10.04.1930
Neðri deild: 76. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í C-deild Alþingistíðinda. (526)

197. mál, sóknargjöld

Magnús Jónsson:

* Ég veit ekki, hvort þetta þingskapaatriði um frávísun þessa frv. er úr sögunni með úrskurði hæstv. forseta. En mér virðist með þeim úrskurði ekki vera skorið úr þessu atriði. Hann benti aðeins á leið til þess að breyta frv. þannig, að það riði ekki í bága við stjskr. Ég vil því leyfa mér að fara fáeinum orðum um þetta, til þess að færa fram fleiri ástæður fyrir því en ég hefi þegar gert, þótt ég standi illa að vígi, þar sem ég er ekki lögfræðingur.

Þegar svona ákvæði standa í stjskr., að þessu megi breyta með lögum, hlýtur það að þýða, að þarna sé látinn nokkuð laus rammi, sem hin almenna löggjöf getur hreyft sig innan án þess að þurfa að hafa þau umsvif, sem annars þarf við breyt. á stjskr.

Nú er í 60. gr. stjskr. hinu alm. löggjafarvaldi heimilað að breyta ákvæði 3. málsgr. 60. gr., og það er náttúrlega ekkert annað en þetta, sem hv. flm. frv. hafa ætlað að gera. En frv. er þannig orðað, að ef það verður samþ. óbreytt, fellur heinlinis niður 3. málsgr. 60. gr. stjskr. um gjaldskylduna, og þá jafnframt 4. málsgr. 60. gr., að þessu megi breyta með lögum, því að ef hún stæði áfram, þegar 3. málsgr. er felld niður, mundi hún eiga við allt annað.

60. gr. stjskr. er þá þannig orðin, að engu má breyta í henni með lögum. Þá er búið að taka af þinginu vald til þess að láta þetta gjald renna til einhverrar annarar stofnunar en háskólans. Ef menn vildu t. d. láta það ganga til þjóðleikhússins, þá má það ekki, því að stjskr. er búið að breyta þannig, að ekki er lengur heimild til að breyta þessu með lögum.

En þá ætla ég að koma að öðru atriði, og það er brtt. hv. þm. N.-Þ. Ég vildi lyfa mér að mótmæla henni, því að hún er ekki leyfileg. Í 27. gr. þingskapa stendur: „Lagafrumvarp, sem felur í sér tillögu um breytingu á stjórnarskránni eða viðauka við hana, skal í fyrirsögninni nefnt frumvarp til stjórnskipunarlaga. Hafi það eigi þá fyrirsögn, vísar forseti því frá“. — Þarna er engin heimild til þess að breyta því á einhverju stigi málsins í það form, að það komi ekki lengur þar í bága við. Og til þess að taka af öll tvímæli, segir svo í sömu grein: „Breytingartillögu, sem felur í sér tillögu um breytingu á stjórnarskránni, eða viðauka við hana, má að eins gera við frumvarp til stjórnskipunarlaga. Sé hún gerð við annað frumvarp, vísar forseti henni frá“. — Hvort heldur er frv., brtt. eða einstakt atriði, verður að vísa því frá.

Nú hygg ég samt sem áður, að þessu hafi ekki alltaf verið fylgt. Forsetar hafa verið heldur mildir í þessu atriði. Þeir hafa sagt, að mætti lagfæra þetta í nefnd. En það er alveg heimildarlaust, því að það er skylt að vísa málinu frá. En ég álít, að í brtt. hv. þm. N.-Þ. felist það, að hann telji frv. ekki beinlínis brot á stjskr., heldur þyki honum aðeins orðalagið óviðkunnanlegt. (MG: Forseti hefir sagt, að hann teldi aðeins orðalagið óviðkunnanlegt). Þá er úrskurður fallinn um, að þetta sé ekki stjskrárbrot, og þar með niður felldur réttur þingsins til að breyta þessu með einföldum lögum.

Mér þykir það dálítið hart, að hæstv. fjmrh. skuli ekki vera hér við, og hann hreyfði heldur engum andmælum við 1. umr., því að þetta er atriði, sem hann ætti sérstaklega að láta til sína taka. Hér er verið að stofna til þess að innleiða e. t. v. nýjan skatt. Sóknargjöldin í landinu eru ekkert smáræði, og ef t. d. 10 þús. manns losuðu sig undan sóknargjöldum, þá gæti verið, að þyrfti að sjá fyrir öðrum skattstofnum. Það yrðu því bein gjöld, sem kæmu niður á ríkissjóði, og fjármálaráðherrar hafa oft látið sig muna um minna en það.

Hv. þm. Ísaf. var að reyna að sýna fram á, að með sóknargjöldunum væri ekki um skatt að ræða, og tók til dæmis, að það væri algengt, að læknum væri borgað sérstaklega fyrir störf, er þeir ynnu. Vildi hann þannig sýna fram á, að gera ætti greinarmun á almennum gjöldum og svo borgun fyrir ákveðið verk. Þetta finnst mér alls ekki eiga við hér. Það, sem er hliðstætt þessu, er auðvitað aukaborgun til prestanna. t. d. fyrir jarðarfarir og barnsskírnir. En sóknargjöldin eru vitanlega ekkert annað en greinilegur skattur, þótt jafnframt sé ákveðið, að þessi skattur skuli ganga til ákveðinnar starfsemi. Ég er fyrir mitt leyti heldur á móti því að taka þannig skatta til ákveðinnar starfsemi, en skattar eru það engu að síður. Það kemur í sama stað niður, þótt sóknargjöldin séu látin renna í ríkissjóð, og svo prestum borgað þaðan. Það er eins um þetta og bílaskattinn, sem er notaður til þess að leggja slitlag á vegi, og hann verða þeir jafnt að borga, sem engin not hafa af þessu. Menn vita, að hér er beinlínis verið að taka ákveðinn part af tekjum ríkissjóðs til vissra framkvæmda.

Hæstv. dómsmrh. ympraði á því fyrir skemmstu að taka ákveðnar tekjur til raforkuveitna. Ég er þessu raunar mótfallinn. En að láta sér detta í hug, að þeir skattar, sem þannig eru teknir frá til einhverrar ákveðinnar notkunar, séu ekki skattar, það nær auðvitað engri átt.

Annars skal ég ekki karpa um þetta frekar. Það er bezt að láta atkv. skera úr. En ég vil leiðrétta það, sem hv. þm. Ísaf. sagði, að menn úr guðfræðideild gætu vel orðið mormónaprestar. Ég sagði, að kennslan væri ekki svo játningarbundin, að menn þaðan gætu ekki tekið að sér prestsþjónustu hjá hvaða protestantískri kirkjudeild sem væri. Hitt er eðlilegt, að kennslan litist nokkuð af persónulegum skoðunum kennaranna.

Það er alls ekki rétt, sem þessir hv. þm. virðast hafa haldið, að guðfræðideildin sé partur af þjóðkirkjunni. Hitt er annað mál, að margir, sem þaðan útskrifast, verða prestar í þjóðkirkjunni. En þeir geta líka orðið prestar í fríkirkjunni, hjá únitörum o. fl. trúarflokkum vestanhafs. Þetta sýnir, að menn lesa hér vísindalega guðfræði í háskólanum.