13.03.1930
Neðri deild: 52. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í B-deild Alþingistíðinda. (58)

1. mál, fjárlög 1931

Jón Ólafsson:

Ég hjó einmitt eftir því í ræðu hæstv. fjmrh., að hann varaði fjvn. og þm. yfirleitt við því að bera fram till., sem gæfu tilefni til þess, að margar fleiri kæmu í kjölfarið. Það er í samræmi við þessa hugsun hæstv. fjmrh. og margra annara, að við þremenningarnir stöndum að till. XII, um að fella niður risnufé til menntaskólanna hér á landi. Þetta er í samræmi við það, að í landinu eru svo margir skólar, sem ríkið kostar skólastjórn á, sem mundu koma í kjölfar þessara skóla, ef ætti að lögleiða risnufé handa þeim.

En það er dálítið einkennilegt og ekki fyllilega í samræmi við þessa skoðun, það sem kemur fram einmitt hjá hv. frsm. n., að hann vill ganga inn á að láta þessa skóla fá risnufé. Ég verð nú að kannast við, að þessir skólastjórar eru svo vel launaðir, að ekki er þörf á að hækka við þá launin, og ég er viss um, að þau eru í samræmi við laun annara embættismanna, sem margir hverjir taka á móti gestum og verða fyrir átroðningi án þess að fá eyri fyrir það. Það yrðu þá að koma fram almennar till. um að bæta þessum starfsmönnum það upp, þannig að þeir væru vel sæmdir af og gætu sýnt þeim, sem heimsæktu þá, nokkra risnu vegna embættisins.

Hv. frsm. gat þess um skólameistarahjónin á Akureyri, að þau væru mjög gestrisin. Það má vel vera. En ég geri ráð fyrir, að fjölmargir af þeim, sem stýra skólum, séu líka gestrisnir, og það kemur harðast niður á þeim, sem standa fyrir skólum í sveitum, því að þar er sjaldnast til annara að flýja; en í stórum kaupstöðum þurfa þeir síður að sýna risnu, þar sem menn geta haldizt við þar, sem þeir vilja.

En svo kom eitt hjá hv. frsm., sem er dálítið einkennilegt. Hann álítur, að þetta risnufé eigi að vera til þess að koma á nánari kunningsskap milli skólastjórnar og nemenda en verið hafi. Ég vil þá kasta þeirri spurningu fram: Eru þeir, sem skólunum ráða, orðnir svo aumir, að þeir geti ekki hænt að sér nemendur og haldið fullri virðing þeirra, nema með matar- og kaffigjöfum? Ég hygg, að eitthvað annað þurfi heldur en risnufé til þess að hæna ungviðið að sér. Það má ekki koma fram í þessari hv. d., að ungdómurinn þurfi á þessu að halda í því augnamiði, og ekki heldur gera ráð fyrir því, að hægt sé að hæna unga nemendur að sér með slíku. Ég vil þess vegna slá því föstu, að þetta geti ekki verið. Skólastjórar verða að hafa eitthvað annað til brunns að bera, svo að þeir haldi virðing nemenda sinna.

Það er ekki til neins að færa þetta sem ástæðu fyrir slíkri fjárveitingu, sem ég álít þar að auki, að geti verið hættuleg að því leyti, að hér komi fleiri skólastjórar í kjölfarið. Ég vil sérstaklega taka undir með hæstv. fjmrh., sem benti á það í sambandi við smávægilega styrki til sjúkrasjóða í landinu, að svo og svo margir gætu komið á eftir. Hér er alveg um sama að ræða. Ég er sannfærður um, að margir koma í þetta kjölfar og heimta fé til risnu, og ég mundi þá ekki sjá mér fært að vera á móti því, ef búið væri að samþ. þetta fyrir þessa tvo æðri skóla, sem að mínu áliti hafa langminnsta þörf fyrir það.

Mér kemur það ekkert við, þótt Ed. hafi samþ. lög um Menntaskóla í Reykjavík og á Akureyri og sett þetta inn þar. Ég býst við, að það sé fyrir harðfylgi eins manns, en hinsvegar er ég ekki viss um, að það gangi svo leikandi í gegnum þessa hv. d., að ástæða sé til þess að áætla féð í skjóli þessara laga.

