30.01.1930
Neðri deild: 9. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 131 í C-deild Alþingistíðinda. (453)

31. mál, sala Hólma í Reyðarfirði

Hákon Kristófersson:

Um þetta frv. má segja, að það sé gamall kunningi, eða réttara sagt: afturganga frá síðasta þingi. Vildi þá svo til, að ég varð talsvert mikið við riðinn málið. En af því að enn mun því vísað til n., sem ég á sæti í, þá ætla ég ekki að halda langa ræðu á þessu stigi málsins, enda mun mér seinna gefast tækifæri til að benda á hinar mjög svo auðsæju rakaleysur, er hv. flm. telur fram í hinni stuttu grg., er hann lætur fylgja frv. að þessu sinni sem meðmæli á sölu jarðar þeirrar, sem hér er um að ræða.

Eins og í fyrra heldur hv. flm. aðeins fram annari hlið þessa máls, eða þeirri, sem snýr að kaupanda, en gengur algerlega framhjá þeim aðilanum, sem jörðina á að láta af höndum, og því sveitarfélagi, sem jörðin tilheyrir nú. Og sem veigamikla ástæðu fyrir sölunni nú telur hann þá breyt., sem orðið hefir í byggingu jarðarinnar, en hún er hvorki meiri né minni en sú, að prestur hefir hlaupið frá jörðinni, sett sig niður á Eskifirði, en leigt Eskifjarðarhreppi jarðarafnotin og selt honum hús og mannvirki þau, er hann átti á jörðinni. Þetta stendur í grg. frv. og áréttað betur í ræðu hv. flm.

En mér er ómögulegt að skilja, hvernig á að telja framkomu prests sem veigamikla ástæðu fyrir sölu jarðarinnar. Hitt finnst mér liggja í augum uppi, að líta þurfi betur eftir svona heiðursmönnum, sem hlaupa frá ábýli sínu, byggja það öðrum í algerðu heimildarleysi, að mínu áliti, og þverbrjóta því þær skyldur, er þeir hafa gengizt undir, þegar þeir tóku jörð hjá hinu opinbera til ábúðar, og eftir þessu að dæma virðast telja sig undanþegna að hlíta þeim lagaákvæðum, er gilda almennt í landinu um ábúð jarða. Og víst er um það, að bændum landsins mundi ekki haldast uppi sama framferði og presturinn á Hólmum hefir látið sér sæma og hv. flm. vill að verði til fyrirmyndar.

Hv. flm. segir, að allt sé tekið fram í grg. frv., sem mæli með sölu jarðarinnar. En eins og ég benti á, er þar aðeins talin þörf kauptúnsins til þess að fá land til ræktunar, en algerlega gengið framhjá hinum aðilanum, sveitarfélaginu, sem jörðin er í, sem og öllu öðru, er mælir á móti sölunni.

Annars vildi ég mega vekja athygli hv. þdm. á því, að þeir láti ekki hv. flm. binda sig neinum loforðum um að styðja málið þann tíma, sem líða kann þangað til það kemur aftur frá nefnd. En svona greindur og laginn samningamaður eins og hv. flm. er, gæti eflaust með fögrum fyrirmælum, sem enginn er til að mótmæla, fengið sér velviljaða menn til að taka aðra aðstöðu til málsins en þeir ef til vill annars mundu gera. Ekki vil ég þó þar með segja, að hann mundi gera það með frekju, heldur líklegra, að hann beitti sinni venjulegu kurteisi og hófsemi.

Mér dettur ekki í hug að rengja það, að sem stendur kunni að vanta mjólk á Eskifirði. En ef litið er á þann kúafjölda, sem hv. flm. telur að þurfi til að mjólka Eskifjarðarbúum, þá mun þar gert ráð fyrir meiri mjólkurneyzlu en títt mun annarsstaðar í kaupstöðum. Hv. flm. telur, að 140 kýr þurfi til þess að fullnægja mjólkurþörf kaupstaðarbúa, en þá reiknar hann 800, en þeir eru ekki nema rúm 600, svo að þarna mun um allmiklu meiri mjólk að ræða á hvert mannsbarn kauptúnsins en venja er til annarsstaðar, eins og ég hefi þegar bent á.

