19.03.1930
Efri deild: 55. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 174 í C-deild Alþingistíðinda. (483)

31. mál, sala Hólma í Reyðarfirði

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Út af framkominni dagskrá vil ég taka það fram, að þetta mál var á síðasta þingi afgr. á þann hátt frá hv. Nd. Nú hefir sú hv. d. litið svo á, að þau rök, er fram geta komið, séu fyrir hendi og því afgr. frv.

Út af orðum hv. 2. þm. N.-M. vil ég taka það fram, að þau gögn til mótmæla, er hann talar um að legið hafi fyrir á síðasta þingi, og að því er mér skildist í höndum einstakra manna, hafa alls ekki komið fyrir mín augu, né heldur hv. 1. þm. S.-M. Er þó einkennilegt, ef þau hafa verið til, að það er eins og þeir, sem hafa haft þau undir höndum, vilji dylja þau. En ég verð enn sem fyrri að halda mér fast við það, að ekki muni vera mikil andúð gegn þessari sölu, fyrst engin opinber mótmæli hafa komið fram. Hefir þó málið haft heilt ár til undirbúnings, síðan það kom fram á þinginu í fyrra, og öllum hlutaðeigendum kunnugt. Og ég held, að það væri alveg óviðeigandi afgreiðsla að vísa því að nýju til stj., eftir þann undirbúning, sem það hefir fengið. Ég verð því að leggja á móti dagskránni og treysti hv. deild til að fella hana.