13.03.1930
Neðri deild: 52. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í B-deild Alþingistíðinda. (52)

1. mál, fjárlög 1931

Fjmrh. (Einar Árnason):

Ég get farið fljótt yfir brtt. þær, sem hér liggja fyrir. Yfirleitt hefi ég það um brtt. að segja, bæði þær, er hv. fjvn. ber fram, og eins brtt. hv. þdm., að ég er þeim andvígur, sem fara fram á að auka útgjöld ríkissjóðs, nema það sé víst, að óhjákvæmilegt sé að hækka tölur frv. Skal ég þó nefna nokkrar brtt. sérstaklega.

Það er þá fyrst brtt. fjvn. um 3000 kr. til að byggja Hallgrímskirkju í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd, 1. greiðsla af 3. Ég vil alls ekki segja, að þessum peningum væri illa varið, en hitt finnst mér, að þetta gæti vel beðið. Eins finnst mér óþarfi að fara að binda þessa greiðslu í þrjú ár. Hitt finnst mér miklu frekar koma til mála að ríkissjóður leggi einhverja upphæð fram til þessa í eitt skipti fyrir öll, þegar búið er að fá svo mikið fé á annan hátt, að til byggingar kirkjunnar geti komið. En sem sagt, mér finnst þetta ekki aðkallandi og vel mega fella brtt.

Þá er 29. brtt. hv. fjvn., um 25 þús. kr. endurveiting til Stúdentagarðsins. Ég hefi í sjálfu sér ekkert að móti þessari brtt. Ef hún verður samþ., skil ég það sem bendingu frá Alþingi um, að sá styrkur, sem áður hefir verið veittur í þessu skyni og ekki notaður, skuli greiddur að fullu úr ríkissjóði, sem sagt 100 þús. kr., þegar bygging garðsins hefst fyrir alvöru og henni verður haldið áfram. — Hv. frsm. (BÁ) minntist á þessa brtt., og hefi ég ekkert við það að athuga, sem hann sagði um hana. Ég hefi sagt mönnum þeim, sem að þessu standa, að ég myndi nota heimildina til að greiða á þessu ári það, sem nú er veitt í fjárl. til Stúdentagarðs, og þá veitingu, sem hér um ræðir, um leið. Af afganginum, 50 þús. kr., treysti ég mér ekki til að lofa meiru en 25 þús. kr. á árinu 1931, og mundi þá afgangurinn greiðast á árinu 1932.

Þá er 41. brtt. hv. fjvn. Ég verð að segja, að mér þykir miður, að hv. n. skuli hafa gengið inn á þá braut að veita persónulega styrki eins og þennan. Ef slíkar brtt. eiga að vera bornar fram á annað borð, væri mér ljúfara að sjá þær koma frá einstökum þdm. en hv. fjvn. Annars hefir nú verið tekin upp sú venja, til þess að ekki þurfi að taka upp á Alþingi deilu um nöfn og verðleika einstakra manna, að leggja fram ákveðnar fjárhæðir til að styrkja vissa menn, og, öðrum aðilja en Alþingi verið falin úthlutunin. Má og í þessu sambandi minna á Menningarsjóð, sem stofnaður er samkv. sérstökum lögum. Tel ég þessa aðferð heppilega og er því á móti persónulegum styrkjum eins og þeim, sem hér ræðir um.

Þá hefir hv. fjvn. tekið upp brtt. um styrk til Mjólkurfélagsins „Mjallar“ í Borgarnesi, sem landsstjórnin hafði fellt niður. Eftir mínum kunnugleika af þessari verksmiðju er mjög vafasami, hvort rétt er að veita þennan styrk. Verksmiðjan starfar ekki nema öðru hverju, og mun það stafa af því, að illa gengur að selja mjólkina. Hv. frsm. minntist á, að í ráði mundi að breyta þarna til og koma upp fullkomnu mjólkurbúi. Gæti ég betur fellt mig við það en núverandi starfrækslu. Ef af þessu verður, mun ég að sjálfsögðu fylgja því, að þetta mjólkurbú njóti sama styrks og hliðstæðar stofnanir.