Ef þetta á að vera fyrir eftirlit með heimavistum, því vil ég spyrja: Hvað fengu hinir gömlu rektorar fyrir það? Þeir fengu vitanlega enga sérstaka þóknun, og ekki fengu þeir heldur neitt, sem unnu þó að vísindastarfsemi jafnframt. Mér finnst þó meira mannsbragð að veita eitthvað þeim mönnum, sem hafa verið miklir vísindamenn í sinni grein, heldur en til þess að inna af hendi það, sem rektorar hafa frá fyrstu tíð gert fyrir ekki neitt.

Rektorinn hér í Reykjavík hefir heldur ekki svo mikinn stundafjölda, að hann á vel að geta sinnt slíkum störfum án endurgjalds; og það er meiri ástæða til að launa menn til þjóðnytjastarfa heldur en til þessa.

Þá hefir hv. frsm. lýst því yfir, að meiri hl. n. geti ekki fallizt á að fella niður styrk til íþróttakennslu. Hv. frsm. gat þess í sambandi við þann lið, að Jón Þorsteinsson íþróttakennari hefði sótt um 1.500 kr. styrk til utanfarar. Mér skildist að hv. frsm., væri því fyllilega meðmæltur, að hann fengi eitthvað af þessu fé, sem ætlað er til íþróttakennslu. Það dregur úr mér að heyra þetta, því að ég álít Jón Þorsteinsson einmitt þann, sem við megum vænta einna mests af. Ég vil þess vegna slá því föstu, að ef till. okkar um að fella niður þennan styrk verður ekki samþ., þá fái hann þar af 1.500 kr.

Mér finnst það alveg óviðkunnanlegt að hætta þessum 4 þús. alveg út í bláinn, til þess að geta veitt þær, ef einhver skyldi koma, sem fyndi náð fyrir fjárveitingavaldinu, og með það kynni að fara. Eins finnst mér hafa verið nóg fordæmi undanfarin ár, svo ekki sé erfitt að veita slíka smámuni sem þessar 4.000 kr., ef einhver verðug persóna gefur sig fram. Svo mun enn verða. En ef þessi verðuga persóna skyldi engin koma, er hægt að veita þetta alveg út í bláinn.

Ég get verið hv. frsm. þakklátur fyrir undirtektir hans undir till. mínar, XXXI. á þskj. 260, og í sambandi við það taka fram, sem mér láðist að geta í fyrri ræðu minni, að verði sú till. samþ. að veita kvenfélagasambandi Íslands 10 þús. kr., þá ætlast ég til, að Samband norðlenzkra og austfirzkra kvenna óski einskis og falli þessi litli styrkur til þeirra því niður, enda flyt ég till. þess efnis, sem er 2. og 3. liður í brtt. XXXI. á þskj. 260.

Hv. frsm. tók í raun og veru í einu tilfelli í sama strenginn og hæstv. fjmrh., en það var um það, að skapa ekki fordæmi í fjárveitingum, því þá mundu einstakir menn koma og sigla í það kjölfar. Hv. frsm. gat þess í sambandi við styrkbeiðni til Þórodds Bjarnasonar pósts.

Ég get tekið undir þetta með hv. frsm., en verð að segja það um leið, að það hefir bæði fyrr og síðar verið álit flestra þm., að það fólk, sem unnið hefir við síma og póstmál hér í Reykjavík, hafi yfirleitt þótzt illa haldið af launum sínum undanfarin ár, eða síðan þessi fyrirtæki tóku til starfa. Það dettur engum í hug að neita því, að maður sem þessi, sem hefir borið bréf um bæinn 12–14 klst. á dag — því það var alltaf að aukast, sem hann hafði að gera, án þess þó að launin hækkuðu fyrir það —, eigi rétt til að þurfa ekki að segja sig til sveitar þegar hann á áttræðis aldri hefir gengið sig upp að hnjám, heldur fengi hann nokkurn styrk til þess að lifa af. Ég verð líka að segja það, með fullri virðingu fyrir þeim, sem æðstir eru við þessar stofnanir, að þeir hafa ekki hlynnt að sínum undirmönnum eins og þeim hefir borið skylda til. En það er nú svo, að ég kann ekki við það, að ekki sé skilizt sæmilega við þá menn, sem hafa slitið sér út fyrir það opinbera, og ég álít það skyldu þess opinbera, ekki síður en margra annara, að taka vel undir það, þegar þetta fólk kemur og biður um lítið eitt til þess að lifa af, svo að það þurfi ekki að leita til sveitar. En það er þetta fordæmi, sem kom fram hjá hv. frsm. í þessu tilfelli, þótt hann gleymdi því þegar um risnufé skólanna var að ræða.

