19.03.1930
Efri deild: 55. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í C-deild Alþingistíðinda. (479)

31. mál, sala Hólma í Reyðarfirði

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Ég hefi ekki mikla ástæðu til að svara hv. 6. landsk. Hann virðist þannig staddur í þessu máli, að hann geti í hvorugan fótinn stigið. Skal ég ekki lá honum það, af því hann er alveg ókunnugur öllum kringumstæðum þar eystra. Að hann vildi leggja að jöfnu þann 5 km. veg, sem ég upplýsti að leggja þyrfti um land jarðarinnar Eskifjarðar, ef það væri tekið til ræktunar, við vegi, sem mundi þurfa að leggja um land Hólma undir sömu kringumstæðum, stafar eingöngu af ókunnugleika hans. Þeir, sem farið hafa um þessar slóðir, vita það, að það, sem ræktunarhæft er af Hólmalandi, liggur einmitt samhliða veginum, sem búið er að leggja milli Eskifjarðar- og Búðareyrarkauptúns. Og þegar búið er að þurrka það land upp, mun víðast mega fara um það með bíla, án vegalagninga. Um land jarðarinnar Eskifjarðar er allt öðru máli að gegna, því eins og ég hefi skýrt frá, er það allt sundur skorið af lækjum.

Þá sný ég mér að hv. sessunaut mínum (PH). Mér virðist hann vera að sækja í sig veðrið með andstöðuna. Hann kvaðst áður hafa álitið mig sanngjarnan mann, en nú væri ég farinn að bregða út af því. Ég þykist ekki þurfa að lýsa því yfir, að ég hefi einnig álitið sessunaut minn sanngjarnan, og tel hann það enn, þó honum hafi getað skotizt yfir það í þessu máli.

Ég held, að hv. þm. taki of djúpt í árinni, er hann segir, að ég hafi farið með rangt mál um ræktunarskilyrði á jörðinni Eskifirði.

Upplestur hv. þm. sannaði einmitt, að ég fór með rétt mál. Pálmi Einarsson segir, að 12 ha. séu mjög vel fallnir til ræktunar, en það sjá allir, sem álitið lesa, að hann kannast við, að nokkuð af 30 ræktanlegum ha. sé erfitt að rækta, 18–20 ha., enda vitum við báðir, að svo er.

Við, sem kunnugastir erum staðháttum, við vitum þetta. Nei, ég fór algerlega með rétt mál. Því að það er alveg áreiðanlegt, að þessir 12 ha. í Eskifjarðarlandi eru á engan máta betur fallnir til ræktunar en þeir nál. 200 ha. í Hólmalandi, sem hann telur ræktanlega. Þetta vitum við, því að við höfum báðir farið þarna oft um.

En hér kemur til greina það stóra atriði, sem ég benti á um leið og ég svaraði hv. 6. landsk., að til þess að framkvæma þessa ræktun í Eskifjarðarlandi þá verður að byrja á því að leggja veg. Það eitt út af fyrir sig gerir það að verkum, að allt land jarðar þessarar verður í reyndinni erfitt að rækta, þar sem því fylgir svo mikill kostnaður. Það er ekki nóg, að landspilda hafi í sér fólgið nægilegt frjómagn til ræktunar. Þótt báðir þessir landskikar hafi jafnmikið frjómagn, geta mörg önnur skilyrði valdið því, að ræktunarmöguleikar séu ekki jafnir.

Ég þykist þá hafa svarað hv. sessunaut mínum um þetta atriði, sem hann taldi mig fara rangt með, og sé ekki ástæðu til að orðlengja um þetta meira.

Þá kom hann að því, er ég drap á áðan, að ef löggjöfin ætlaði að bæta úr þessari bráðu nauðsyn Eskifjarðarhrepps fyrir landauka með því að vísa á land í Eskifjarðarlandi til ræktunar, þá sæi ég ekki, að löggjöfin hefði ástæðu til þess með öðru móti en því, að heimila ríkisstj. að láta taka landið eignarnámi. Mér virtist hv. þm. telja, að sú leið væri ekki sérlega árennileg. Enda er það víst, að það eru ekki minnstu líkur fyrir, að neitt slíkt gengi í gegnum þingið, einmitt af því, að löggjöfin hefir ráð til þess að bæta úr á allt annan hátt en að beita þessu ákvæði. En ef svo er, að löggjafarvaldið hefir ekki nein umráð til þess að bæta úr þessu á þennan tilvitnaða hátt, þá held ég, að sönnuð séu þau orð, sem ég lét falla í fyrri ræðu minni, að ávísun á land Eskifjarðar til ræktunar væri sannarlega að gefa steina fyrir brauð.

