08.02.1930
Neðri deild: 18. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 225 í C-deild Alþingistíðinda. (535)

58. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Ólafur Thors:

Ég sé ekki ástæðu til þess að flytja hér langt erindi eða færa fram mörg rök vegna ræðu hv. 3. þm. Reykv. Hann sagði, að ég stæði rökþrota í málinu. Hann ætti skilið, að ég gerði honum þann greiða að lesa upp úr þingtíðindum þau rök, sem annarsvegar voru flutt í fyrra með málinu, og hinsvegar þau rök, sem ég flutti. En af því að þessi hv. þm. og ég erum hinir mestu vinir, þrátt fyrir það þótt við séum ekki á einu máli um þetta, þá ætla ég að hlífa honum við því að þessu sinni. En ég mun þá gera það síðar, ef málið fer í nefnd og til 2. umr. Ég tók það einmitt fram í fyrri ræðu minni, að ég áliti í raun og veru óþarft að tala um efnishlið þessa máls, vegna þess að hún er í fersku minni allra þm. síðan málið lá fyrir í fyrra.

Hv. þm. færði fram þau rök, að Reykjavíkurbæ væri nauðsynlegt að fá þennan landskika. Hann byggði rök sín á því, að Reykjavík mundi hvort sem er fyrr eða síðar fá hann, en því hagkvæmara væri fyrir Reykjavík sem það gerðist fyrr. Nú neita ég ekki, að þetta er rétt hjá hv. þm., að ef Reykjavík á annað borð fær skikann, er bezt fyrir Reykjavík, að ná eignarhaldi á honum sem allra fyrst, m. a. af þeim ástæðum, sem hv. þm. gat um. En ég leyfi mér að ganga út frá, að Reykjavík fái ekki þennan skika. En ef nauðir Reykjavíkur eru nú svo miklar sem hv. þm. gat um, vegna hvers reyna þá ekki forráðamenn Reykjavíkur að leita samkomulags við þann aðila, sem hér á hlut að máli? Hv. þm. sagði, að annarsvegar væri þörf Reykjavíkur svo brýn, en hinsvegar biði Seltjarnarneshreppur og sýslan alls engan skaða af þessari innlimun. Af hverju eru þá ekki reyndir samningar í málinu?

Hv. þm. gat um það af sinni miklu lögspeki, að til væru lög í landinu, sem heimiluðu að taka þetta af Seltirningum nauðugum, ef Reykvíkingar óskuðu. Ég er ekki lagamaður, fremur en hann, en taka skal ég upplýsingum frá honum um þetta efni, þótt ég hinsvegar þykist mega fullyrða, að hann fari með staðlausa stafi.

Þá vildi hv. þm. rökstyðja rétt Reykjavíkur til eignarhalds á þessum hluta hreppsins með því, að hreppsbúar hefðu sent Reykjavíkurbæ málaleitun um að fá vatn og rafmagn. Ég vil hlífa hv. þdm. við að ræða þessa hlið málsins, því að hún var útrædd í fyrra. En ég vil leiða athygli manna að því, að þennan rétt eiga Seltirningar samkv. vatnalögunum. Auk þess hafa þeir keypt sér hann með sérstökum samningi við Reykjavík, samkv. lögum frá 1923.

Ennfremur leyfði hv. 3. þm. Reykv. sér að færa fram þau rök, að Seltirningar þægju hér alla sína atvinnu, án þess að nokkuð kæmi í staðinn. Ég hygg, að þetta sé af nokkurri vanþekkingu mælt. Ég flutti fram þær upplýsingar í fyrra, að 1928 hefði þetta verið með öðrum hætti, því að þá hefðu Reykvíkingar þegið atvinnu af Seltjarnarneshreppi fyrir 346 þús. kr., en hreppsbúar ekki haft atvinnu í Reykjavík fyrir meira en 111 þús. kr. Þessar upplýsingar eru frá oddvita hreppsins, sem er mætur maður og ráðvandur og engin ástæða til að vefengja. Er þá fullyrðingum hv. 3. þm. Reykv. og raunar fleiri hv. þm. alveg snúið við.

