13.03.1930
Neðri deild: 52. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í B-deild Alþingistíðinda. (57)

1. mál, fjárlög 1931

Ólafur Thors:

Hv. frsm. lét nokkur orð falla út af till. minni á þskj. 260, um 800 kr. til styrktarsjóðs Margrétar Bjarnadóttur frá Bergvík til hjálpar fátækum ekkjum og börnum í Gerða- og Keflavíkurhreppum. Hann kvað þessa fjárveitingu hafa slæðzt inn í fjárl. í fyrra og kvaðst hafa álitið, að veitingin væri í eitt skipti fyrir öll. Mér finnst ekki líklegt, að þetta sé af einlægni mælt. Sjóðinn munar lítið um þetta í eitt skipti, og ekkert í ræðu minni í fyrra benti í þá átt.

Skýrði ég frá nokkru því um fjárhagsástand sjóðsins, sem af mætti álykta, að fremur væri ástæða fyrir þennan sjóð til þess að biðja um styrk árið 1930 heldur en öll önnur ár? Ég get vel hugsað mér, að hv. frsm. hafi af vangá látið sér detta slíkt í hug, en hitt þykist ég viss um, að jafnskýr maður og hann er geti séð, að það er röng ályktun og að fullu ástæðulaus.

En um þessa sjóði, sem yfirleitt eru veittir styrkir til í þessari gr. fjárl., er það að segja, að ríkisstj. felldi niður styrki til allra sjóðanna, nema eins, og það er dálítið eftirtektarvert, að þessi eini sjóður var Slysatryggingarsjóður „Dagsbrúnar“. En síðan þessi sjóður komst inn í fjárl., hefir verið stofnuð hér Slysatrygging ríkisins, svo að þörfin er orðin minni en áður á styrk. Ef ástæða væri til þess að strika út einn sjóð öðrum fremur, þá væri það einmitt þessi sjóður. En stj. lét hann standa, vafalaust vegna þess, að hennar sönnu og spöku fylgismenn, jafnaðarmennirnir, standa að honum.

Um afskipti hv. fjvn. er það að segja, að hún tók upp alla sjóðina, nema hina litlu styrkveitingu til þessa sjóðs, og svo annan sjóð, sem hv. þm. V.-Ísf. flutti inn í fjárl. í fyrra og sem stóð öðruvísi á um, þar sem styrkurinn var 25% hærri til hans en þess, er ég ræði um, 1.000 kr. fyrir 800 kr. Mér er ekki kunnugt um, hvert er eðli þess sjóðs, sem hv. þm. V.-Ísf. barðist fyrir, og skal ég því ekki átelja n., þótt hún kunni e. t. v. að eiga ákúrur skilið. En ég leyfi mér að vænta þess, að þó að n. sem slík sé þessu mótfallin, þá fáist fylgi einhverra nm. með þessari sanngjörnu kröfu, sem ekki skiptir ríkissjóð meiru.

Mér þykir leitt, að hv. frsm. tjáði ekki fylgi n. með lítilfjörlegri upphæð, sem ég fór fram á til Möllers fyrrv. símstöðvarstjóra. Ég get hugsað, að það sé ekki sjálf fjárhæðin, sem skiptir máli, heldur fordæmið, og það er erfitt fyrir mig að berjast á móti þeim rökstuðningi. Ég hefi annars góða samvizku af því að flytja þetta mál hingað inn og verð að reiða mig á stuðning brjóstgóðra manna.

Ég get að sumu leyti þakkað hv. frsm. fyrir undirtektir frá hans hendi viðvíkjandi styrk til Guðmundar Kambans. Hann sagði að vísu, að meiri hl. n. væri á móti þeirri styrkveiting; ég er nú ekkert viss um það, enda er Guðm. Kamban verður þess að n. sé með styrknum. En frsm. þakka ég sem sagt fyrir hlýleik hans hvað þennan mann snertir.

