10.04.1930
Neðri deild: 76. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 207 í C-deild Alþingistíðinda. (518)

197. mál, sóknargjöld

Frsm. minni hl. (Magnús Guðmundsson):

Ég var satt að segja búinn að gleyma þessu frv., enda hélt ég, að það ætti að fá að sofna. Það er nú liðinn mánuður síðan minni hl. skilaði sínu nál., og meira en mánuður síðan nál.meiri hl. kom fram. Auk þess er svo áliðið þingtímans, að engar líkur eru til þess, að frv. nái fram að ganga að þessu sinni. Ég vil þó segja nokkur orð, úr því að frv. er til umr. á annað borð.

Eins og tekið er fram í grg. frv., er svo kveðið á í stjskr., að enginn „megi neins í missa af borgaralegum og þjóðlegum“, og að „enginn sé skyldur til að inna af hendi persónuleg gjöld til neinnar annarar guðsdýrkunar en þeirrar, er hann sjálfur aðhyllist“.

Með tilliti til þessa er svo ákveðið í gildandi lögum, að þeir, sem engin gjöld greiði til kirkjunnar, skyldu greiða þau til háskólans. Þetta var gert með það fyrir augum, að þeir, sem enga trú játa, yrðu ekki betur settir en hinir, sem trúna játa. A. m. k. fæ ég ekki skilið þetta á annan veg. Stjskr. gerir þessum tveim flokkum manna jafnt undir höfði með þessu ákvæði, en þetta jafnvægi raskast; ef sérstakur skattur er lagður á þá menn, sem trú játa. Þá er þessu snúið við og þeir teknir út úr og skattaðir, sem trúna aðhyllast (HV: Þetta er nú það, sem kallað er að snúa sannleikanum við). Nei, þvert á móti. Þetta er kallað að segja sannleikann. Ég held því fram, að það sé jafnskipt, þegar hvortveggja þessi flokkur manna greiðir þessi gjöld, en hv. frsm. meiri hl. heldur því aftur á móti fram, að þá fyrst sé jafnskipt, þegar annar flokkurinn er tekinn út úr og látinn greiða, en hinn ekki. Þykir mér næsta undarlegt, þegar menn, sem kalla sig jafnaðarmenn, halda fram öðrum eins ójöfnuði sem þessum.

Hv. frsm. meiri hl. gat þess, að það hefði verið fært fram á móti þessu frv., að það mundi hafa þær afleiðingar, að menn sópuðust úr þjóðkirkjunni. Og þótti honum svo sem ekkert að því.

Ég get ekki tekið undir þetta, en ég verð að segja, að ég sé enga ástæðu til þess, að þjóðfélag, sem hyllir ákveðna trúarstefnu og stendur straum af boðum hennar, fari að gefa mönnum undir fótinn með það að vera ekki styrktarmenn þessarar kirkju.