24.03.1930
Efri deild: 59. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 195 í C-deild Alþingistíðinda. (499)

31. mál, sala Hólma í Reyðarfirði

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Ég geri ráð fyrir, að ég verði að svara einhverjum af þeim fyrirspurnum, sem hv. 2. þm. N.-M. lagði fyrir mig, þó að þær væru sumar þannig vaxnar, að ég álíti þær ekki koma þessu máli við.

Hann spurði mig, hvers vegna ég hefði lagt með því, að akvegur væri lagður milli Eskifjarðar og Hólma, þar sem ég teldi sjóleiðina svo góða. Ég skal segja það rétt eins og það er, að ég hefi aldrei sótt það sérstaklega fast; en hinsvegar taldi ég mér skylt að fylgja því máli eins og öðrum, sem snerta kjördæmi mitt. Ég álít, að máske hefði mátt verja þessu fé betur til vegalagninga á öðrum stöðum. En þetta gekk sæmilega greiðlega í gegn, og ég hafði því ekki ástæðu til þess að vera á móti því.

Hv. þm. spurði, hvort allir Eskfirðingar væru sammála um Hólmakaupin. Ég hefi nú ekki gengið fyrir hvers manns dyr, en af þeim gögnum, sem fyrir liggja, má sjá, að almennur sveitarfundur á Eskifirði hefir skorað á þm. að fylgja þessu fram, og hreppsnefndin samþ. það í einu hljóði. Hitt má vera, að finna mætti menn á Eskifirði, sem ekki eru áfram um þetta, en ég þekki þá ekki. Annars er ómögulegt að fara út í atriði, sem er margbúið að þvæla um.

En áður en ég sezt niður, vil ég færa hv. 2. landsk. þakkir fyrir þau móðurlegu ráð, sem hún gaf mér, þó að hún hefði gjarnan mátt halda því út ræðuna. En hitt ætla ég að segja hv. 2. landsk., að hvað snertir sjóleiðina milli Hólma og Eskifjarðar, er ég ekkert hræddur, þótt skotið sé undir dóm hv. þdm., hvort okkar sé bærara að dæma um hana. Þótt hvasst sé, geta menn lent hvar sem er. Og ég veit ekki til, að sjóleiðin hafi orðið agaleg í augum nokkurs manns nema hv. 2. landsk.