Viðvíkjandi ábyrgð, sem ég fer fram á, að ríkissjóður taki á 1/3 hluta kostnaðar við bryggjugerð í Keflavík, skal ég að vísu játa, að það er rétt, sem hv. frsm. sagði, að stefna fjvn. um lendingarbætur og bryggjugerðir er sú, að veita aðeins 1/3 hluta kostnaðarins, en ekki taka ábyrgð á hinum 2/3. En ég vil spyrja hv. frsm., hvort þessi stefna stafi ekki fyrst og fremst af því, að þær upphæðir, sem hefir verið um að ræða, hafa verið svo smáar, að ætlazt hefir verið til þess, að hreppsnefndir, með stuðningi viðkomandi sýslu, væru einfærar um að rísa undir því án ábyrgðar. En hér ræðir um svo stóra upphæð, að það er ástæða til að gera afbrigði frá stefnunni, og það má a. m. k. af líkum ráða, að hreppurinn eða sýslan verði ekki einfær um að lyfta þessu hlassi. Og það hygg ég, að allir sanngjarnir menn muni játa, að ekki skiptir máli, hvort þetta er lendingarbót eða hafnarbót, heldur hitt, hvort aðili er fær um þetta eða ekki, og ég fullyrði, að engar líkur eru til þess, að Keflavíkurhreppur með aðstoð Gullbringusýslu sé einfær um það. Ég leyfi mér því að vona, að hv. fjvn. geti að athuguðu máli sætt sig við þessa till. og veitt henni stuðning sinn.

Hér hefir slæðzt inn í umr., og mér verið alveg óþarflega mikið inn í það blandað, till. um að veita Halldóri Kiljan Laxness skáldastyrk: Ég hefi ekki sagt neitt um, hvort ég ætli að vera með því eða ekki. Þau ein orð, sem féllu af mínum vörum, voru í tilefni af því, að hv. þm. V.-Ísf. var í varnarræðu sinni út af þessari till. að tala um Sjálfstæðismenn og kallaði þá „íhald“. Ég talaði næstur á eftir og ávítti hv. þm. fyrir að nefna flokkinn rangnefni, sérstaklega vegna þess, að hann væri forseti Sþ. Að öðru leyti sagðist ég ekki ætla að blanda mér í þetta mál, en féll þó fyrir freistingunni og tilgreindi nokkur ummæli eftir skáldinu, sem mér þóttu vítaverð, en gat þess um leið, að hann væri mikill rithöfundur, svo að það var engin ástæða fyrir flm. til að sveigja að mér fyrir það, að ég ætlaði að vera á móti till., því að ég hefi ekkert um það sagt.

Hv. þm. Ísaf. sagði, að hv. þm. Vestm. mundi áreiðanlega skammast af heilum hug, þegar hann skammaðist, en mig væri ekki mikið að marka; það mundi sjálfsagt enginn hugur fylgja máli, þótt ég amaðist við Halldóri Kiljan Laxness. Ég hefi nú reyndar ekkert amazt við honum, en hv. þm. gekk út frá því, að ég hefði talað á móti honum og vildi segja, að það væri af óheilindum mælt hjá mér.

Óheilindi mín markaði hv. þm. á því, að ég flytti hér till. um fjárstyrk til Guðmundar Kambans, en Guðm. Kamban vildi hv. þm. telja engu síðri en Halldór Kiljan Laxness um þann rithátt, sem margir vilja ekki fella sig við hjá Halldóri Kiljan. Þessu mótmæli ég. Guðmundur Kamban hefir skrifað margar bækur — þær eru sjálfsagt komnar upp að einum tug — og hvergi gætir einnar setningar, sem menn geti hneykslast á, nema það væri þá einn kafli í einni bók, og hefir hann þó ekki tærnar þar, sem Kiljan hefir hælana í þessum efnum. En látum það liggja milli hluta, hvort Kamban er jafningi hans í þessum sökum. En þessi sami hv. þm. flytur með mér till. um að veita Guðm. Kamban styrk með því að setja hann í 18. gr. fjárl. (HG: Ég er ekkert hneykslaður á Kamban). Nei, ekki það, segir hv. þm. En hitt veit þessi hv. þm., að það eina, sem hann hefir sagt um till., þau einu afskipti, sem hann hefir haft hér í deildinni af þessari fjárbeiðni, er það, að líkja honum um siðleysi saman við Halldór Kiljan Laxness. Hér er ekki verið að deila um rithöfundar hæfileika Kiljans, því að þá hefir hann tvímælalaust, heldur um það, hvort þeir séu svo miklir, þrátt fyrir siðleysið, að ríkið eigi að styrkja hann sérstaklega. Það er þess vegna beinlínis til þess að spilla fyrir Guðmundi Kamban, þegar hv. þm. er að jafna honum við Halldór Kiljan Laxness um rithátt. Þetta kalla ég óheilindi, og þessi maður á ekki að tala um óheilindi hjá mér.

