19.03.1930
Efri deild: 55. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 173 í C-deild Alþingistíðinda. (482)

31. mál, sala Hólma í Reyðarfirði

Páll Hermannsson:

Ég skal geta þess, að fyrir þinginu í fyrra — a. m. k. einstökum þm. — lágu upplýsingar um vilja Reyðfirðinga, bæði frá hreppsnefndar og sveitarfundi, og — að ég ætla — frá sóknarnefnd. Ég hygg, að þau skjöl hafi aldrei lent inn í skjölum þingsins, en þau voru hér eigi að síður.

Þá vil ég leyfa mér að benda á, að það er af misskilningi sprottið, þegar hv. ræðumenn hafa viljað láta líta svo út, að ég setti mig á móti því, að Eskfirðingar fái land til ræktunar. Ég hefi einungis viljað athuga það, hvaða land það væri, sem þeim kæmi bezt til ræktunar.

Ég hefi einmitt viðurkennt þörfina, en talið að það ætti að vera land jarðarinnar Eskifjarðar. Ég álít, að það mál sé hvergi nærri fullrannsakað og get því fylgt dagskrá hv. þm. Snæf. og tekið undir með honum, að ekki er um neitt smáræðis land að ræða þar, ef fullræktað verður.

Ég hefði gjarnan viljað minnast nokkuð á draumóra hv. 4. landsk., ef ég hefði haft tíma til þess. Hv. þm. slær því föstu, að prestar mundu ekki vilja búa á jörðinni. Þetta eru alveg rakalausir draumórar, sem engan stuðning hafa í reynslunni. — T. d. býr presturinn á Fáskrúðsfirði á Kolfreyjustað og presturinn á Seyðisfirði á Dvergasteini.

Þá er það einnig rakalaust, sem hv. þm. sagði um vegarsambandið milli þessara staða. Þingið lítur auðsjáanlega svo á, að fyrir þessu vegarsambandi sé séð með því fé, sem veitt er í yfirstandandi fjárlögum, því engin fjárveiting er nú í fjárlagafrv. í þessu skyni. Þetta eru því allt hugsanavillur frá upphafi til enda hjá hv. 4. landsk.