19.03.1930
Efri deild: 55. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í C-deild Alþingistíðinda. (474)

31. mál, sala Hólma í Reyðarfirði

Páll Hermannsson:

Ég get verið sammála hv. n. og frsm., að kauptúnið Eskifjörður hafi brýna þörf fyrir að eignast meira land til umráða og ræktunar en það hefir nú. Það lítur út fyrir, að fólk safnist til ýmsra kauptúna þessa lands án þess að nauðsynleg frambúðarskilyrði séu fyrir hendi, og svo mun vera ástatt um Eskifjörð. Þar mun nú vera um 300 manns, en í rauninni vantar þau skilyrði bæði til lands og sjávar, sem nauðsynleg eru til þess, að fólkið geti lifað góðu lífi. Því er það ekki að efa, að þetta kauptún þarf að eignast land til ræktunar, en hinsvegar er ég ekki á sama máli og hv. allshn. um það, að það sé einmitt þessi lausn málsins, sem komi að mestu haldi. Hér er um það að ræða að selja prestssetursjörðina Hólma í Reyðarfirði, sem er að vísu stór og góð jörð, en þó hygg ég, að hún geti ekki talizt svo heppileg sem skyldi, því að hún liggur mjög fjarri kauptúninu, svo að ýmsir erfiðleikar hljóta að stafa af því. Leiðin milli Eskifjarðarkauptúns og Hólma mun vera allt að því 8 km., og þótt þangað liggi bílfær vegur, þá er jörðin þó svo fjarri, að hún getur ekki talizt heppileg kaupstaðarbúum. Mér skilst, að það, sem fyrir þeim vakir, sé að rækta landið og koma þarna upp mjólkurbúi, en ég hygg, að verkamenn geti ekki notið þessarar jarðar til fulls, þar sem vegalengdin á milli er svo mikil, að það virðist mjög hæpið, að þeir geti eytt þar frítímum sínum á degi hverjum. Vitanlega myndu verkamenn nota þann tíma, sem þeir ættu frían, til þess að rækta þarna blett, en vegna þessarar miklu fjarlægðar virðist mér hængur á því. Ég get ímyndað mér, að verkamönnum þætti gott, ef þeim félli verk úr hendi dag og dag, eins og oft vill bera við, að geta þá gripið til þessa starfs í svipinn. Í öðru lagi ber að athuga það, að ef þetta fyrirkomulag yrði notað, yrði að rækta landið með útlendum áburði, því að þótt flytja megi afurðirnar frá Hólmum til Eskifjarðar, getur ekki komið til mála, að áburðurinn verði fluttur. Margir álíta, að það sé ekki frágangssök að nota útlenda áburðinn, en hinsvegar er nauðsynlegt að nota það, sem til er af hinum. Hinsvegar má líka hugsa sér, að mjólkurbú verði stofnsett á Hólmum, því að vitanlega gæti það komið til mála, en ég efast um, þótt að búinu stæði hlutafélag eða samvinnufélag, sem sæi um flutning mjólkurinnar, að það myndi gefast betur en þótt einstaklingsrekstur væri hafður. Það er nú svo, að þótt ég sé samvinnumaður, þá efast ég um, að samvinnufyrirkomulagið gefi eins góða raun á þessu sviði og einstaklingsfraantakið. Ég hygg, að betra sé að líta á þörf Eskifjarðar frá allt öðru sjónarmiði en þessu. Nálægt kauptúninu Eskifirði liggur jörðin Eskifjörður. Hún er einstaks manns eign, en mér er ekki kunnugt um, hvort hún muni fáanleg, en það hygg ég þó heldur.

Vitanlega verður þessi jörð dýrari en Hólmar, því að það er vitanlegt, að enginn selur landeignir eins ódýrt og ríkið. Pálmi Einarsson ráðunautur hefir látið uppi álit sitt um þessa jörð, og vildi ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa það upp. Hann segir svo:

„Eskifjörður liggur fast við kauptúnið. Tún jarðarinnar er 2,2 ha. að stærð. Undirlendi jarðarinnar í botni dalsins eru grónar eyrar og valllendisbakkar, nes meðfram ánni. Ræktunarskilyrði eru góð á landi þessu yfirleitt, en það liggur fyrir nokkrum áföllum frá ánni. Af landi jarðarinnar eru 10–12 ha. með ágætum skilyrðum til túnræktar, og alls má telja rækthæft af landi jarðarinnar um 30 ha. Beitiland er víðlent, en alls eigi hentugt til nota fyrir stórgripi. Þessi jörð myndi að mínu áliti aðeins geta að nokkru leyti bætt úr landþörf Eskfirðinga, en að því leyti er rými ræktanlegs lands leyfir, er landið hentugt til útskiptingar í ræktunarlóðir, er leigðar yrðu á erfðafestu. Þó yrði að leggja veg gegnum landið um 5 km. á lengd til að hægt yrði um fyrir leigjendur að yrkja landið“.

