13.03.1930
Neðri deild: 52. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í B-deild Alþingistíðinda. (55)

1. mál, fjárlög 1931

Ásgeir Ásgeirsson:

Hv. þm. Vestm. kvað upp nokkurskonar hæstaréttardóm yfir Halldóri Kiljan Laxness sem rithöfundi, eða vitnaði öllu heldur, til stuðnings röksemdum sínum, í hæstaréttardóm, sem hæstv dómsmrh. felldi yfir þessum manni í „Tímanum“ fyrir nokkrum árum. En í hvaða tilefni var þessi grein skrifuð, sem hv. þm. Vestm. vitnaði til? Hún var skrifuð gegn manni, sem í næstu grein á undan í sama blaði var kallaður „ritstjóranefna íhaldsins“. Henni var stefnt gegn þeim ummælum Kristjáns Albertssonar, að „Vefarinn mikli frá Kasmir“, sem þá var nýkominn út, væri „með afbrigðum skemmtileg bók og skrifuð af óvenjulegum stílkrafti og andríki“. Get ég fullkomlega tekið undir þessi ummæli Kristjáns Albertssonar, þrátt fyrir þá kafla „Vefarans“, sem ég vildi helzt óskrifaða. Og ég vænti þess, að það megi hafa nokkur áhrif á skoðun hv. þm. Vestm. í þessu máli, að slík ummæli koma frá manni, sem í mörg ár var ritstjóri aðalmálgagns Íhaldsflokksins og jafnan talinn hið mesta prúðmenni af flokksbræðrum sínum.

Hv. 2. þm. G.-K. varpaði fram þeirri spurningu, hvort við flm. þessarar till myndum fylgja fjárveitingu til rithöfundar, sem skrifað hefði bók eins og „Alþýðubókina“ út frá sjónarmiði Íhaldsflokksins. (ÓTh: Þetta er ekki rétt haft eftir mér). Nú, hvað er þá ranghermt? (ÓTh: Ég sagði: frá sjónarmiði Sjálfstæðisflokksins). Ég get svo sem gert hv. 2. þm. G.-K. það til geðs að nefna flokk hans „Sjálfstæðisflokk“, en hv. þm. verður þá að muna það, að ég hefi nafnið í gæsalöppum.

Ég hafði þá spurningu hv. 2. þm. G.-K. rétt eftir, að öðru leyti en því, að hann vildi hafa annað nafn um flokk sinn en ég notaði. En hvað á nú þessi spurning að gefa í skyn? Á hún að gefa það í skyn, að hv. 2. þm. G.-K. og flokksbræður hans beiti sér gegn þessari till. af því, að Halldór Kiljan Laxness hefir skrifað bók fyrir Alþýðuflokkinn? Spurningin gefur fullkomlega ástæðu til að hugsa svo. En ég vil gera hv. 2. þm. G.-K. tilboð um að flytja með honum till. samskonar þessari, þegar skrifuð hefir verið bók út frá sjónarmiði flokks hans, bók sem væri hliðstæð „Alþýðubókinni“ og hefði almennt bókmenntalegt gildi, auk þess sem hún flytti ákveðið „propaganda“. Og ég skal meira að segja benda hv. 2. þm. G.-K. og flokksbræðrum hans á manninn til að skrifa þessa bók. Það er Kristján Albertson. Herðið þið ykkur nú upp og látið þið Kristján skrifa þessa bók! Og ég lofa því, að ef hún tekst vel, skal ég standa við tilboð mitt.