Ég efast heldur ekki um, að æskilegt væri, að Eskifjarðarbúar hefðu meira af ræktanlegu landi en þeir nú hafa. En á meðan sannanlegt er, að þeir hafi tugi dagslátta af vel ræktanlegu landi í nálægð við kauptúnið, þá verð ég að halda því fram, að engin ástæða sé til að seilast eftir landi á þann hátt, að taka þetta gamla höfuðból út úr öðru hreppsfélagi. Og enn liggur ekkert fyrir, frekar en á þinginu í fyrra, um það, að leitað hafi verið álits viðkomandi hrepps um sölu jarðarinnar, eða að hún gæti orðið að samkomulagi.

Hv. flm. segir, að sömu ástæður liggi fyrir nú eins og í fyrra, sem réttlæti sölu jarðarinnar. En þær ástæður reyndust svo lélegar í fyrra, að á þeim varð ekkert byggt. Og þá mælti sóknarpresturinn á móti sölunni, en nú er hann orðinn henni meðmæltur, og finnst mér þá, að líta verði fremur á þau skoðanaskipti sem eigin hagsmuni þessa heiðursmanns, er gat selt hús sín við góðu verði með því að leigja kauptúninu jarðarafnotin. Verður það því mikið álitamál, hvort rétt sé að byggja mikið á meðmælum, sem þannig eru tilkomin.

Ég efast ekki um, að rétt sé hermt hjá hv. flm., að margt hafi kannske komið fram, er mæli með sölunni, svona frá hans bæjardyrum séð. Þetta rengi ég ekki, því að hv. flm. er, eftir því sem ég bezt veit, maður óljúgfróður, en ég vil þá um leið vekja athygli á, að margt hefir einnig komið fram, sem mælir eindregið á móti því, að jörðin verði seld. Ég sé t. d. ekki, að nein ástæða sé fyrir ríkið að farga þessari nytjajörð úr höndum sér, þó að presturinn hafi flúið hana og gera megi ráð fyrir, að hann kjósi fremur að búa í kauptúninu framvegis. Ríkið getur alltaf haft fulla þörf fyrir slíkar jarðir eins og Hólma. Og vil ég þá í því sambandi skjóta fram, hvort ekki mundi geta komið til mála að hafa dýralækni Austfirðinga búsettan á Hólmum. Ég hefi jafnan verið þeirrar skoðunar, að nauðsynlegt væri, að dýralæknar byggju í sveit, enda hafa þessi embætti verið stofnuð með hag sveitanna fyrir augum. Ég slæ þessu svona fram mönnum til nánari yfirvegunar.

Annars finn ég ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um málið að þessu sinni. Ég er sama sinnis og í fyrra og vildi því láta það koma fram nú þegar. Ég benti á það í fyrra, og hefi einnig vikið að því nú, hvernig í pottinn er búið um þetta mál, ef svo mætti að orði kveða. Og ég hefi spurt, hvernig hreppsfélaginu mundi farnast, ef horfið yrði að þessu ráði, en svör hv. flm. hafa ýmist engin verið eða þá út í hött.

Að hið dulda verðmæti jarðarinnar komi því aðeins að notum, að Eskifjarðarkauptún nái eignarhaldi á henni, dettur mér ekki í hug að trúa að svo stöddu. A. m. k. hefir ekkert það verið fram borið enn, er sanni, að svo þurfi endilega að verða. Mér hefir líka verið sagt af kunnugum mönnum, að ekki mjög fjarri kauptúninu liggi aðrar jarðir með góðum ræktunarskilyrðum, og það er enn sem komið er ósannað mál, að kauptúnið geti ekki einmitt þar fengið nægjanlegt land til ræktunar.

Ég ætla svo ekki að orðlengja frekar um þetta að sinni, en vænti, að hv. flm. og minn góði vinur taki mér ekki illa upp, þó að ég hafi tekið svona vinsamlega í málið og reifað það á dálítið annan hátt en hann hefir gert.