10.02.1930
Neðri deild: 20. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í C-deild Alþingistíðinda. (420)

67. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka, hlutafjárauki o. fl

Frsm. minni hl. (Ólafur Thors):

Ég þarf litlu að svara síðustu ræðunni, því hún var þannig, að hún gefur lítið tilefni til andsvara. Hv. þm. V.-Húnv. er þannig farið, að hann þolir ógjarnan, að máli sé stefnt að honum og rök hans hrakin. Slíkt tekur hann miklu nær sér en flestir aðrir menn. Ég vil þó leiðrétta eitt atriði í ræðu hv. þm. Hann sagði, að það bæri vott um hroka minn og framgirni, að ég hefði stungið upp á bezta manni n. og hefði því stungið upp á sjálfum mér. Þetta sagði ég nú aldrei. Ég hafði að gamni mínu fyrst stungið upp á sjálfum mér. En svo bætti ég því við, að þegar því hefði ekki fengizt framgengt, þá hefði ég stungið upp á bezta manni n., sem væri hv. 1. þm. Skagf.

Hæstv. fjmrh. spurði að því, hvernig á því stæði, að í Íslandsbanka hefði staðið ein millj. kr. í sjóði við síðustu áramót. Hæstv. ráðh. gaf nú reyndar sjálfur þá skýringu á þessu, að féð mundi hafa verið lagt þar inn! Ég veit nú eiginlega ekki, hvernig fé skapast í bönkum á annan hátt en þann, að það sé lagt þar inn á einhvern hátt. Eða hvernig gæti sjóður myndast þar öðruvísi? Ég hefi áður sagt, að bankinn hefði greitt á síðasta ári af skuldum sínum 2025 þús. kr. Sjóður í árslok 1929 umfram það, sem hann var árið áður, eða 1928, um 1000 þús. kr. Samtals afborgun og sjóður 3025 þús. kr. Aukin skuld við Landsbankann á árinu 1500 þús. kr. Afborgun bankans umfram skuldaaukningu því ca. 1½ mill. kr.