13.03.1930
Neðri deild: 52. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í B-deild Alþingistíðinda. (49)

1. mál, fjárlög 1931

Jörundur Brynjólfsson:

Ég á hér eina brtt. við þennan kafla fjárlaganna ásamt hv. 3. þm. Reykv. Þessi brtt. fer fram á það, að heimila stj. að greiða séra Kjartani Helgasyni í Hruna full prestslaun.

Eins og menn muna, samþykkti Alþingi árið 1926 að greiða honum full laun, þá er hann léti af prestsskap. Þá var það í ráði, að hann hyrfi að öðrum störfum, tæki við skólastjórn Laugarvatnsskólans, og til þess að tryggja það, að hann hefði einskis í að missa, þó að hann léti af prestsskap, vildi þingið tryggja honum full laun. Þessi sæmdarmaður hefir nú mest sakir heilsuleysis orðið að láta af prestsskap. Eins og margir vita, hefir hann verið einn af beztu kennimönnum þessa lands og mjög vel fallinn til að uppfræða ungmenni, mennta þau og manna. Þess vegna er vel við eigandi, þar sem heilsa hans er þrotin, að þingið sýndi honum þann sóma, að samþykkja, að hann fái full laun það sem eftir er æfinnar. (MG: Vildi hann ekki vera skólastjóri?) Ég skýt þessu til hv. þdm. og vænti þess, að þeir bregðist vel við þessari málaleitan. (MJ: Sjálfsagt, fyrir það, að Jónas sveik hann). Það er varla líklegt, að ríkissjóð muni miklu, þó hann greiði honum þetta fé.