04.03.1930
Neðri deild: 43. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í C-deild Alþingistíðinda. (464)

31. mál, sala Hólma í Reyðarfirði

Sveinn Ólafsson:

Síðasti reiðilestur hv. þm. Barð. var óyggjandi vottur þess, að ég hafði sagt satt, þegar ég gat þess, að honum væri varla sjálfrátt í dag. Kom hann nú sjálfur fram með þau rök, er þurfa til að staðfesta það, að honum er í dag ekki svo skapi farið sem hversdagslega. Ég mun taka þann sama kost og áður, að svara ekki hnútum hans. En ég vil leiðrétta þann misskilning, sem kom fram í báðum ræðum hans, að frv. þetta hefði verið fellt í fyrra. Svo var ekki. Frv. var í fyrra afgr. með rökst. dagskrá, vegna þess að rétt þótti að afla frekari upplýsinga um nokkur atriði. Að frv. hafi verið fellt, er því rangt hjá hv. þm. — Þá er það líka rangt hjá hv. þm., að ég hafi nokkuð fullyrt um úrslit þessa máls hér í hv. d. Ég lét aðeins þá von í ljós, að það næði samþykki, en hefi engu spáð né fullyrt um það, að svo mundi verða. Hv. frsm. hefir svarað því, sem verulega skiptir máli, og hann tók það réttilega fram, að hér er um aðkallandi nauðsyn að ræða, sem verður að svara. Hitt er algert aukaatriði, hvert höfuðból þessi jörð hefir verið til forna. Og ég ætla heldur ekki að þræta um það, hvort það er vegsauki fyrir staðinn eða vegsspjöll, að þessari jörð sé sá sómi sýndur, að land hennar sé ræktað og prýtt. Ég hygg þó fremur, að telja megi staðnum til ágætis, að óræktarlandi hans sé breytt í blómleg tún og matjurtagarða. Slíkt ætti ekki að spilla áliti og frægð jarðarinnar, og enginn efar, að það er þjóðfélaginu mikill ávinningur, að slíkt sé gert.

Ég ætla ekki lengi að karpa við hv. þm. En einu verð ég þó að svara enn. Hv. þm. kom fram með þá ósönnu sakargift á hendur mér, að ég hefði kært Eskfirðinga fyrir æðarfugladráp. Þetta er hreinasta fjarstæða. Ég hefi aldrei sagt eitt orð í þessa átt. En þetta er eitt af því, sem hv. þm. leyfir sér að búa til, henda á lofti og snara út athugalaust, af því að honum er ekki sjálfrátt í dag.