18.03.1930
Neðri deild: 56. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 281 í C-deild Alþingistíðinda. (582)

114. mál, Brunabótafélag Íslands

Jón Auðunn Jónsson:

Þar sem svo langt er liðið síðan 2. umr. um þetta frv. hófst, þá er ég nú búinn að gleyma því, sem ég þurfti að svara. En ég get þá bara tekið eitthvað annað í staðinn, því af nógu er að taka, ef ræða skal þetta mál frá öllum hliðum.

Hv. flm. telur ekki rétt að vísa málinu til stj., vegna þess að engin breyt. er gerð á stj. Brunabótafélagsins. En það er ekki af þeirri ástæðu, sem ég og aðrir viljum vísa því til stj., heldur af þeirri stórfelldu breytingu, sem gerð er á Brunabótafélaginu í frv. þessu og útfærslu á starfsemi þess. Þegar um svo stórfelldar breytingar ásamt tryggingarskyldu er að ræða, þá finnst mér ekki óeðlilegt, að þeim, sem undir þessum lögum eiga að búa, sé gefinn kostur á að segja álit sitt um þær. Það hefir stundum verið leitað umsagnar aðila um smærri mál. Sum eldri ákvæðin, þau sem nú standa í lögunum, eru líka þannig, að þau valda andúð hjá vátryggjendum. T. d. það ákvæði, að draga megi af skaðabótaupphæð 15–20% án þess vátryggði eða skyldulið hans eigi nokkra sök á tjóninu. Ég hefi bent á dæmi, og gæti bent á fleiri slík, að menn, sem brunnið hefir hjá, hafa næstum orðið gjaldþrota vegna þessa ákvæðis, að halda eftir 15–20% af skaðbótaupphæðinni í viðbót við þann 1/6 hluta, sem vátryggði hefir í eigin ábyrgð og sem hvergi má tryggja. Það er líka nokkuð hart að heimta það, að menn endurtryggi húsin. Þegar sjóðir eða einstakir menn eiga veð í húsinu, og þegar veðið fer forgörðum, þá má búast við, að þeir fái ekki lánið greitt. En með endurbyggingarskyldunni fer það svo, að lánveitendur verða að festa fé sitt áfram í húsinu. Það má að vísu segja, að hér sé aðeins um heimild að ræða fyrir félagið að halda þessum 15–20% eftir. En ég veit til þess, að sú heimild hefir verið notuð, og það þótt vátryggður eigi enga sök á brunanum. Og þar sem heimildin er veitt, þá er hætta á, að hún verði oft notuð. Það eru auk þessa mörg ákvæði önnur í frv., sem ég hygg, að sveitarstjórnir vildu láta koma öðruvísi fyrir en hér er gert. Ég tel það mundi yfirleitt verða betra og hentugra fyrirkomulag, að Brunabótafélagið væri endurtryggingarfélag, og hver sveit, kaupstaður eða kauptún væri félag út af fyrir sig. Þetta hefir verið gert og gefizt vel. Þannig stofnuðu Dýrfirðingar slíkt félag hjá sér um 1890. Þar var ekki skylduvátrygging, en nálega allir tryggðu þó í því félagi. Þeir höfðu samábyrgð og endurtryggðu nokkurn hluta upphæðarinnar, fyrst 3/4, síðar, er sjóðurinn efldist, helming. Vegna þessarar samábyrgðar urðu iðgjöldin helmingi lægri heldur en ef þeir hefðu vátryggt beint. En áhættan varð að vísu meiri. Það er ekki ósennilegt, að sumar sveitir vildu fara þessa leið. Húsin yrðu máske ekki eins veðhæf. En út á byggingar í sveitum er mjög lítið lánað, og því dregur það lítið eða ekki úr veðhæfi jarða.

Að öllu þessu athuguðu verð ég að álíta það alveg óverjandi að láta þetta stórmál ganga fram án þess að leitað sé umsagnar bæjar- og sveitarfélaganna, sem eiga allt sitt undir því, að fyrirkomulagið sé gott. Hv. flm. játaði, að ákveða þyrfti áhættuna öðruvísi. Ég hefi bent á dæmi, þar sem þetta hefir verið gert af handahófi og margur hlotið þungar búsifjar af því. En þetta má laga með reglugerðarákvæðum; frv. bætir ekkert úr þessu, og er því engin nauðsyn að flýta því af þeirri ástæðu.