14.02.1930
Neðri deild: 24. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 116 í C-deild Alþingistíðinda. (430)

80. mál, forkaupsréttur kaupstaða á hafnarmannvirkjum o. fl.

Flm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Þar sem þeir hv. þm., sem andmælt hafa frv. þessu, hafa þó báðir lýst því yfir, að þeir ætlist til, að það gangi til n., þá mun ég ekki elta ræður þeirra orði til orðs, heldur láta mér nægja að drepa á einstök atriði. Vera má, að á frv. þurfi að gera einhverjar smábreyt., enda þótt það hafi verið athugað af tveimur n. á síðasta þingi. En um það má tala síðar. Hv. þm. töluðu um stefnumun, er kæmi fram í aðstöðu manna til frv. Slíkt kom mér ekki á óvart, og er raunar lítið um það að segja. En ég tel ekkert undarlegt, sem hv. þm. Borgf. hélt fram, að frv. þetta rækist að einhverju leyti á eldri lög. Slíkt er altítt, að ný lög upphefji ákvæði eldri laga, og hvað þetta frv. áhrærir, þá virðist engin hætta vera á ferðum, þar sem það hefir gengið gegnum nefndir í þinginu, þar sem lögfræðingar hafa átt sæti i, og virðist þeim engin hætta hafa stafað af frv. í þessu efni. En þar sem hv. þm. vitnaði í lög frá 1926, þá eiga þau l. eingöngu við jarðir í sveitum, en virðast alls ekkert taka til kaupstaða né kauptúna.

Hv. þm. Borgf. sagði, að frv. þetta væri pólitískt. Ég skil varla, hvað hv. þm. á við. Eru ekki öll þau mál, sem fyrir þinginu liggja, stjórnmál, eða, eins og hann orðar það, pólitík?

Hv. þm. minntist á fiskstöðvar. Ég vil benda honum á, að hér nálægt er staður, sem heitir Sandgerði, sem er eign einstakra manna, er vitanlega hafa notað aðstöðu sína til þess að taka tvo peninga fyrir einn af fátækum fiskimönnum víðsvegar að. Það væri því ekki ónauðsynlegt, að til væru lög, sem gert gætu verstöðina Sandgerði að opinberri eign, til hagsmuna fyrir allan almenning. Ég veit að vísu, að til er heimild um að taka þá staði eignarnámi, er nota þarf til almennra þarfa. En slíkum lögum hefir jafnan verið erfitt að beita, einkum þar, sem íhaldið ræður.

Ég hefi aðeins stiklað á stærstu atriðunum, og þar sem hv. andmælendur mínir virtust vilja leyfa þessu frv. að fara til n., mun ég eigi tala fleira að sinni.