13.03.1930
Neðri deild: 52. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í B-deild Alþingistíðinda. (44)

1. mál, fjárlög 1931

Magnús Jónsson:

Ég skal ekki vera margorður. En ég á brtt. XXI. á þskj. 260, við 15. gr., um að Karlakór Reykjavíkur fái í annað sinn 1000 kr. styrk til söngnáms. Á síðasta þingi fékk félagið 1000 kr. styrk í sama tilgangi. Svona kórsöngur er mjög vinsæl grein hljómlistarinnar meðal almennings, og hafa Íslendingar reynzt sérlega vel færir til þátttöku í söngfélagsskap. Söngflokkur héðan úr Reykjavík hefir fyrir skömmu getið sér svo góðan orðstír erlendis, að öll þjóðin hefir sóma af. Við höfum hér á landi afbragðs efni í kórsöngvara. Það, sem vantar, er aðeins, að hver einstaklingur í kórinu geti fengið sem bezta kennslu. Félagið hefir 1000 kr. á yfirstandandi ári og hefir notað þær eftir föngum til þess að afla sér söngkennslu. Og söngkennarinn, Sigurður Birkis, skýrir svo frá, að námið hafi gengið mjög vel. Hann hefir símað meðmæli með félaginu á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta: „Hefi kennt hverjum einstökum félaga Karlakórs Reykjavíkur tónmyndun og söng í 4 mán. Raddir þeirra eru yfirleitt mjög góðar og sönghæfar, framför hefir verið mikil, enda áhugi frábær. Hefi beztu vonir um glæsilega framtíð félagsins, geti það haldið starfi sínu og námi áfram. Teldi ég mjög vel farið, ef hið háa Alþingi yrði vel við styrkbeiðni þess og styddi þannig hið óeigingjarna og fagra starf í þágu sönglistarinnar“. Mér er kunnugt um af viðtali við söngkennarann, að það er svo fjarri því, að meðlimir kórsins hafi ekki notað styrkinn, að framan af voru vandræði með að miðla kennslunni milli þeirra. Sjálfir létu þeir sér mjög annt um að nota þennan styrk, til þess að fá sem bezta kennslu, enda lögðu þeir sjálfir úr sínum vasa fram mikið fé í viðbót við styrkinn til kostnaðar við kennsluna.

— Söngfélagið hefir verið svo heppið að hafa ágætan og nákvæman söngstjóra, sem er vel að sér í þessum efnum. Vel þekktur erlendur hljómlistarmaður sagði við mig í sumar, að hann væri ekki í vafa um það, að ef þetta söngfélag fengi kennslu hjá góðum kennara í 2 ár, þá mundi því vera óhætt að fara í söngferðalag um allt Þýzkaland. En það þykir mjög gott að geta á þann hátt komið til greina í aðalheimkynni sönglistarinnar.

Síðastl. sumar fór félagið í söngför til Norðurlands, og fékk það hinar beztu viðtökur þar, sem það kom, og þótti takast mjög vel. Félagið er stórhuga og langar til að búa sig undir söngför til útlanda, en það verður því erfitt án fjárstyrks. Þess vegna vona ég, að hv. þd., sem samþykkti í fyrra að veita félaginu kennslustyrk, geri það líka nú, þar sem það er nú komið í ljós, að sá styrkur hefir borið góðan árangur.

Næst á ég XXIII. brtt. á þskj. 260, við 15. gr. Það er nýr liður, þar sem farið er fram á að veita Þórði Kristleifssyni styrk til utanfarar, til söngfræði- og söngkennslunáms, 1500 krónur.

Eins og kunnugt er, þá er Þórður mjög vel menntaður í þessari grein og sjálfur söngvari. En hér er ekki um það að ræða, að gera hann sjálfan að meiri söngvara, heldur hefir það komið í ljós, þar sem hann hefir kennt söng, að hann er framúrskarandi vel hæfur til þess að hafa þá kennslu í skólum.

