03.03.1930
Neðri deild: 42. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í C-deild Alþingistíðinda. (562)

16. mál, loftskeytanotkun íslenskra veiðiskipa

Frsm. meiri hl. (Sveinn Ólafsson):

Ég þarf að víkja fáeinum orðum að hv. frsm. minni hl. Að vísu var ræða hans öll prúðmannleg og áreitnislaus, en mér fannst hann misskilja frv. og þess vegna draga af því ályktun, sem ekki átti við. Hann vildi sem sé halda því fram, að sá orðrómur, sem borizt hefir um landið, og jafnvel út fyrir landsteinana, til annara landa, um notkun loftskeyta á íslenzkum veiðiskipum, væri aðeins ávöxtur af þeim umr., sem orðið hafa hér á þingi um þetta mál. Ég skal ekki deila um þetta. Það má vera, að svo sé. En hvort sem grunsemdin gegn framkvæmdarvaldinu er af þessum rótum runnin eða ekki, er jafnréttmætt af okkur að hnekkja henni, því hún hefir valdið því, að lögreglunni íslenzku er ekki trúað eins vel í þessu efni og annars myndi, ef þessi orðrómur hefði ekki borizt út.

Í sambandi við þetta vildi hv. frsm. einnig halda því fram, að þessi grunsemd ætti sér ekki víðtækar rætur hjá útlendum þjóðum. Ég get ekki sagt um, hve víða þetta hefir borizt utan Íslands, en ég hefi séð þessa getið bæði í dönskum og enskum blöðum, og fyrst það er komið til þessara landa, eru líkur fyrir því, að það berist til ennþá fleiri landa og geti þess vegna orðið okkur meinlegt.

Þá vildi hv. frsm. halda því fram, að fyrirskipað eftirlit með notkun loftskeyta, sem gert er ráð fyrir í frv., sé alveg óþarft vegna þess, að þegar séu til ákvæði í lögum um það, að stj. geti hlutazt til um þau mál eftir vild. Hann vitnaði í þessu efni til laga nr. 82, 14. nóv. 1917, um leyfi til notkunar loftskeytatækja, og reglugerð nr. 32, 17. maí 1918. Þessi lög frá 1917 og reglug. frá 1918 gera að vísu ráð fyrir eftirliti af hálfu ríkisvaldsins með notkun loftskeyta, en vart myndi gerlegt eftir þeirri reglugerð eða lögunum að beita ákvæðum þeim, sem felast í 4. gr. þessa frv., að heimta drengskaparvottorð af hverjum þeim, sem sendir skeyti milli skips og lands, um efni þeirra. Ég get heldur ekki séð, að í lögunum frá 1917 og reglug. frá 1918 sé nein heimild til að heimta fortakslaust, að allir, sem loftskeyti senda, afhendi lykil að hverju því dulmáli, sem þeir kunna að nota. Og því síður virðist nokkur heimild vera fyrir því eftir lögunum að gera ráðstafanir gagnvart þeim, sem grunaðir kunna að verða um misnotkun loftskeyta. Þær ráðstafanir, sem ákveðnar eru í 6. gr. frv., eru nauðsynlegar til þess að eftirlitið nái tilgangi sínum.

Ég skal ekki deila við hv. frsm. um það, hvort því eftirliti, sem hingað til hefir verið með loftskeytum, hafi verið stjórnað svo vel sem lögin frá 1917 og reglug. frá 1918 gáfu heimild til. En þó svo hefði verið, að mátt hefði beita þeim lögum strangar en verið hefir, er þar með ekki sagt, eins og minni hl. heldur fram, að ekki sé ástæða til að herða á ákvæðum reglug. frá 1918 og þá um leið með lagasetningu. Annars vil ég ekki fara að rekja efni frv. hér og deila um það við hv. frsm. minni hl. Þótt hann mælti gegn frv., þá voru andmælin svo hógvær, að ætla má, að hann jafnvel kysi heldur, að málið gengi fram. Virðist minni hl. yfirleitt taka fremur tómlátlega á málinu, og mun ég því ekki fjölyrða frekar að sinni.