01.03.1930
Neðri deild: 41. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í C-deild Alþingistíðinda. (442)

80. mál, forkaupsréttur kaupstaða á hafnarmannvirkjum o. fl.

Frsm. minni hl. (Magnús Guðmundsson):

Ég get tekið undir það með hv. þm. Borgf., að orðalagið er óskýrt í ýmsum gr. þessa frv., en úr því að minni hl. leggur til, að frv. sé fellt, sé ég ekki, að ástæða hafi verið til, að hann leiðrétti það fyrir meiri hl.

Það væri hægt að benda á mörg dæmi þess, t. d. 2. mgr. 1. gr., þar sem talað er um, að kauptún geti gert samþykktir um forkaupsréttindi á hafnarmannvirkjum. Hvaða þýðingu hefir það? Það er sama og að segja, að einn maður geti ráðið þessu, því að vitanlega ber atvmrn. skylda til að samþykkja þessa ráðstöfun, ef hún fer ekki í bága við gildandi lög. Þá er einnig talað um hreppstjórn í sömu mgr., en það er ekki hreppsnefndin ein, sem á þar hlut að máli, heldur líka sýslunefnd.

Út af orðum hv. frsm. meiri hl. um, að ábúðarjarðir falli ekki hér undir, þá er enginn vafi á því, að eftir þessu frv. gera þær það, en sé það ekki tilætlunin, þá er nauðsynlegt að taka það skýrt fram, að svo skuli ekki vera. Í hitteðfyrra bauð ég til samkomulags, að ég skyldi sætta mig við, að hafnarmannvirki skyldu falla hér undir, en þá varð ekki af samkomulagi. Ef meiri hl. vill nú ganga að þessu, þá er ég tilbúinn til samkomulags enn. Ég vil benda á það, að eftir lögum frá 1917, um verzlun, hafnarmannvirki og iðnað, er nægileg heimild til þess, að bæjarstjórnir geti náð þeim réttindum til lóða, sem nauðsynleg eru. Þetta eru svo veigamikil rök í þessu máli, að auðsætt er, að engin þörf er á frekari heimildum né nýrri löggjöf um þetta efni.