Þó að hann hafi verið erlendis nokkurn tíma undanfarið, þá hefir nám hans þar verið miðað við það, að verða söngvari sjálfur, en ekki að kenna öðrum, en það er auðvitað sitt hvað. Nú er það tilætlun hans að kynna sér söngkennslu í skólum, þar sem ekki er verið að reyna að gera menn að sóló- eða óperusöngvurum, heldur áherzla lögð á hin uppeldislegu áhrif söngsins. Vottorð um hæfileika Þórðar í þessa átt fylgja frá forstöðumönnum Menntaskólans, Kennaraskólans, Kvennaskólans og unglingaskólans hér í Reykjavík, sem hann hefir starfað við í vetur, og eru þau öll mjög lofsamleg. Ennfremur liggur fyrir vottorð frá Páli Ísólfssyni, sem ég þykist vita, að hv. þdm. treysti til að dæma rétt um þetta efni. Hann segir: „Hann er tvímælalaust langáhugasamasti maður á þessu sviði allra Íslendinga, sem ég hefi þekkt. Og þar sem þar við bætist, að hr. Þórður Kristleifsson er þegar mjög menntaður í sönglist og hefir með góðum árangri kennt þrjá undanfarna vetur tónmyndunarfræði og sýnt miklar gáfur samfara nákvæmni við það starf, virðist mega vænta mikils af honum í framtíðinni, ef hann fær nú tækifæri til að kynna sér söngkennsluaðferðir við skóla til hlítar“.

Vil ég svo fela hv. deild þessa till. til vinsamlegrar meðferðar.

Þá vík ég að XXV. brtt. á sama þskj., um 1800 kr. (og 1500 til vara) styrk til Upplýsingaskrifstofu stúdenta.

Stúdentaráðið hefir haft þörf störf með höndum. Það hefir unnið að því að efla stúdentalíf og samheldni meðal stúdenta í þessum bæ, þar sem hvorki er til háskóli né stúdentabústaður. Og það hefir meðal annars starfrækt upplýsingaskrifstofu fyrir stúdenta undanfarin ár. Hún hefir lengst af starfað styrklaust, enda hefir verið reynt að haga starfrækslunni þannig, að kostnaður yrði sem minnstur, Í fyrra voru henni þó veittar 1000 kr. í fjárlögunum, en sá styrkur hefir verið felldur niður í fjárlagafrv. nú.

Hér liggja fyrir skýrslur um starfsemi skrifstofunnar. Þær sýna, að þar hefir verið unnið næstum ókeypis og af áhuga einum, en starfsemin hafi hinsvegar orðið að miklu gagni. Skrifstofan hefir svarað 44 fyrirspurnum árið sem leið, sótt um skólavistir fyrir stúdenta, sem sigla, þýtt skírteini þeirra og leiðbeint þeim á ýmsan hátt. Sjá allir, að mikil þægindi eru að því fyrir stúdenta, sem sigla, að fá upplýsingar um það, hvar hentugast sé fyrir þá að stunda nám, og að greidd sé gata þeirra í útlöndum, meðan þeir eru ókunnugir.

Eimskipafél. hefir snúið sér til skrifstofunnar, til að fá upplýsingar um, hvaða stúdentar ættu að fá ókeypis far. Þá hefir skrifstofan starfað að stúdentatali, sem bæði er gagn og gaman að eignast. Einnig hefir hún reynt að útvega stúdentum kennslu, 2–3 tíma á dag, gegn fæði og húsnæði, og hefir það orðið mörgum fátækum stúdent, sem berst upp á eigin spýtur, til bjargar. Eru mikil þægindi að því, bæði fyrir stúdentana og þá, sem njóta vilja kennslu þeirra, að geta snúið sér beint til skrifstofunnar.

Þá hefir skrifstofan beitt sér fyrir stúdentaskiptum, sem eru í því fólgin, að íslenzkir og erlendir stúdentar skiptast á um dvöl við háskóla eða sumarfrí í landi hvor annars.

Ég þykist fyllilega mega vænta þess, að Alþingi vilji styrkja þetta óeigingjarna starf. Reikningar skrifstofunnar sýna, að hún þarf þessa fjár með.