Hér hefir stundum verið minnzt á klám, og vil ég í því sambandi minna á það, sem sagt var um „klám“` Þorsteins Erlingssonar fyrr á þingum, en Þorsteinn er nú viðurkenndur sem heilagur maður í gröf sinni. Á þinginu 1897, þegar um var að ræða styrkveitingu til Þorsteins Erlingssonar, fórust heiðursmanni einum og góðum klerki meðal annars svo orð, eftir að hann áður hafði farið nokkrum almennum orðum um skáldskap Þorsteins:

„Ég gæti nefnt fleiri kvæði, sem ég finn ekki mikið fallegt við, og því siður holl að efni, heldur þvert á móti, þó að sumir séu að hrósa þeim, svo sem „Örbirgð og auður“, „Á spítalanum“, eða þá „Kossinn“ með daðrið milli Daða og Ragnheiðar, kámugt kvæði, þar sem kitlaðar eru vissar fýsnir lesandans“.

Ég hefi aðeins vitnað í þetta vegna þess, að hv. þm. Vestm. byrjaði á því að vitna til Þorsteins Erlingssonar og bera hann saman við Halldór K. Laxness, og með því hefi ég sýnt, að þær undirtektir, sem hann hlaut hér á þingi, og það hjá ágætum mönnum, eru ekki ósvipaðar undirtektum hv. þm. Vestm.

Annars er mér ógeðfellt að bera þá saman Þ. E. og H. K. L., því að þeir eru mjög ólíkir sem skáld, og er það oftlega heimskulegt að vera með samanburð og telja einn fremstan og annan síztan, þegar um gerólíka rithöfunda og skáld er að ræða. Um H. K. L. hefi ég sagt það sama og Kristján Albertson sagði forðum, að hjá honum gætir „óvenjulegs stílkrafts og andríkis“, og ég vil gefa honum tækifæri til að nota þessa eiginleika sína í þágu þjóðarinnar.

Hinsvegar skal ég viðurkenna, að þeir kaflar, sem hv. þm. Vestm. benti á, eru þeir, sem mér svíður mest, og mér er það ljóst, að H. K. L. hefir talað eins niðrandi um konur yfirleitt og hv. 2. þm. G.-K. talaði um vinkonur hv. þm. Ísaf. í sinni ræðu. Hvortveggja ummælin tel ég óviðeigandi. (ÓTh: Ég skora á hv. þm. að koma með þau ummæli, því að ég vil ekki sætta mig við slíkar dylgjur). Í ritum H. K. L. rekst maður á sömu skoðanir og uppi voru á 6. öld í kaþólskum sið, þegar allt var blandið munkakreddum og munkaþröngsýni, en ég get flutt þau gleðitíðindi hér í hv. deild, að H. K. L. er nú horfinn frá því ráði, og ég vona, að við munum eiga eftir að sjá hann í heilögu hjónabandi senn hvað líður. Því má gera ráð fyrir, að álit hans á konum muni vera gerbreytt og að hann eigi eftir að rita um þær eins lofsamlega og hann hefir lastað þær áður, og að við hv. 2. þm. G.-K. getum þá lesið saman með stolti þá kafla, sem hann á eftir að rita um hjónabandið.

Ég hefi bent á, að hv. þm. Vestm. hefir opin augu fyrir því einu, sem miður fer í ritum þessa höfundar, og ég hefi bent á, að ég hefi fundið marga lýsandi kafla í skrifum hans. Það er því ekki drengileg barátta, að halda því fram, að við viljum veita honum styrk vegna hins illa, sem í ritum hans er. Það þarf enginn að ímynda sér eða óttast, að margir muni rísa upp, sem riti eins og H. K. L., en ég vil þá einnig leggja áherzlu á það, að ef honum verður veittur styrkur, þá er það vegna kostanna, en ekki gallanna. Þeir, sem óttast það, að margir jafnokar H. K. L. rísi upp og feti í fótspor hans, hafa litla ástæðu til slíks. Þeir munu ekki margir, sem koma hingað fyrst sem mjólkurkúskar í þeirri trú, að fyrir þeim eigi að liggja að skrifa ljóð og sögur, ferðist í þeirri vissu um alla Norðurálfuna, fari til Vesturheims og vinni sér til frægðar innan við þrítugs aldur. Af slíkum mönnum má vissulega mikils vænta.