13.03.1930
Neðri deild: 52. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í B-deild Alþingistíðinda. (46)

1. mál, fjárlög 1931

Jóhann Jósefsson:

Ég hefi hér ekki margar till. fram að færa, en ég vil drepa nokkuð á síðustu brtt., sem hv. þm. V.-Ísf. talaði fyrir, um ritstyrk til Halldórs Kiljans Laxness.

Það virðist svo, sem hv. þm. V.-Ísf. hefði það á tilfinningunni, að sumt af því, sem fram hefir komið í verkum þessa höfundar undanfarið, myndi ekki mæla með honum; því að hann hafði þann fyrirvara, að styrkur þessi ætti einkum að veitast með tilliti til þess, sem hann ætti óunnið.

Undanfarið hefir oft verið vakið máls á því, að góðir rithöfundar væru styrktir, en undirtektir Alþingis gagnvart þeim beztu, eins og t. d. Þorst. Erlingssyni, hafa stundum verið þannig, að það hefir sætt ámæli fyrir síðar meir. En upp á síðkastið hafa risið hér upp rithöfundar með nýstárlegu bragði, sem rita svo um trúarbrögð, heimilislíf og þjóðlíf, að flestum hefir ofboðið.

Þessi ritháttur virðist einkum eiga að miða að því að vekja athygli á sér hjá þjóðinni og slá sér upp á því, sem almennt er álitið, að megi ekki segja og eigi ekki að segja. Ég tel engan velfarnað muni af því leiða, að rit manna eins og Halldórs Kiljans fá eyra hjá alþjóð né Alþingi. Það má segja, að ég sé óbóklærður maður, sem ekki kunni að meta þá snilld H. K. L., sem hv. þm. V.-Ísf. er svo hrifinn af, en hví kom hv. þm. þá með þennan fyrirvara sinn?

Það er mín skoðun, að þeir rithöfundar, sem vilja afla sér fylgis með slíkum rithætti og H. K. L., séu ekki of góðir til að róa undir sér sjálfir, og þeir verði að leggja eitthvað þjóðhollara og þjóðnýtara af mörkum en H. K. L. hefir gert hingað til, áður en þeir eiga opinberan stuðning skilið.

Ég býst við, og hefi tekið eftir því áður, að þeir, sem mæla á móti styrkjum til þesskonar manna, verða fyrir árásum og aurkasti, en ég hirði ekki um það. Ég vil, að hið opinbera styrki alla þjóðholla og hæfa höfunda á bundið og óbundið mál, en ég er á móti þeirri nýju stefnu, sem er að koma fram og borin er fram af mönnum, sem Alþingi ætti að mega líta upp til — þeirri stefnu, að hampa þeim nýgræðingum, sem reyna að afla sér fylgis með því að skrifa nógu „banalt“, eins og útiendingar nefna það.

Hinu þarf enginn að furða sig á, þó að t. d. jafnaðarmenn vilji styrkja nokkuð slíka menn, þegar þeir hallast að þeirra skoðun og berjast fyrir jafnaðarstefnunni og dreifa ritgerðum l út á meðal fólksins. — Ég mun svo ekki fara fleiri orðum um þessa brtt., en skal með einstakri sálarrósemi greiða atkv. á móti styrk til þessa rithöfundar, sem hv. þm. V.-Ísf. var að mæla með. Mun ég gera það þar til hann að mínum dómi hefir látið eitthvað það frá sér fara, sem hollara er fyrir þjóðlíf vort heldur en það, sem hingað til hefir frá honum komið.

Ég sé, að hv. 3. þm. Reykv., hv. 2. þm. Skagf. og hv. þm. Borgf. hafa lagt það til, að þessi svokallaði skólastjórnarkostnaður menntaskólans og Akureyrarskólans verði felldur niður. Þegar ég fer að athuga þetta, þá sé ég, að það er nýr liður í stjfrv. Það er hvorki ræsting, hiti, ljós eða laun kennara, en ég hefi heyrt, að það væri einskonar risna. Ég veit ekki um það, en mér þykir það undarlegt, að slíkt skuli vera lagt til af þeirri stj., sem hefir eins mikið hamazt á móti risnu eins og núv. landsstj. Að minnsta kosti má minna á það, að gagnvart foringjum varðskipanna hefir þessi risnustefna komið svo fram, að þeim hefir beinlínis verið bannað að hafa nokkra „risnu“, og hæstv. dómsmrh. hefir meira að segja lofað þeim hærri launum, ef þeir vildu lofa því að hafa ekki þessa „risnu“. Nú getur það vel komið fyrir, að gera þurfi skipshöfn eða gestum gott á skipstjórans kostnað, sem mætti kalla „risnu“, en hæstv. stj. vili banna þetta. Þá kemur það manni dálítið undarlega fyrir, að hæstv. stj. vill koma með nýja stóra liði við tvær helztu menntastofnanir landsins, sem einmitt á að verja til þessarar svo kölluðu „risnu“.

