27.02.1930
Neðri deild: 38. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 253 í C-deild Alþingistíðinda. (560)

16. mál, loftskeytanotkun íslenskra veiðiskipa

Frsm. meiri hl. (Sveinn Ólafsson):

Frv. það á þskj. 16, sem hér liggur fyrir, er ekki hægt að telja neitt nýmæli. Það er nú í þriðja sinn lagt fyrir Alþingi.

Nú hefir farið svo eins og áður, að sjútvn. hefir ekki getað staðið óskipt að afgreiðslu þessa máls, þótt nefndarhlutunum beri nú ekki eins margt og mikið á milli sem á undanfarandi þingum. Meiri hl. lítur svo á, og hefir þar álit almennings sér til stuðnings, að nauðsynlegt sé að skerpa að mun eftirlit með loftskeytanotkun veiðiskipanna. Er það bæði vegna þess, að innanlands hefir sú trú fest nokkuð djúpar rætur, að loftskeytin séu misnotuð, og í öðru lagi vegna þess, að brytt hefir á þeirri grunsemd hjá útlendingum, að eftirlit með loftskeytanotkun sé ekki svo strangt sem skyldi hér, og jafnvel að íslenzkir skipstjórar sleppi af þeirri ástæðu undan refsingu fyrir landhelgisbrot, þótt útlendir veiðimenn séu sektaðir.

Að því er kemur til landhelgisbrota, þá býst ég við, að allir viðurkenni, að sjálfsagt sé að reisa rönd við þeim, eftir því sem mögulegt er, hvort sem í hlut eiga útlendir eða innlendir lögbrjótar. Framtíð fiskiveiðanna er að talsverðu leyti komin undir því, að friður fáist í landhelginni, þar sem nytjafiskarnir hrygna.

Um grunsemdir útlendinga munu hinsvegar vera nokkuð skiptar skoðanir; en á þeim hefir borið svo mikið, að þing og stj. verður að sýna það svart á hvítu, að það sé hin fyllsta alvara að láta lögin ganga jafnt yfir alla.

Þetta mál hefir nú verið rætt á tveimur þingum áður, og stundum í talsverðum hita. Ég vil ekki gefa tilefni til, að eins þurfi að fara nú. (ÓTh: Ætli það geri þá ekki einhver annar?) Hnútukast hefir aldrei neinar heillavænlegar afleiðingar, og óska ég, að á þetta mál sé litið hlutdrægnislaust og sanngirni látin ráða.

Meiri hl. n. hefir að þessu sinni borið fram nokkrar brtt. á þskj. 171; eru sumar efnisbreyt., en sumar aðeins formsbreyt. Með fyrstu brtt., sem í sjálfu sér er ekki annað en formsbreyt., leggur n. til, að í stað orðanna „láta dómsmálaráðuneytinu í té lykil að hverju því dulmáli“ komi „láti landssímastjóra í té lykil að hverju því dulmáli“ o. s. frv. Þetta byggist á því, að landssímastjóri verður hvort sem er að hafa eftirlitið að miklu leyti á hendi, og hefir það eftir öðrum gr. frv.

Með 2. brtt. leggur einn maður úr meiri hl. til, að síðasta málsgr. 4. gr. falli niður. Er hún um það, að skylt skuli að láta sjútvn. Alþ. í té til rannsóknar skeytabækur skipa og stöðva og önnur skjöl, er snerta eftirlitið með loftskeytanotkun veiðiskipanna. Í fyrstu var svo ráð fyrir gert í þessu frv., að sjútvn. Alþ. fengju þessi gögn til fullnaðarúrskurðar um það, hve lengi sökunautur skyldi háður eftirliti. En þar sem n. er ekki lengur ætlað að skera úr um þetta, þykir flm. ekki ástæða til að hafa sérstakt ákvæði um, að n. fái þessi gögn í hendur.

3. brtt. er við 5. gr. og er efnisbreyt. Með henni eru sektarákvæðin færð niður til samræmis við sektarákvæði annara laga. Að henni standa allir meirihl.mennirnir.

Að 4. brtt. stendur einnig meiri hl. allur. Eftir frv. hefir dómsmrn. rétt til að svipta grunuð skip rétti til loftskeytanotkunar nema undir sérstöku eftirliti. En í brtt. er þetta orðað þannig, að dómsmrn. skuli heimilt, meðan á rannsókn og dómsuppsögn stendur, að beita þessu eftirliti. Þessi réttur dómsmrn. er þannig bundinn þeim sjálfsagða rétti sakaraðila, að mál hans sé rannsakað og dómur upp kveðinn á réttum tíma.

Ég geri nú ráð fyrir, að þetta frv. sé komið í það horf, að allir, sem á annað borð viðurkenna þörf fyrir slíka lagasetningu, geti nú greitt því atkv. með þessum breyt. Þarf ég því ekki að fara um það fleiri orðum að sinni, og ekki síðar heldur, nema mér verði gefið sérstakt tilefni til.

Út af því, að hv. minni hl. vísar til l. frá 1917 um þetta efni í nál. sínu, vil ég aðeins taka það fram, að þau lög og reglugerðin, sem á þeim er byggð, nær alls ekki nema að litlu leyti þeim tilgangi, sem stefnt er að með þessu frv.