10.04.1930
Neðri deild: 76. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í C-deild Alþingistíðinda. (520)

197. mál, sóknargjöld

Magnús Jónsson:

* Ég er hræddur um, að hv. frsm. meiri hl. vaði reyk í þessu máli frá upphafi til enda. Ef hann ætlar að ná því, sem hann vill, þarf hann að gera þetta frv. svo víðtækt, að með því séu afnumin öll gjöld til kirkjunnar önnur en persónuleg gjöld, sem þeir einir greiði, sem í kirkjunni eru, því að eins og nú er, þá er kirkjunni haldið uppi sumpart með almennum sköttum og sumpart með sóknargjöldunum. Ef það þá er rangt að láta utankirkjumenn greiða þessi gjöld, er það nákvæmlega jafnrangt að láta þá greiða þann hluta af hinum almennu sköttum, sem rennur til þess að halda kirkjunni og háskólanum uppi. A. m. k. fæ ég ekki séð neinn mun á þessu tvennu.

Hv. frsm. meiri hl. var að tala um það, að það mætti eins leggja skemmtanagjöld á þá menn, sem ekki færu á skemmtanir, jafnt og hina, sem á skemmtanirnar færu og nytu peninga sinna. Þetta er algengt. Þegar ríkið t. d. veitir svo og svo mikinn styrk til leikhúsa, er þar með lagt nokkurskonar leikhúsgjald á hvern mann í landinu, hvort sem hann nýtur þess eða ekki. Þetta frv. er því hálfgerður hrærigrautur og bætir ekki til fulls úr því, sem það vill bæta.

Ég benti á það við 1. umr. þessa máls, að hér væri um mjög varasamt frv. að ræða, sem hefði í för með sér mikla áhættu fyrir ríkissjóðinn.

Þetta ákvæði stjskr. ber að skoða sem varúðarráðstöfun gegn því, að menn flykkist úr þjóðkirkjunni, til þess að losna við að greiða hin lögboðnu gjöld, og á hinn bóginn til þess að styðja þessa þjóðþrifastofnun, háskólann. Stjskr. gerir ráð fyrir, að menn séu fúsir til þess að greiða þessi gjöld af almennum þegnskap. (HV: Ekki til guðfræðideildarinnar). Það er nú svo um guðfræðideildina, að mjög er hæpið, að hún heyri þjóðkirkjunni til fremur en öðrum trúarflokkum. Kennarar deildarinnar heyra t. d. alls ekki undir biskup. Yfirleitt ber að skoða allir deildir háskólans sem vísindastofnanir fyrst og fremst. Það er efamál, hvort kennarar guðfræðideildarinnar eru bundnir við trúarjátningar þjóðkirkjunnar. Þeir gætu sennilega eins verið metódistar, baptistar eða aðventistar; yfirleitt geta kennarar deildarinnar verið tilheyrandi hvaða kristnum trúarflokki, sem vera skal. Guðfræðideildin er því alls ekki hluti af þjóðkirkjunni, og ætti mönnum að vera ljúft að greiða til hennar, þótt þeir væru ekki í þjóðkirkjunni. Þó að ríki og kirkja væru aðskilin, yrði guðfræðideildinni að sjálfsögðu haldið áfram. Ríkinu bæri að sjálfsögðu skylda til þess að sjá um, að andlegir leiðtogar þjóðarinnar væru vel menntaðir, víðsýnir og vel hugsandi menn. Það, sem því er aðalatr. og sem mælir mest gegn þessu frv., er það, að með því er verið að gefa smásmuglegum aurasálum undir fótinn með að losna við að greiða þetta litla gjald til háskólans, þrátt fyrir það, þó þeir noti presta þjóðkirkjunnar og kirkju, þegar þeir þurfa.

Þá kem ég að 2. gr. frv. Þar stendur berum orðum, að falla skuli úr gildi ákvæði 3. mgr. 60. gr. stjskr. Nú stendur það tvímælalaust í þingsköpum, að öll þau frv., sem feli í sér breyt. á stjskr., skuli hafa fyrirsögn: frv. til stjórnarskipunarlaga. Nú hefir þessu ákvæði ekki verið fylgt, og vil ég því skjóta því til hæstv. forseta, hvort ekki beri að vísa þessu máli frá af þessum sökum. Að vísu stendur í stjskr.-greininni, að þessu ákvæði megi breyta með lögum. En hér er beinlínis um að ræða breyt. á stjskr. Á sama hátt ætti að mega fella burtu alla 58. gr. stjskr., og yrði hún þá felld burtu næst þegar stjskr. væri prentuð upp. Ég er nú að vísu enginn lögspekingur að lærdómi, en þó virðist mér þetta varla orka tvímælis, að slíku frv. beri að vísa frá. Vil ég leyfa mér að skjóta þessu til hæstv. forseta.