Þá er hér ein till., sem ég ber fram með hv. 1. þm. Árn., um það, að séra Kjartan Helgason fyrrv. próf. í Hruna haldi fullum launum sem þjónandi prestur, þegar hann lætur af embætti. Ég minnist þess nú, að þegar talað var um skólamál Sunnlendinga, snerist það mál um þennan mann. Þá þótti nauðsyn að hraða þessu máli, svo hinir góðu kraftar þessa manns gætu notið sín. Við undirbúning þessa máls samþ. þingið, að hann skyldi einskis í missa að launum, þó að hann tæki að sér skólastjórastöðuna við þennan skóla. En loks þegar þessi skóli var stofnaður, var þessi maður, sem hafði verið boðin skólastjórastaðan og allt málið snerist um, svo farinn að heilsu, að hann hefði ekki getað dugað til þess að taka það starf að sér. En því meiri ástæða er til að líta á vandkvæði hans, þegar heilsufar hans er þannig, að hann varð að láta af embætti. Mér finnst því Alþingi frekar taka niður fyrir sig, ef það neitar um þennan styrk, fyrst málinu er svo komið sem er.

Hv. þm. V.-Húnv. minntist ofurlítið á Fiskifélag Íslands. Ég var ekki viðlátinn, svo ég tók ekki vel eftir, hvað hann var að ræða. Mér skildist hann þó vera að átelja það lítilsháttar með sinni venjulegu hógværð, að Fiskifélagið tæki af fé, sem ríkið legði því til, og verði því til bryggjugerða og lendingabóta. Það má vera, að eitthvað hafi verið gert af því, en það er oftast nær þannig, að ef einhver héruð eru deig við að leggja út í fyrirtæki, hefir þurft að hvetja þau bæði með orðum og nokkru fé (HJ: Það eru 15.000 kr. á 2 árum.) til þess að hefjast handa í því efni. Fiskifélagið og Búnaðarfélagið eru hér í samræmi hvort við annað. Þau örva borgarana og koma þeim á rétta leið og verða þannig til þess að lyfta heilum héruðum upp til framfara. Fiskifélagið og Búnaðarfélagið er aðallega hvatningarstarfsemi, sem vinnur að málum þess flokks, sem þau eru fyrir. Fiskifélagið hefir t. d. látið mæla upp ýmsar hafnir, það hefir greitt ferðakostnað fagmanna í þeim tilgangi og greitt fé fyrir að gera áætlanir að lendingarbótum. Þessi hjálp félagsins hefir oft orðið til þess, að héraðið hefir ráðizt í þetta fyrirtæki, þótt það annars hefði ekki gert það, ef það hefði ekki fengið þessa hvatningu.

Ég get fallizt á það, að þessi liður falli nú úr sögunni, því hann er nú orðinn minna virði en áður, þar sem ríkissjóður tekur nú að sér þennan kostnað. Verður það í fyrsta skipti á næsta ári, sem ríkissjóður innir þetta af hendi, ef till. fjvn. í þessu efni ná fram að ganga.

Fiskifélagið mun þá draga sig í hlé hvað fjárstyrk snertir, en láta framvegis alla þá hvatningu í té, sem það getur, eins og það hefir gert hingað til.

Það er þá ekki fleira, sem ég ætlaði að segja. Hv. frsm. gat þess, að hann myndi tilleiðanlegur til að hækka fjárveitinguna til Stórstúku Íslands frá því, sem hún er í frv., en hann gæti ekki fallizt á till. okkar um, að henni væru veittar 15 þús. kr. Það er sjálfsagt ennþá tími til að leiðrétta þetta, ef sú fjárveiting, sem við höfum stungið upp á, verður felld.