Hv. fjvn. er, eins og allir vita, önnum kafin og hefir mörgu að sinna, og er ekki til þess að ætlast af henni, að verk hennar séu fullkomin frekar en annara manna, enda sér maður það á hverju þingi, að það eru oft dálítið einkennilegar till. hennar að því er snertir ýmsar umsóknir einstakra manna. Ein slík liggur hér fyrir framan mig. Gamall maður, á áttræðisaldri, snýr sér til fjvn. með beiðni um nokkurn ellistyrk. Þessi maður er búinn að ganga hér um bæinn í 20 ár samfleytt, hvernig sem viðrað hefir, til þess að bera út bréf. Nú er hann ekki orðinn svo að heilsu, að hann geti sinnt þessu starfi lengur; snýr hann sér því til fjvp. og fer fram á að fá þann styrk, að hann þurfi ekki að fara á sveitina.

Umsókn þessa manns liggur hér fyrir framan mig. Ég vil ekki þreyta hv. d. á að lesa hana upp í heilu lagi, en vil aðeins geta þess, að umsækjandinn, sem heitir Þóroddur Bjarnason, er sjálfsagt flestum hv. þdm. kunnur, a. m. k. þeim, sem hér eru búsettir, hefir verið í 20 ár við þetta starf, fékk til að byrja með 1000 kr. á ári í laun, en greiddi af því 15 kr. á mánuði til aðstoðar við bréfaburð. Kaupið hækkaði árið 1920 upp í 3600 kr. á ári, en 1923 virðist póststjórninni hann bera of mikið úr býtum og lækkar kaupið niður í 270 kr. á mánuði, og hefir það kaup haldizt síðan. Alla aðstoð hefir hann orðið að greiða úr sínum vasa, upp undir 50 kr. á mánuði. Dýrtíðaruppbót fékk hann á lægstu launum sínum, allt fram að 1920, þá var hún af honum tekin og hefir hann ekki fengið hana síðan. Nú vita menn það um starf bréfbera, að vinnutími þeirra er ákaflega langur, enda segir hann það sjálfur, að hann hafi unnið jafnt helga daga sem rúmhelga 10–14 stundir á dag. Um aukaþóknun er víst ekki að ræða við útburð bréfa, enda segir svo í þessari umsókn, að hann hafi enga fengið. Við vöxt þessarar borgar hefir starf þessa manns aukizt afskaplega mikið, þótt bréfberum hafi um leið fjölgað. En það þykir mér einkum undarlegt, að þessi maður kveðst hafa beiðzt þess að fá eitthvað að gera inni í pósthúsinu, til þess að létta sér göngurnar, en það hafi ekki fengizt. Þrátt fyrir það liggja hér meðmæli póstmeistara með því, að þessum bréfbera sé veittur ellistyrkur, og meira að segja, póstmeistari kemst svo að orði, að hann vilji, að honum verði veittur ríflegur ellistyrkur, því að hann hafi rækt starf sitt í 20 ár með mestu samvizkusemi.

Það kann að vera svo, að hv. fjvn. þyki ekki bréfberi vera svo hátt settur maður í lífinu, að henni þyki þess vert að sinna umsókn slíks manns, sem kominn er á áttræðisaldur og snýr sér til þingsins til þess að forðast sveitarstyrk. En ég lít svo á, að það sé ekki samboðið stofnun eins og Alþingi að þegja við beiðni, sem stendur líkt á og þessa manns, því að starf bréfberans er mjög mikilvægt og vandasamt. Það vitum við allir, þótt ekki þurfi til þess lærða menn eða einhverja kappa, að þetta er trúnaðarstarf, sem borgurum bæjarins ríður á, að sé rækt með samvizkusemi.

Ég hirði svo ekki að fjölyrða frekar um þetta, en ég leyfi mér að flytja brtt. á þskj. 260, við 18. gr., um það, að Þóroddi Bjarnasyni pósti séu veittar 1200 kr., en til vara 1000 kr., og legg ég það undir dóm hv. d., hvort henni finnist ekki þessi starfsmaður vera maklegur þess, að honum sé gerð ellin áhyggjuminni en ella mundi, með því að veita honum þennan styrk.