10.04.1930
Neðri deild: 76. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 214 í C-deild Alþingistíðinda. (525)

197. mál, sóknargjöld

Haraldur Guðmundsson:

Mig furðar á því, að það skyldi vera guðfræðiprófessorinn, sem fann það, að hér væri um brot á stjskr. að ræða, en fyrrv. dómsmrh. (MG) skyldi ekki finna það. Mætti ætla eftir þessu, að hlutunum væri snúið við og að guðfræðivitið væri komið í hv. 1. þm. Skagf., en lagavitið í hv. 1. þm. Reykv. Annars uni ég úrskurði hæstv. forseta hið bezta og álít hann réttan. Og enda þótt ég sjái ekki ástæðu til þess að flytja slíka brtt. sem hann drap á, þá mun ég sennilega greiða henni atkv. mitt.

Ég tók eftir því, að hv. 1. þm. Reykv. sagði mjög villandi og blekkjandi frá, er hann vildi sannfæra menn um, að 2. gr. frv. bryti í bág við stjskr. Hann las upp hluta úr gr., þannig: „fellur úr gildi ákvæði 60. gr. stjskr.“ Punktur. Ef þetta væri rétt, þá væri hér vitanlega um skýlaust stjórnarskrárbrot að ræða. En gr. heldur áfram, án nokkurs punkts eða greinarmerkis, og hljóðar þannig öll: „og fellur þá jafnframt niður ákvæði 60. gr. stjskr. um gjaldskyldu utanþjóðkirkjumanna til Háskóla Íslands“. En í 60. gr. stjskr. segir, að fella megi þetta ákvæði niður með einföldum lögum. Ég hefi leitað til skrifstofustjóra Alþingis, Jóns Sigurðssonar, sem er maður prýðilega að sér í lögum, og taldi hann þetta vafalaust geta staðizt. Annars get ég eftir atvikum sætt mig við brtt. hv. þm. N.-Þ., enda þótt ég teldi hennar enga þörf.

Ég veit ekki, hvort ég á að fara að ræða við hv. 1. þm. Skagf. um skilning á orðunum skattar og gjöld fyrir unnin störf. Komið hefir það nú fyrir, að þessi hv. þm. hefir reynt að gera greinarmun á slíku, en út í það fer ég ekki að svo stöddu.

Hv. 1. þm. Reykv. sagði, að frv. þetta gengi of skammt, því að utankirkjumenn yrðu að greiða fjölda af öðrum sköttum til hins opinbera. Þetta er vitaskuld alveg rétt, en það er broslegt, ef hv. þm. heldur, að við höfum ekki vitað þetta, flutningsmennirnir. En þess ber að gæta, að hér er ekki um fjárhagsatriði að ræða, heldur nánast „princip“atriði. Enda má finna mörg hliðstæð dæmi þess, að menn greiða til hins opinbera ýmsa skatta, sem koma öðrum til góða en þeim sjálfum. Sem dæmi má nefna heilbrigðismál, skóla- og samgöngumál. Í þessum greinum borga þeir, sem sérstaklega njóta góðs af, sérstök gjöld, svo sem læknishjálp, skólagjöld og fargjöld. Að svo miklu leyti, sem þessi þjónustugjöld hrökkva ekki til, greiðir síðan allur almenningur kostnaðinn með sköttum. Og um þjóðkirkjuna er það svo eftir gildandi lögum, að þeir, sem nota hana, verða auk almennra skatta til hennar að greiða þjónustugjöld, sóknargjöld til hennar. Um það er ekkert að segja. En það er alveg ranglátt að leggja sérstakt vitagjald á þá, sem ekki nota þjóðkirkjuna eða önnur kirkjufélög. Þetta er aðalatriðið fyrir mér, en ekki það, að ég áliti, að hér sé um verulegt fjárhagsatriði að ræða. Stjskr. löghelgar algert trúfrelsi í landinu, og þess vegna nær það engri átt, enda gagnstætt almennri skynsemi, að leggja vitagjöld á menn fyrir sakir trúar sinnar eða trúleysis.

Einn aðalþátturinn í starfi háskólans er einmitt að búa menn undir starf við þjóðkirkjuna, þó að einn prófessorinn, hv. 1. þm. Reykv., segi, að lærisveinar hans geti orðið prestar fyrir aðra trúflokka, svo sem baptista og mormóna. Það getur nú verið, að hann hafi ekki nefnt mormóna sem sérstakan trúarflokk; ég hefi ekki næga fagþekkingu til þess að dæma um þá hluti.

Það er alveg rétt, sem hv. 1. þm. Reykv. segir, að ef afleiðingarnar verða þær, að fólk hópast út úr þjóðkirkjunni til þess að losna við þetta gjald, þá verður að auka sem því nemur framlag ríkissjóðs til kirkjunnar, ef ríkið kostar hana á annað borð, svo að þessum útgjöldum er alls ekki létt af landsmönnum í heild. En tilgangur þessa frv. er eingöngu sá, að nema burt það ranglæti, sem utankirkjumenn eru nú beittir með sérstökum sektargjöldum.

Ég er hv. þm. í rauninni alveg sammála um, að það er óeðlilegt, að landsmenn séu látnir kosta þjóðkirkjuna. Mér fyrir mitt leyti finnst miklu réttara, að hver kirkjuflokkur kosti sína trúarbragðastarfsemi sjálfur. Og mér þykir ekki ótrúlegt, að bráðlega komi fram frv. um skilnað ríkis og kirkju, þannig að söfnuðirnir taki að sér að kosta sjálfir presta sína og kirknahald. En um það þarf ekkert að ræða í sambandi við þetta frv., og það var því óþarfi fyrir hv. 1. þm. Reykv. að blanda því inn í umr. Hér er spurningin aðeins þessi: Á að leggja sérstakt vítagjald á þá, sem ekki eru í viðurkenndum kirkjufélögum? Með því tel ég, að klipið sé af þeim rétti til fulls trúarbragðafrelsis, sem stjskr. í orði kveðnu veitir.