldur ekki verið fær um að hafa framsöguna fyrir minni hl. — Hver myndi trúa því, að hann væri óhæfari til þess en hv. 2. þm. G.-K.?

Annars var ræða hv. þm. ekkert annað en vindhögg út í loftið, og er því ekki frekar svara verð.