11.02.1930
Neðri deild: 21. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í C-deild Alþingistíðinda. (542)

58. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Pétur Ottesen:

* Ég skal út af ummælum hv. 2. þm. Árn. og þeim lögfræðilegu skýringum, sem hann var að draga hér fram, benda á það, hvernig ég lít á þetta ákvæði. Ég er auðvitað ekki lögfræðingur, en ég hefi þá skoðun á lögunum, að þau eigi alveg eins að gilda fyrir okkur, sem ekki erum löglærðir. Í 3. gr. sveitarstjórnarlaganna er sem sé gert ráð fyrir, að skipti á hrepp geti farið fram, án þess að þurfi að koma til kasta löggjafarvaldsins, og gerist þá með þeim hætti, að ef báðir aðilar, sem hlut eiga að máli, koma sér saman um skiptin, þá þarf ekki annað en fá ráðherrastaðfestingu fyrir því. Þar með er það mál klappað og klárt.

Ég vil biðja menn að athuga það, hvaða grundvöllur er þarna lagður undir skiptin. Hann er sá fyrst og fremst, að báðir aðilar komi sér saman. Svo er tiltekið nánar í sveitarstjórnarlögum um þetta, þessar ástæður færðar út á víðara svið. Alltaf er sá rauði þráður í gegnum allt, að grundvöllurinn undir öllum slíkum skiptum sé samkomulag viðkomandi hreppsfélaga.

Þar sem nú löggjöfin leggur þennan grundvöll skýran og ótvíræðan, þá hlýtur löggjafinn æfinlega og í öllum tilfellum að gera þá kröfu, þegar tilmæli um þetta kunna að koma fyrir þingið, að þessum grundvallarskilyrðum verði að fullnægja, er það sjálft setti.

Ég vil líka benda á, hvernig þingið hefir litið á þetta undanfarið. Það hefir í öll skipti, nema aðeins eitt, vísað málinu frá sér skilyrðislaust, af því að þessum grundvallarlögum var ekki fylgt. Það er því fenginn dómur þess þings, sem samdi lögin, og þeirra þinga, sem hafa haft með slík mál að gera síðan.

Hv. 3. þm. Reykv. talaði um það og lagði áherzlu á, að af því að fjölmennari aðilinn teldi sér þetta nauðsynlegt, ætti þar með að vera skorið úr um það mál, enda þótt fámennari aðilinn teldi sér þetta til óþurftar og skaða. Út af þessu vil ég benda hv. þm. á það, að þessir aðilar eru báðir nákvæmlega jafnréttháir, enda þótt þeir séu ekki jafnfjölmennir. Hv. þm. tók fram nokkuð af sínum ástæðum fyrir frv., þegar það var síðast til umr. Annars er það svo að eins og þetta mál er borið fram, þá er það aukaatriði að tala um ástæður fyrir þessu frv. En þar sem hv. þm. endurtók nú ástæður sínar, væri ekki úr vegi að drepa aðeins á 2–3 af þeim.

Ein er sú, að það eigi að koma fullar bætur fyrir þetta. Þegar þessar bætur eru metnar, þá er vitanlega miðað við það ástand, sem er, þegar þær bætur eru greiddar. Hinsvegar er ómögulegt að geta nokkuð í eyðurnar, hvað framtíðin her í skauti sínu um breyt. á þessum stað. Því er þýðingarlaust í þessu sambandi að vera að tala um fullar bætur.

Þá talaði hv. þm. um það, að Seltirningar rækju alla sína atvinnu í Reykjavík. Þetta er náttúrlega ekki alveg rétt, því að það er töluverð útgerð við sunnanverðan Skerjafjörð. Þar er þó nokkur hrognkelsaveiði og auk þess er töluvert stundaður sjór á opnum bátum, þegar þeir hafa nokkurt viðnám fyrir ágangi togaranna.

Ég veit það, að í sveitinni er það talið hið mesta mein, ef vinnukraft vantar. Og mér þykir það dálítið undarlegt, ef það er ekki stór vinningur fyrir Reykjavík, þar sem svo mikill atvinnurekstur er og þörf á vinnukrafti, að geta fengið þarna nærtækan vinnukraft. Ég sé því ekki, að hv. 3. þm. Reykv. hafi getað talið afstöðu til atvinnunnar sem ástæðu fyrir sínu máli, heldur þvert á móti.

Hv. 3. þm. Reykv. talaði m. a. um vatnið. Það hefir nú verið upplýst, að Seltirningar hafa samið við Reykjavík um vatn og rafmagn. Og ég veit, að Reykjavíkurbær, eins og aðrir heiðarlegir samningsaðilar, stendur við sinn samning, þó eitthvað beri á milli um annað. Því er skotið fram, að ef til vill yrði erfitt að fullnægja þörf þeirra fyrir vatn, af því vatnsmagn Gvendarbrunna væri ef til vill af skornum skammti. En hv. þm. virtist álita, að úr þessu rættist við samningana, og datt mér þá í hug, hvort það mundi stafa af því, að eitthvert ógurlegt táraflóð yrði á því rigningasvæði, sem leggur vatn til Gvendarbrunna, og þannig mundi fást hin heppilegasta lausn þessa máls.