19.03.1930
Efri deild: 55. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í C-deild Alþingistíðinda. (481)

31. mál, sala Hólma í Reyðarfirði

Jón Baldvinsson:

Það var lengi vel, að ég áleit ekki rétt, að ríkið léti af hendi jarðir til kauptúna. Og ég er reyndar þeirrar skoðunar ennþá, að ríkið eigi alls ekki að selja land einstökum mönnum. En þegar kauptún og kaupstaðir hafa tekið upp þá reglu, sem nú eiginlega er alstaðar viðurkennd án tillits til stjórnmálastefna, að kaupstaðirnir eigi sem mest land, bæði undir bæjarstæði og til ræktunar umhverfis, og þegar það er viðurkennt, að þetta land eigi að leigja út til kauptúna og kaupstaða, þá hefi ég ekki undanfarið séð ástæðu til að vera á móti því, að þeir aðiljar gætu keypt jarðir, sem ríkið gæti látið og eru í námunda við.

Fyrst þegar kaupstaðir voru byggðir, var hugsað um sjóinn aðallega. En eftir því sem fólki fjölgaði, varð örðugra að komast þar af nema hafa stuðning af einhverri annari atvinnu. Þannig er það meðal annars í mörgum kauptúnum á Austfjörðum. Yfirleitt hefir það verið svo á Austfjörðum síðustu 10 árin, að menn hafa staðið mjög illa að vígi fjárhagslega. Í þeim landsfjórðungi hefir tapazt mikið fé, bæði frá bönkum og verzlunum. Stafar þetta náttúrlega af fiskileysi við sjóinn um langt árabil. Nú á seinustu árum hafa menn aftur á móti komið auga á nýja möguleika fyrir fólk í kauptúnum, með því að rækta land og hafa þar af sína atvinnu að einhverju leyti. Og mér hefir skilizt, að þingið vilji ýta undir þetta. Alveg óskiljanlegt er mér það, að menn, sem sérstaklega telja sig til flokks, sem vill vinna að ræktun landsins, skuli geta sett sig á móti þessu, að kauptúnsbúar, sem vilja taka land til ræktunar, fái það.

Það hefir stundum verið sagt, þegar við jafnaðarmenn höfum flutt hinar og aðrar till., sem flokksmenn okkar í kaupstöðum og kauptúnum hafa óskað, að við flyttum, að við værum að hlaupa fram fyrir skjöldu gagnvart þingmanni kjördæmisins. En undarlegt finnst mér, að hv. 2. þm. N.-M. skuli nú koma og slást á móti hv. 2. þm. S.-M. um það, að kjósendur hans í Eskifjarðarhreppi geti fengið land til ræktunar. Á hverju er þetta byggt? Sannast að segja hlustaði ég ekki á alla ræðu hv. 2. þm. N.-M.; en eitt af því, sem hann bar fram sem höfuðástæðu, var vegalengdin. Hann nefndi 3 km. Hvílíkur ógnar vegur! Nú er svo komið, að bílvegur er frá Eskifirði yfir á Hólmanes, og hægt er að fara þetta á örfáum mínútum. Þegar vegur er kominn alla leið, geri ég ráð fyrir, að menn færu yfirleitt í bifreiðum á milli.

Nú hefði það getað verið ein ástæða hjá andmælendum þessa frv., ef þeir hefðu mátt færa rök að því, að núverandi prestur — eða einhver prestur seinna — vildi taka jörðina og reka þar stórt bú. En ungir og efnalitlir prestar munu undantekningarlaust vilja hliðra sér hjá því að taka slíkar jarðir sem þessa. Þeir hafa ekki viljað það, nema efnaðir prestar, sem lengi eru búnir að búa í sveit. Í framtíðinni er óhugsandi annað en að presturinn þarna verði í kauptúninu. Ef það á að vera ástæða, að halda jörðinni sem prestsjörð, þá styðst hún ekki við nein sennileg rök. Mótmæli biskups, sem vafalaust byggjast á þessu, eru því þar með úr sögunni.

Nú hefir hv. 3. landsk. bent á, að hér sé ekki verið að leggja land úr Reyðarfjarðarhreppi undir Eskifjarðarhrepp. Þvert á móti er verið að skapa Reyðarfjarðarhreppi möguleika til þess að geta skattlagt Eskfirðinga; þeir, sem hefjast handa um atvinnu í landi hreppsins, geta orðið útsvarsskyldir í Reyðarfjarðarhreppi. Það er svo langt frá, að hann geti haft neitt á móti þessu.

Ég er hræddur um, að í þessu máli sé héraðarígur, — að ekki megi komast samband frá Eskifirði og alla leið upp á hérað. Þarna held ég, að liggi höfuðástæðan til andstöðu gegn frv. Það verður ekki langt þangað til kemur vegur frá Eskifirði og Reyðarfirði og verður tengdur við Fagradalsbrautina. Og fyrir héraðsbúa þýðir það miklu stærra verzlunarsvið. En ég er hræddur um, að Reyðfirðingar líti ekki þessar framkvæmdir Eskfirðinga hýru auga og séu sumir hverjir hræddir um, að Eskfirðingar verði enn nærgöngulli, ef þeir eru búnir að fá eignarhald á jörðinni Hólmum; vegurinn muni halda áfram með meiri krafti en annars.

Ég álít ekki, að hv. þm. megi líta á slík smávægileg hreppatog, sem byggjast eiginlega á þröngsýni, þar sem það getur orðið til að hindra möguleika fjölda fólks til atvinnu með ræktun. Hv. 2. þm. N.-M. viðurkenndi, að Eskifjarðarhreppur væri yfirbyggður. Nú ætlar hann að láta hreppsbúa kenna á því. Hann vill ekki hjálpa þeim til þess að dreifa fólkinu. Við skulum hugsa okkur, að nokkrir úr Eskifjarðarhreppi vildu taka sér bústað í Hólmalandi, sem skipt væri í skákir. Hv. 2. þm. N.-M. vill þetta ekki, heldur láta þennan yfirbyggða kaupstað halda áfram að veslast upp. Ég veit ekki, hverjum þarf að rétta hjálparhönd, ef ekki ýmsum kaupstöðum austanlands. En ekki þar fyrir, að sveitirnar séu ekki illa stæðar líka. Og hv. 2. þm. N.-M. var líka hér að bera umhyggju fyrir einum hreppi í sínu kjördæmi, sem er illa stæður. Það er a. m. k. gerð tilraun til að hjálpa þeim hreppi út úr verstu kröggunum, þó að það sé ekki að öllu að tilhlutun þingsins. Og ég álít líka sjálfsagt að víkjast vel undir, þegar illar ástæður eru. Alveg á sama hátt finnst mér vel við eigandi, að þingið hjálpi Eskfirðingum úr þeirri kreppu, sem þeir óneitanlega eru í í atvinnulegu tilliti. Ég get ekki séð, að nein réttmæt ástæða hafi komið fram. Líklega hefir ekki sú raunverulega ástæða í þessu máli komið fram fyrr en nú, — þessi krítur milli kauptúna og hreppa, að koma ekki á samgöngum. En það hlýtur að vera vilji hv. alþm. að gera samgöngurnar sem auðveldastar milli sveita og kauptúna. Skilst mér því, að þetta mál ætti að eiga sérstaklega öruggan stuðning hjá þeim flokki þingsins, sem telur sig fremur öðrum vilja stuðla að ræktun landsins.