Þá vildi hv. þm. ekki gera mikið úr þeim aðstöðumun fyrir Eskifjarðarkauptún með ræktun á landi, sem er 8 ha. að stærð, eða að fá Eskifjarðarland. Það er gefið, að það er ekki jafnt að eiga nyt Hólma eða rækta upp Eskifjarðarland, því að það sér hver maður, að langt er þangað til þeir geta notið þess eins og þeir njóta nú Hólma.

Þá kom hann inn á þetta stóra atriði, sem í sjálfu sér kemur málinu ekkert við, nefnilega þessa hreppaskiptingu, sem hann hugsar sér. Það læt ég alveg liggja milli hluta, því að Eskfirðingar fara ekki fram á, að Hólmar séu lagðir til Eskifjarðarkaupstaðar, hvað sveitarsjóð snertir. Og komi það til, að Reyðarfjarðarkaupstaður óski þess, að hreppurinn verði tekinn til skipta á einn eða annan hátt, þá hygg ég það verði í sambandi við margt annað en að Hólmar verði lagðir undir Eskifjarðarkaupstað. Og ég er ekki alveg viss um, að Reyðarfjarðarhreppur óski eftir, að Hólmar verði færðir undan Eskifjarðarkaupstað.

Þá kvað hv. þm. það illa við eiga af mér að gera upp á milli minna barna, eins og ég gerði; ég hefði ráðfært mig við Eskifjarðarbúa, en gengið framhjá Reyðfirðingum. Þetta segir hann út í hött. Því miður á ég ekkert frumkvæði í þessu máli, sem ég mundi telja mér fullan heiður. Það eru Eskfirðingar sjálfir, sem bezt hafa fundið, hvar skórinn kreppti að. Þeir hafa sent umsókn um það að fá þessi kaup. Og ég hefi talið mér skylt að framfylgja ósk þeirra. Reyðfirðingar hafa ekkert slíkt gert. Ef þeir hefðu sent mér mótmæli og rökstutt þau, mundi ég hafa tekið það til greina. En ég hafði enga ástæðu til að fara til þeirra og spyrja þá um þetta. Þar sem þetta mál hefir í meira en ár legið fyrir, bæði í héraði og á Alþingi, og ekki komið fram opinberlega nein rödd frá Reyðfirðingum, að þeir teldu sér þetta óhagkvæmt, þá verð ég að líta svo á, að þeir séu ekki á móti sölunni.

Hv. þm. vildi segja, að ég hefði mistalað mig, er ég hafði eftir honum, að hann teldi prestum hollara að sitja á sveitajörðum en búa í kaupstöðum. Má vera, að ég hafi útfært þetta eitthvað frekar en hv. þm. meinti. En orðin féllu þannig, að hann sagðist telja það hollara fyrir presta; og þá varð ég að leita að rökunum fyrir því. Rökin fann ég. En hvort þau voru allskostar rétt, um það skal ég ekki deila. En hv. þm. hjó nokkuð nærri sama staðnum aftur, því að hann endurtók, að hann teldi heppilegra að prestar tækju að sér sveitastörf en óskyld störf í kauptúnum. Ég verð að segja, að eftir því sem ég lít á hlutverk presta, þá tel ég í kauptúnum miklu meira um skyldari störf fyrir þá en sveitabúskapur er. Ég lít svo á, að eitt af þeim stóru hlutverkum, sem prestar hafa að rækja, sé uppfræðsla ungdómsins. Þeir geta hvergi beitt sér betur fyrir henni en í kaupstöðum. Enda mun það vera svo fyrir flestum áhugasamari prestum, að þeir snúa starfi sínu í þá átt, svo sem þeir hafa tíma til frá embættisstarfi.

Ég get tekið undir með hv. sessunaut mínum, að það sé til lítils að þrátta um þetta mál. Ég tel líka, að við höfum ekki gert það, heldur hver á sínu sviði reynt að færa rök fyrir okkar máli. Ég ber fyllilega traust til hv. deildar, að hún afgreiði þetta mál með jafnmikilli sanngirni og hún hefir afgreitt önnur mál, og get látið umr. lokið frá minni hálfu.