11.02.1930
Neðri deild: 21. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 229 í C-deild Alþingistíðinda. (537)

58. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Flm. (Héðinn Valdimarsson):

Mér þótti vænt um það, að hv. þm. Borgf. sagði frá meðferð samskonar máls á þinginu 1923. Þá var lagt fram frv. á sama grundvelli og nú er gert, þannig að ekki hafði náðzt samkomulag við Seltjarnarneshrepp. Málið var þá sett í n. og fyrir milligöngu hennar náðist samkomulag. Við, sem þetta frv. flytjum, væntum þess einmitt, að hið sama verði gert nú. Ég hygg, að ekki sé til neins að reyna að ná samningum við Seltjarnarneshrepp fyrirfram. Og ég held, að ekki sé nauðsynlegt, að slíkir samningar séu gerðir fyrir þing. Heppilegast mun vera að reyna að ná þeim meðan á þingi stendur, og þá fyrir milligöngu allshn., en til þeirrar n. var máli þessu vísað þá. Hv. þm. rifjaði upp þessa leið, sem þá var farin, og er ég honum þakklátur fyrir það.

Ég þarf naumast að geta þess, að það er samkv. margyfirlýstum vilja bæjarstj. hér, að við flytjum frv. þetta nú. Og ég get bætt því við, að það mun vera að vilja svo að segja hvers einasta mannsbarns hér í þessum bæ.

Þá talaði hv. þm. um það, hvernig þingið hefði farið að, er Ísafjarðarkaupstaður óskaði eftir að fá landauka. Meðferð þess máls var svipuð og 1923. Málið var sett í n. Að það var svo fellt síðar, við 2. eða 3. umr., kemur ekki málinu við á þessu stigi þess.

Fyrst ég stóð upp, þá skal ég víkja að einu atriði, er ég man eftir úr ræðu hv. 2. þm. G.-K. frá fyrra fundi. Hv. þm. talaði um það, hvaða tekjur verkamenn úr Reykjavík fengju af atvinnu sinni í Seltjarnarneshreppi og gagnkvæmt. Nú er ekki farið fram á að fá allan hreppinn, heldur aðeins Skildinganes og Þormóðsstaði. Nú eru þar einmitt búsettir efnuðustu menn hreppsins, en þeir hafa flestir sínar atvinnutekjur í Reykjavík. En annars er rétt að athuga, hvernig um þetta fer í framtíðinni. Þegar Skildinganes telur 300 manns, og þess verður ekki langt að bíða, þá hefir það rétt til að verða sérstakur hreppur. En þá tapar líka Seltjarnarneshreppur þeim hag, er hann hefir nú af Skildinganesi. Mundu þá myndast tveir kaupstaðir. Í Skildinganesi yrðu búsettir efnamenn, sem rækja atvinnu sína hér. Þeir myndu nota vinnukraft héðan, án þess að bera nokkra ábyrgð á fátækrabyrði bæjarfélagsins hér. Væri það ekki hollt að kljúfa þannig Reykjavík. Annarsvegar yrði bær hinna efnameiri, hinsvegar bær hinna fátæku. — Hv. þm. Mýr. sagði, að Kjósarsýsla myndi tapa á þessu. Það getur verið, en það atriði er sjálfsagt að athuga í nefnd.