03.03.1930
Neðri deild: 42. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 205 í C-deild Alþingistíðinda. (508)

197. mál, sóknargjöld

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Eftir þessar fróðlegu upplýsingar verð ég hissa á fáu frá hv. 1. þm. Reykv. Hvað sem Alþýðublaðið kann að hafa sagt um hann, er það ekki sagt um hann sem guðfræðikennara, heldur sem pólitíkus. Hitt er satt, að Alþýðublaðið hefir stundum minnzt á Magnús, fyrrum dócent (MJ: Oftar en stundum. Forseti: Hér er ekki verið að ræða um Alþýðublaðið). Ég hygg, að það sé leyfilegt að lesa upp úr því jafnt sem öðrum blöðum.

Ég verð að segja það, að það er leiðinlegt, ekki vegna hv. 1. þm. Reykv. sjálfs, heldur vegna þeirrar stofnunar, sem hv. þm. starfar fyrir, að hann skuli ekki bera meira traust til þjóðkirkjunnar en lýsti sér í þessari seinni ræðu hans sérstaklega. Undrar mig þetta svo mjög, að ég held, að hér eftir muni mig fátt undra, sem kemur frá hv. l. þm. Reykv. Og ég verð enn að láta í ljós, að ég tel ekki ástæðu til að ætla, að frv. hafi þau áhrif, sem hann ætlar, ef að l. verður.