Ég vísa algerlega á bug þeim ummælum hv. þm., að ég sé hér að reyna að ala á illgirni þingmanna til Reykjavíkur. Slíkt sæti sízt á mér, enda hefi ég aldrei gert það. Hitt er annað mál, að ég kæri mig ekki um, að við reynum að láta bæinn auðgast og blómgast á ránum og ranglæti. Hér ber mér skylda til fyrir þá, sem hafa falið mér umboð, að vinna á móti því, að þeir séu rændir eignum sínum. Það hafa ýmsir talað um gerðardóm. En ég heimta að reynd sé samningaleið í þessu máli, áður en löggjöfin kemur neitt til sögunnar.

Þau ummæli hv. þm., að ég hafi ráðizt á Reykjavíkurbæ, get ég ekki látið liggja kyrr. Ég heimta, að hann taki þau aftur. Ég hefi aldrei ráðizt á Reykvíkinga og mun aldrei gera það. Og mér er eins ljós þýðing þessa bæjar fyrir þjóðfélagið og hverjum öðrum, og ef hægt væri með nokkru móti að leiða líkur að því, að framtíðarheill bæjarins ylti á þessum skika, þá mundi ég hafa nokkuð aðra aðstöðu til þessa máls. Ef eitthvert vit er í þessum hugkvæmu hugleiðingum um heill bæjarins í sambandi við þetta mál, þá segi ég, að það er vorkunnarlaust fyrir Reykjavík að kaupa þessi réttindi því verði, að Seltirningar og sýslan séu vel sæmd af.

Aðdróttanir hv. 3. þm. Reykv. eru naumast sæmilegar. Honum finnst, að hér séu einhverjir í hv. deild, sem auðvelt er að æsa til illgerða við Reykjavík. Ég á að vera sá, sem æsi þá til slíkra ódáðaverka, og get ég ekki látið þau ummæli óátalin.

Ég vil nú leyfa mér að vænta, að þeir hv. þm., sem héldu hlífiskildi yfir rétti Seltirninga og sýslunnar í fyrra, þeir geri það enn. Og þó að skikinn sé ekkert stór, sem farið er fram á að sneiða af hreppnum og sýslunni að þessum aðiljum fornspurðum, þá er að líta á það, sem upplýst var, að þetta er bezti tekjustofn þessarar sýslu. Eftir því, sem oddviti hreppsins sagði mér, þá voru útsvörin í þessum hreppi á síðasta ári um 20 þús. kr., og sjá því allir, að það er mjög veigamikið fjárhagsatriði fyrir sýsluna, að slíkur tekjustofn sé ekki af henni tekinn.

Út af þeim fáu orðum, sem hv. 3. þm. Reykv. lét falla í sambandi við sína eign á þessum stað, vil ég taka fram, að mér dettur ekki í hug að halda, að hv. þm. hafi nokkurn minnsta eiginhagsmunatilgang á bak við. Hann kvaðst ef til vill hafa gott gagn af því seinna að eiga sinn skika þarna í hreppnum og efast ég ekki um, að hann álítur svo, úr því að hann segir það. Ég álít, að eiganda Þormóðsstaða megi einu gilda, hvort þeir heyra undir Seltjarnarnes eða Reykjavík. En annars finnst mér, að það megi ekki eingöngu dæma út frá hagsmunum þessara manna, sem byggja þennan hluta hreppsins. Það á að dæma út frá hagsmunum hreppsins í heild og sýslunnar. En fyrst og fremst eiga menn að dæma út frá gildandi landslögum, og þau mæla svo fyrir, að það skuli uppfylla þýðingarmiklar formshliðar á þessu máli, sem ekki er litið við ennþá.

Ég endurtek þau fyrri ummæli mín, að ég vænti þess, að Alþingi standi við sinn fyrri dóm í málinu og vísi því frá að lokinni umr.