03.03.1930
Neðri deild: 42. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 206 í C-deild Alþingistíðinda. (510)

197. mál, sóknargjöld

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Ég verð að bera þær sakir af mér, að ég hafi lýst yfir góðu áliti á hv. Í. þm. Reykv. sem kennara. Þetta hefi ég aldrei gert, enda get ég ekkert um það borið, hvort hann er góður eða slakur kennari, þar sem ég hefi aldrei notið kennslu hans.

Út af greininni í Alþýðublaðinu, sem hv. þm. tilnefndi, þar sem einn flokksbróðir minn vítti hann að maklegleikum fyrir þennan „illindalausa fyrirlestur“, sem hann svo kallar, vil ég benda á það, að í þessum fyrirlestri lét hv. 1. þm. Reykv. meðal annars svo um mælt, að þúsundir manna í þessu landi væru landráðamenn, sem sætu á svikráðum við hinn vinnandi lýð í landinu. Þennan fyrirlestur lét hv. 1. þm. Reykv. prenta undir fullu nafni, í trausti þess, að frekar yrði tekið mark á honum, ef undir stæði nafn kennara í kristnum fræðum við háskólann. Ég verð að segja það, að ég álít þessa aðdróttun hv. 1. þm. Reykv. í garð þúsunda manna í landinu með öllu ósæmandi, og ég get bætt því við, að ég er sammála flokksbróður mínum um það, að fyrir þetta ætti að sparka hv. 1. þm. Reykv. frá háskólanum, jafnvel þó að hann væri ágætur kennari.