Pálmi Einarsson lítur svo á, að ræktanlegt land af jörðinni Eskifirði sé 30 ha., og skal ég viðurkenna, að ekki er ólíklegt, að það land reyndist kauptúninu of lítið, þótt það nú fengizt, en þetta land ætti að nægja til að byrja með, ef það væri tekið til ræktunar. Pálmi Einarsson álítur, að þarna fengi kauptúnið land, sem gæti framleitt allt að 25–30 kýrfóðrum, en telur hinsvegar æskilegt, að kauptúnið gæti haft 50–75 kýr. Ef það er rétt, að þarna megi rækta 30 ha., þá er hinsvegar enginn efi á því, að það myndi nægja til að framfleyta 50 kúm, og jafnvel myndi það nægja handa því hámarki, sem búfræðingurinn nefnir að æskilegt væri. Þótt nú jörðin Eskifjörður yrði talsvert dýrari en Hólmar, þá verð ég þó að álíta, að hún sé ólíkt heppilegri fyrir kaupstaðarbúa, þar sem hún liggur svo nærri, og þá virðist mér álitamál, hvora jörðina kauptúnið eigi heldur að velja.

Auk þess er ein hlið enn, sem athuga þarf, og það er ekki sú hliðin, sem snýr að Eskifjarðarhreppi, heldur Reyðarfjarðarhreppi, því að í þeim hreppi eru Hólmar, þótt hún viti að Eskifirði. Eins og allir hljóta að skilja, þá er það alveg óeðlilegt, að einn hreppur eigi jörð innan vébanda annars hrepps og ráðstafi henni að öllu leyti, og ég hygg, að slíkt geti leitt til sundrungar milli hreppanna, þannig að ekkert gott muni af þessu hljótast. Þetta er svo augljóst mál, að ég sé ekki ástæðu til að rökstyðja það frekar, en get þó bent á það, að þetta getur leitt til margskonar deilna milli sveitanna, t. d. út af fátækramálum, álagningu útsvara og skatta o. fl. Þetta gæti orðið svo vafningasamt, að óumflýjanlegt yrði að skipta hreppnum þannig, að Hólmar tilheyrðu Eskifjarðarhreppi. Þetta verður hinsvegar ekki gert nema með því móti að taka af Reyðarfjarðarhreppi 3 jarðir, sem liggja milli Hólma og Eskifjarðar.

Ef litið er á mat lands í Reyðarfjarðarhreppi, kemur í ljós, að land í öllum Reyðarfjarðarhreppi er metið á 957 hundruð króna. En það land, sem tilheyrir þessum 4 jörðum, sem ég ætla, að í framtíðinni hljóti að falla til Eskifjarðarhrepps, nemur 378 hundruðum króna, eða h. u. b. 2/5 alls landverðs í Reyðarfjarðarhreppi. Má geta þess til skýringar, að sjálf jörðin Hólmar er langsamlega dýrust, metin á 253 hundruð. Þetta mat byggist engan veginn eingöngu á þeirri landsstærð og landsgæðum, sem hún hefir sem bújörð, heldur fremur á hlunnindum, æðarvarpi, útræði, reka o. fl., sem Hólmum fylgja. Hinsvegar sjáum við, að það gæti orðið talsvert alvarlegt fyrir eitt lítið sveitarfélag að sjá það framundan sér, að það hlyti að missa þennan stóra hluta af sínu landi.

Nú veit ég ekki til þess, að fyrir þessu þingi liggi formleg umsögn Reyðfirðinga, hvorki hreppsnefndar né hreppstjóra, um þetta. En mér er persónulega kunnugt um, að þeim hrýs hugur við að eiga þetta yfir höfði sér, þótt þeir hafi einhverra hluta vegna ekki látið í ljós álit sitt um málið, eins og þeim kemur það fyrir sjónir.

Í þriðja lagi má benda á það, að jörðin Hólmar er prestssetur í prestakalli, sem nær yfir þrjá hreppa, Helgustaðahrepp, Eskifjarðarhrepp og Reyðarfjarðarhrepp. Nú stendur reyndar svo á, að hinn þjónandi prestur mun hafa flutzt á síðastl. vori til Eskifjarðar. Hann hefir líklega komizt að þeirri niðurstöðu, að hann sjálfur vildi ekki eða gæti ekki notað prestssetrið Hólma. Reyndar var það augljóst í fyrra, að hann var æðilengi að átta sig á þessu. En það kemur nú þessu máli ekki við.

Þó að svo kynni að reynast í framtíðinni, að þörf þætti á að nota Hólma fyrir prestssetur, en það kæmi í ljós, að ekki væri hægt að bæta úr þörf Eskf. til lands nema með því að fá þeim Hólma, þá vil ég heldur fórna prestssetrinu en hagsmunum fjölda manns. En nú er það ekki sannað, að nauðsynlegt sé að selja landið til þess að hjálpa Eskfirðingum, svo að ég geri ekki mikið úr þessu atriði. Ég fyrir mitt leyti tel heppilegra, að prestur, sem á að þjóna víðlendu prestakalli, þar sem bæði eru sveitir og kauptún, sitji á búi sínu í sveit. Ég held, að honum sem starfsmanni verði það hollara en kauptúnalífið, eins og það almennt gerist.

Af þessu, sem ég nú hefi nefnt, get ég ekki að svo komnu fallizt á, að Alþingi taki þá stefnu að taka jörð svona nokkurnveginn inni í miðju einu sveitarfélagi og selja hana öðru, þó að það sé kauptún, nema alveg sé víst, að úr landsþörf þess kauptúns verði ekki bætt með öðru móti, og a. m. k. hafi verið gerð tilraun til þess að fá samkomulag, eða menn leitast við að gera sér grein fyrir, hvernig þessu máli yrði á friðsamlegan hátt komið svo fyrir, að báðir mættu vel við una.