Í 50. brtt. sinni hefir hv. fjvn. tekið upp styrki til ýmissa sjúkrasjóða, sem felldir höfðu verið niður. Það má vera, að þessir sjóðir eigi það skilið að fá einhvern styrk. Um það veit ég ekki, og enginn í fjármálaráðuneytinu hefir hugmynd um, hvernig þessi félög eru rekin. Er mér ekki grunlaust um, að til séu fleiri sjúkrasjóðir og styrktarfélög á landinu en þessi, sem hafa alveg sama rétt til styrks. Mér finnst ekki mega minna vera en að þessar stofnanir sendi reikninga sína til ríkisstj. árlega og ætti ekki að greiða styrkina fyrr en þeir hafa verið samþykktir. Ég rengi alls ekki, að þessir félagsskapir séu til, en það væri viðfelldnara að fá að vita eitthvað um rekstur þeirra. Þetta eru vitanlega ekki svo stórar fjárhæðir, að neinu verulegu nemi, hvort þær eru samþ. eða ekki. En ef fleiri slíkir sjóðir eru til hér á landi, þá eiga þeir vitanlega líka fullan rétt til að gera sömu kröfu og njóta sömu úrlausnar.

Um till. fjvn. við 18. gr. hefi ég ekki annað að segja en það, að ég fellst á þær allar.

Þá koma till. frá ýmsum hv. dm. Um þær hefi ég yfirleitt það að segja, að ég er mótfallinn þeim flestum. Ég sé því naumast ástæðu til að gera þær að umtalsefni hverja fyrir sig. Út af brtt. 260, XXXI, frá hv. 1. þm. Skagf., um að við liðinn komi aths. um, að Guðmundur Friðjónsson fái af þessu fé 1500 kr. til utanfarar, þá vil ég segja það, að ég er alls ekki mótfallinn því, að G. Fr. fái þetta. En hinsvegar er ég andvígur því, að þingið setji slíkar aths., því þá ber enn að sama brunni um, að þm. fara að bítast um það, hverjir þennan styrk skuli fá og hverjir ekki. En fyrir þetta átti einmitt að taka með því að veita þessa styrki sem eina upphæð og játa stj. um að úthluta henni. (MG: Ég skal taka till. aftur, ef hæstv. ráðh. vill heita því, að veita G. Fr. þennan styrk!). — Ég fyrir mitt leyti skal styðja að því, að G. Fr. fái þennan styrk.

Er þá ekki annað, sem ég þarf sérstaklega að minnast á hér.

Þá eru brtt., er miða að því, að stj. sé gefin heimild til að taka ábyrgð fyrir hönd ríkisins á einstökum lánum. Ég hefi áður látið í ljós það álit mitt, að varhugavert væri að binda ríkissjóði of miklar ábyrgðir á herðar. En ég játa, að þing og stj. er í vanda stödd út af slíkum till. Ég veit, að það er fullkomlega ofvíða ýmsum héruðum að ráða við stórar framkvæmdir, sem heimta mikið fé. ef þau fá enga aðstoð frá ríkinu um ábyrgð á þeim lánum, sem þau þurfa að taka. En eins og þetta hefir komið fram í ýmsum till., þá tel ég slíkar beiðnir óforsvaranlegar. Fyrst er heimtað, að ríkissjóður leggi fram í beinum styrk svo og svo mikinn hluta af því fé, sem fyrirtækið kostar, og svo er heimtuð ábyrgð ríkissjóðs fyrir afganginum. Með öðrum orðum: Ríkið á að kosta og ábyrgjast fyrirtækið eins og það leggur sig. Annað mál væri, ef hlutaðeigendur legðu fram stóran hluta til fyrirtækisins, án þess að stofna til skulda og án þess að ríkissjóður legði til ábyrgð nema að litlu leyti. Þær ábyrgðir, sem farið er fram á í þeim till., er hér liggja fyrir, eru í raun og veru þannig vaxnar, að ég tel tæplega forsvaranlegt, að ríkissjóður takist þær á hendur. Ég get því ekki annað en mælt á móti þeim.

Þar sem ég finn ekki ástæðu til að fara út í einstakar brtt. að svo komnu, þarf ég ekki að segja fleira að sinni og læt lokið máli mínu.