Þá er XXX. brtt., sem fer fram á, að Ingu L. Lárusdóttur séu veittar 3500 kr., og til vara 3000 kr., til að safna fyrirmyndum forns listiðnaðar í söfnum erlendis. Það væri nú ástæða til að láta nokkra greinargerð fylgja þessari till. Með þessari till. er verið að hefja eina nýja starfsemi, sem hingað til hefir verið vanrækt. Allir þeir, sem koma á Þjóðmenjasafnið okkar, falla í stafi yfir því, hve mikið er, þar að finna af fögrum gripum, einkum listvefnaði. Og þegar þess er gætt, hve mikið er flutt inn af erlendu smekklausu dóti, þá sést, hve hróplegt það er, að öll sú mikla auðlegð, sem til er af þjóðlegri list, skuli vera látin liggja ónotuð, vegna þess að fólk á ekki kost á að vinna eftir neinum fyrirmyndum. Það er vitanlega ómögulegt, nema ef til vill fyrir örfáa, að sitja uppi í safni til að vinna eftir þeim gripum, sem þar eru, og því er óhjákvæmilegt, að gerðar séu fyrirmyndir handa fólki, ef menn vilja láta leggja rækt við þjóðlegan listiðnað. Söfnin varðveita að vísu gripina frá tortímingu, en í því tilliti, sem hér um ræðir, er nauðsynlegt, að gerðir séu uppdrættir af gripunum, ef þeir eiga að verða almenningi til fyrirmyndar. Auk þess á gerð gripanna eigi ávallt við óbreytt; þannig geta ef til vill verið einstakir hlutar úr löngum reflum, sem eiga við í dúka og púða, og þarf þá að taka þessa hluta úr.

Nú er þess að bæta, að þrátt fyrir þá mörgu fögru gripi, sem eru á Þjóðmenjasafninu hér, eru þó vorir fegurstu gripir á erlendum söfnum í Kaupmannahöfn, London og Stokkhólmi.

Inga L. Lárusdóttir hefir kynnt sér þennan listiðnað, er gáfuð, eins og kunnugt er, og hög í bezta lagi á allskonar listiðnað. Víða erlendis er unnið mikið að því að gefa út slíkar fyrirmyndir. Hér er þetta ekki byrjað, en ég álít, að Alþingi ætti að stuðla að byrjuninni með því að veita þann styrk, sem hér um ræðir. Hér er ekki farið fram á stórfé, og má gera ráð fyrir, að Inga L. Lárusdóttir yrði að leggja allmikið af mörkum sjálf til ferðakostnaðar og uppihalds.

Þetta lítur ef til vill út sem persónuleg fjárveiting, en svo er ekki í raun og veru. Starfsemi þessa verður að hefja fyrr eða síðar, hvort sem er, og bein skylda Alþingis að styrkja hana. Umsóknin var um 4500 kr., og var það vitanlega sízt of há upphæð til þess að heimsækja erlend söfn í þessu skyni, en ég þorði ekki að ganga lengra en þetta, og vona ég, að hv. deild virði þá hófsemi. Kem ég þá að III. brtt. á þskj. 269, um 700 kr. til Gunnlaugs Indriðasonar veðurfræðings. Þessi ágæti gáfumaður starfaði hér á Veðurstofunni um hríð, en vegna þess að Veðurstofan starfaði þá með fjárveitingum frá ári til árs, öðlaðist hann ekki þau réttindi til lífeyris, sem starfsmenn annars fá. Fyrir alllöngum tíma varð hann að fara á Vífilsstaði, og liggur fyrir vottorð frá læknunum þar, um að hann eigi ekki þaðan afturkvæmt fyrst um sinn. Hann á konu og tvö börn, að ég hygg, og má nærri geta, hvernig hagur hans muni vera. Sú upphæð, sem hér er farið fram á, er næstum hin sama og hann hefði átt að fá úr lífeyrissjóði. Má að vísu segja, að hann hafi ekki goldið í lífeyrissjóð, en ég treysti svo á rausnarlund hv. þdm., að þeir láti sig ekki muna um það. Ég hugsaði mér í fyrstu að flytja þetta sem heimildartill. til stj., en þótti það of hátíðlegt um ekki stærri upphæð.

Vona ég að síðustu, að hv. fjvn. og hv. deild taki vel þessari og öðrum till. mínum, því að þær eru allar sanngjarnar.