14.02.1930
Neðri deild: 24. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í C-deild Alþingistíðinda. (431)

80. mál, forkaupsréttur kaupstaða á hafnarmannvirkjum o. fl.

Pétur Ottesen:

* Það er örstutt. Fyrst vil ég benda á það, þar sem hv. þm. talaði um það, að málið hefði gengið í gegnum hendur nefndar í þinginu, að það var auðheyrt, að hann ber í þessu efni mikið traust til þeirra manna, sem hafa farið höndum um frv., og meira en til sjálfs sín, þar sem hann vildi skjóta ábyrgðinni á þá, en af sér.

Þá vil ég benda á það, að við ýms kauptún eru jarðir, sem lög um forkaupsrétt jarða frá 1926 eiga við. Ég ætla ekki, að þurfi að skýra það fyrir hv. þm., hvernig það mundi verða í framkvæmdinni, þegar komin eru önnur lög, algerlega gagnstæð. Hv. þm. nefndi eitt dæmi, þar sem ef til vill væri ástæða til að breyta slíku ákvæði, hér við eitt fiskiþorpið við Faxaflóa. En ef svo væri, að hér sé um almenningsheill að ræða að áliti þeirra, sem hlut eiga að máli, þá mundu þeir bera sig upp við Alþingi og fara fram á, að notuð yrði eignarnámsheimild.

Út af því, hverjir ættu mestan hluta af lóðum á Akranesi, vil ég benda hv. þm. á það, sem er þarna ókunnugur, að það er ekki nema lítið brot af lóðunum, sem hreppsfélagið á.