10.04.1930
Neðri deild: 76. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 239 í C-deild Alþingistíðinda. (548)

58. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Frsm. meiri hl. (Magnús Guðmundsson):

Mér heyrðist hv. frsm. minni hl. tala alltaf í nafni meiri hl. n., þó að ekki sé nema einn fyrir utan hann sem hefir undirritað nál., er hann talaði fyrir. En hann hefir minnt, að hann væri eins og venja er til í meiri hl., og því verður að fyrirgefa honum, þótt hann hafi gleymt því í þetta skipti og álitið, að hann ætti að reifa málið fyrstur.

Ég get haft mitt mál styttra fyrir það, að hann er búinn að skýra frá, hvernig þetta mál fór í n. En mér finnst dálítið einkennilegt, að borgarstjóri skyldi ekki koma á þennan fund, því að ég er alls ekki viss um, nema kynni að vera hægt að koma á einhverjum samningum, jafnvel þótt hreppsnefndin segðist vera ófáanleg til allra samninga. Menn byrja oft svo, þótt síðar komi á daginn, að þeir séu tilleiðanlegir.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara langt út í þetta mál. Áður er búið að ræða það á mörgum þingum, og vísa ég til þess.

En veigamesta ástæðan í þessu máli er sú, að Seltjarnarneshreppsbúar hafa lögverndaðan rétt til þess að hreppurinn sé ekki skertur, nema með þeirra samþykki, og þau lög má auðvitað ekki brjóta.

Það er ekki óalgengt, að nágrannahéruð óski að gleypa önnur. Það er algengt, bæði hér og erlendis. Það er nógu gaman að nefna eitt alkunnugt dæmi, sem a. m. k. ég og hv. 2. þm. Reykv. og margir aðrir hv. dm. þekkja vel, og það er Kaupmannahöfn og Friðriksberg. Kaupmannahöfn er komin alveg utan um Friðriksberg, svo að það er aðeins hringur inni í borginni. Mikið hefir verið gert af hálfu Kaupmannahafnarbúa til að ná í þennan hring, en það ekki tekizt ennþá. Nú skyldi maður halda, að jafnaðarmannastjórnin í Danmörku myndi innlima þennan hring í Kaupmannahöfn, en hún gerir það ekki. Það hefir nýlega verið skipuð n. manna til að reyna að komast að samkomulagi. Flokksmönnum hv. 2. þm. Reykv. í Danmörku þykir það ósæmilegt að kúga annað sveitarfélag, og ætti það ekki að gilda síður hér, enda er mikill stærðar- og styrkleikamunur á Reykjavík og Seltjarnarneshreppi. Ég vil fylgja loflegu dæmi hinna dönsku flokksmanna hv. 2. þm. Reykv. og ekki ganga á rétt lítilmagnans í Seltjarnarneshreppi. (HV: Lítilmagnans í Skildinganesi!). Ég var að tala um sveitarfélagið samanborið við Reykjavík.

Mér skildist á hv. frsm. minni hl., að útsvörin væru lægri í Seltjarnarneshreppi en í Reykjavík. Hreppsnefndin upplýsti, að þau væru sennilega hærri á Seltjarnarnesi en í Reykjavík, svo þessi ástæða fellur alveg niður. Það er ómögulegt að hafa neinn skattgriðastað í Seltjarnarneshreppi.

Hv. 2. þm. Reykv. nefndi húsbruna, sem varð í Skildinganesi fyrir nokkru. Hann sagði, að hægt hefði verið að slökkva, ef vatn hefði verið þar. Ég skal ekkert um það segja, en sennilega líður ekki á löngu þangað til vatn kemur þar suður eftir. (HV: Ólíklegt).

Ég vil spyrja hv. 2. þm. Reykv., hvort það sé satt, að slökkviliðið hér hafi neitað að fara þar suður eftir að hjálpa. Ég á bágt með að trúa þessu. Ég hélt, að allir teldu sér skylt að hjálpa í eldsvoða, þótt þeir séu ekki skyldir til þess að lögum.

Eins og ég hefi tekið fram, lít ég svo á þetta mál, að ekki sé hægt að leggja Seltjarnarneshrepp eða hluta af honum undir Reykjavík. Nefndin, sem með málið fór, hefir leitað umsagnar hreppsnefndarinnar í Seltjarnarneshreppi, en hún tók sameiningunni illa eins og ég hefi tekið fram. Má þó vel vera, að síðar tækjust samningar, ef vel væri að farið. Og þegar svo væri komið, að Seltjarnarneshreppur væri ekki á móti því að sameinast Reykjavík, mundi ég ekkert hafa á móti því, en fyrr mun ég ekki geta greitt því mitt atkv.