30.01.1930
Neðri deild: 9. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í C-deild Alþingistíðinda. (454)

31. mál, sala Hólma í Reyðarfirði

Flm. (Sveinn Ólafsson):

Mér er hvergi nærri ljóst, hvers vegna hv. þm. Barð. mælti af svo miklum móði gegn frv. þessu. Hann gefur í skyn, að ég hafi dregið eitthvað undan í framsögu, sem koma þyrfti fram máli þessu til skýringar, og lætur í veðri vaka, að með því sé hv. þdm. villt sýn. Þetta er því einkennilegra hjá honum, sem öll aðalgögn málsins eru tekin fram í grg. frv.

Mér fannst, að skilja mætti á orðum hv. þm., að hann gerði ráð fyrir, að Hólmar ættu eftir söluna að leggjast undir Eskifjarðarhrepp. En svo er ekki. Jörðin verður eftir sem áður í Reyðarfjarðarhreppi og gjaldstofn þess hrepps. Enginn mundi vefengja rétt Reyðarfjarðarhrepps til álagningar á atvinnu þá, sem stunduð væri á Hólmum, eða búrekstur þann, sem Eskifjarðarhreppur stundaði þar, og líkurnar allar benda til þess, að sá búrekstur yrði styrkari gjaldstofn en sá, sem nú er við Hólma bundinn.

Þess verður hér að geta hv. þm. Barð. og öðrum til skýringar, að landkostir Hólma eru aðeins nokkur hluti þess lands, sem Reyðfirðingum liggur opið til ræktunar. Þrjár víðáttumiklar og landkostaríkar jarðir aðrar en Hólmar liggja umhverfis kauptún Reyðarfjarðar, og er því fyrirsjáanlegt, að land er þar nægt til ræktunar um langt árabil, jafnvel þótt fólki fjölgaði þar jafnört og á Eskifirði. Hinsvegar er um ekkert land að ræða í Eskifjarðarhreppi til ræktunar eða sumarbeitar, og því óumflýjanlegt að leita þess þar í grendinni, sem landkostir mestir liggja ónotaðir. Engum heilvita manni mundi til hugar koma að vísa íbúum þessa landlausa kauptúns á land ofan heiðar í 50 rasta fjarlægð, þegar tugir eða jafnvel hundruð hektara af auðræktuðu landi liggja þarna lítt notaðir á næstu grösum við kauptúnið, þótt í öðrum hreppi sé.

Hv. þm. Barð. sagði, að mér væri kappsmál að fá borgið þessu máli og þess vegna ætti ekki að gefa því gaum. Jú, mér er það kappsmál að bæta úr átakanlegri þörf þessara manna, sem hér hafa leitað á náðir þingsins og beðið mig ásjár, enda er í þessum málflutningi um þá sanngirniskröfu að ræða, sem ekki verður hrundið með neinum yfirvarpsrökum.

Hv. þm. Barð. lézt vilja vísa Eskfirðingum til landnáms og ræktunarlands í hinni fornu landnámsjörð Eskifirði, en um hana er sama að segja og Hólma, að hún liggur í Reyðarfjarðarhreppi; er auk þess í einstaklingseign og tæpast föl, nema við afarverði; enda ræktunarmöguleikar þar mjög takmarkaðir eftir áliti búnaðarráðunauts Pálma Einarssonar, sem næstliðið sumar rannsakaði aðstöðumöguleika alla til að bæta úr landsnytjaskorti kauptúnsins og gefið hefir um það glögga skýrslu.

Mér finnst hv. þm. Barð. hafi í máli þessu hlaupið ófyrirsynju fram fyrir skjöldu. Hann er með öllu ókunnugur austur þar og dæmir í þessu máli eins og blindur um lit. Þess vegna tel ég óþarft að vera að karpa við hann um þetta mál, enda treysti ég hv. allshn. að taka til greina gögn þau, sem fyrir liggja, og afgreiða málið hleypidómalaust.