24.03.1930
Efri deild: 59. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 184 í C-deild Alþingistíðinda. (493)

31. mál, sala Hólma í Reyðarfirði

Jón Jónsson:

Það þýðir víst ekki að halda langa ræðu um þetta mál nú; hv. þdm. eru fremur lausir í sætunum, eins og eðlilegt er, þegar eldhúsdagsumr. standa sem hæst í hv. Nd. Þó vil ég svara hv. frsm. n. nokkrum orðum.

Hann taldi ástæðulítið að leita umsagnar biskups, því hún væri þegar fengin. Biskupinn mun hafa látið uppi álit sitt um þetta mál í fyrra, en þrátt fyrir það liggur ekki fyrir umsögn hans um það nú. Það eru dálítið aðrar ástæður fyrir hendi nú en í fyrra; sóknarpresturinn t. d. lagði á móti sölunni í fyrra, en mælir með henni nú. Er því ekki loku fyrir það skotið, að afstaða biskups hafi líka breytzt. Úr því þessi yfirmaður kirkjunnar er á annað borð til, finnst mér óhæfa að ráða til lykta máli, sem eins mikið snertir kirkjuna og þetta, án þess að liggi fyrir mjög nýleg umsögn um það frá honum.

Þá talaði hv. frsm. um, að till. mínar væru mjög misráðnar vegna ókunnugleika míns. Nefndi hann til dæmis, að óheppilegt væri að láta Seleyri fylgja aðaljörðinni, þó Eskifjarðarkauptún keypti hana. Hv. 4. landsk. hefir nú þegar bent á, að stj. er ekki bundin við að selja jörðina alla, þó henni sé heimilað það. Hún getur því haldið eftir því, sem henni finnst ástæða til, ef það er nokkuð.

Að því er snertir ítök jarðarinnar, reka og því um líkt, þá veit ég ekki, hvort þau yrðu ríkinu nokkurs virði, þegar búið væri að selja jörðina sjálfa. (IP: Það mætti selja öðrum þau).

Um hreppaskiptin þarf ég ekki að tala; hv. 2. þm. N.-M. hefir tekið af mér það ómak. Einnig vék hv. 2. þm. N.-M. að því, að lítil ástæða væri til að halda eftir landi undir nýbýli handa prestinum. Annaðhvort verða Hólmar að vera prestssetur eða ekki. Hv. frsm. hefir nú haldið fram, að betra sé fyrir prestinn að vera í Eskifjarðarkauptúni, og þá er óþarfi að ætla honum land undir býli á Hólmum; hann stendur jafnt að vígi öðrum í kauptúninu til að fá þar blett til að rækta, þó ríkið haldi engu eftir.

Hv. frsm. taldi það galla á brtt. mínum, að ef þær væru samþ., væri ekkert tekið fram í frv. um það, fyrir hvaða verð ætti að selja Hólma og með hvaða skilmálum. Mér finnst það geti farið eftir samningum við stj., eins og oft áður þegar kauptúnum hafa verið seldar jarðir án þess vísað væri til laganna frá 1907. Það er orðið löngu úrelt að selja jarðir eftir mælíkvarða frá 1907. Hv. frsm. gat um, að enginn trygging væri fyrir því, að Hólmar yrðu seldir með öðrum kjörum, þó brtt. væru samþ. Mér er það nægileg trygging, að um söluna á að semja stjórn, sem ég treysti bæði til að fara með þetta mál og önnur.

Ég hefði viljað skora á hæstv. stj. að setja nokkur nánari skilyrði fyrir sölu Hólma, t. d. að tryggja það, að jörðin geti ekki lent í braski, með því að ákveða að ef hún gengi úr eigu Eskifjarðarkauptúns, fengi ríkið hana aftur. En því miður er engin hæstv. ráðh. viðstaddur sem stendur, og læt ég því staðar numið.