Ég hefði haft talsvert ríka tilhneigingu til að lesa hér upp ummæli hæstv. dómsmrh. um síðustu bók Halldórs Kiljans, og ég hefi hér líka Alþýðubók hans. Ég veit hinsvegar, að hæstv. forseti óskar þess ekki, og ef hæstv. forseti stöðvaði mig, meðan ég væri að lesa upp, þá væru það svo sterk andmæli gegn þessum unga rithöfundi, að ég þori ekki að freista þess. Það er ekki alltaf, sem ég læt í minni pokann um það, að skeyta ekki skapi mínu á mönnum. En ég ætla að tala hógværlega um þetta mál, bæði vegna hv. þm. V-Ísf. og vegna þess, að ég hefi ekkert látið uppi um, hvort ég ætli að fylgja þessum unga rithöfundi.

Hv. þm. V.-Ísf. spurði mig, hvort fyrirspurn, sem ég beindi til hans um það, hvort hann myndi hafa flutt þessa till., ef Kiljan hefði skrifað frá sjónarmiði Sjálfstæðismanna, ætti að skiljast þannig, að ég væri á móti Halldóri Kiljan vegna þess, að hana skrifaði frá sjónarmiði jafnaðarmanna. Nei, það er langt frá því; mér þykir jafngaman að lesa bækur, frá hvaða pólitísku sjónarmiði sem þær eru ritaðar. En ég hefi sagt í minni fyrri ræðu að ég ætlaði engin afskipti að hafa af málinu, fyrr en ég greiði atkvæði um það. Annars veit é ekki, hvaðan þeim kemur sú vizka, að ég sé á móti þessari styrkveitingu til Halldórs Kiljans Laxness. Hann hefir fengið meðmæli minnar elskulegu eiginkonu, því að hvernig sem hann skrifar um borgaralegar eiginkonur, þá hefir hún þó marghvatt mig til þess að styðja þennan rithöfund, sem hún telur mjög efnilegan.

Þá vildi hv. þm. V.-Ísf. sanna mér frjálslyndi sitt með því, að hann mundi flytja með mér till. um styrk til Kristjáns Albertsonar, ef ég gæti fengið hann til að skrifa svona bók eins og Kiljans. Ég veit, að hann gæti skrifað með jafnmikilli andagift, en ég býst við, að það mundi vanta ýmsa kafla í hana, sem nú eru í bók Kiljans, og það þá, sem eru verstir.

Ég veit ekki, hvort ég hefi nokkurntíma jarðsungið eftir sjálfan mig skárri ræðu heldur en ég hefði haldið, ef ég hefði fengið að tala hér áður en fundi var slitið. Ég fórna henni fyrir skapstillingu mína, svo að ég færi nú einu sinni verðuga fórn í þessu efni. Ég geri það fyrst og fremst vegna þess, að ég vil ekki fara í neinn ofsa út úr þessu máli, og ég ætla ekki heldur að kveða upp um, hvort ég sé með eða móti, fyrr en ég greiði atkv. Hv. þm. Ísaf. sagði, að ég hefði talað um Jónasarmenn hér í deildinni, og í því sambandi vildi hann mynda flokk, sem hann vildi kalla Kleppkarla. Hann verður að ráða því. En ég held, að hann eigi nú ekki heima í neinum slíkum flokki. Það getur þó verið, að stofna mætti einhvern slíkan flokk Kleppkarla hér í þinginu, þótt ekki yrði hann stór.