18.03.1930
Neðri deild: 56. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í C-deild Alþingistíðinda. (586)

114. mál, Brunabótafélag Íslands

Frsm. minni hl. (Halldór Stefánsson):

Ástæður hv. meiri hl. n. og þeirra ræðumanna, sem stutt hafa álit hans, eru hinar sömu og áður hafa verið bornar fram og þá var svarað. Aðalmótmælin gegn framgangi þessa frv. eru, að nú þurfi nauðsynlega að taka upp nýja venju og bera þetta mál undir sveitarstjórnirnar, áður en það fái afgreiðslu hér á Alþingi. Ef það væri nokkuð algeng venja, þá væri hægt að taka þessa kröfu til greina. En þetta er ekki venja, og þar sem frv. er, einnig að dómi andmælenda þess, a. m. k. að sumu leyti til hags fyrir sveitarfélögin, virðist lítil ástæða til að taka upp þennan sið nú. Það mun ekki hafa verið borið undir sveitarfélögin, þegar þessi lög voru sett, og víst hefir það þó verið meira íræði þá en hér á að leggja út í nú.

Hv. þm. N.-Ísf. færði móti frv. ýmsar af þeim ástæðum, sem þegar hefir verið svarað. Hann talaði um frádrátt frá brunatjóni, þegar vátrygging er greidd, 15–20%, ef ekki er byggt aftur á sama stað. Hann gerði ráð fyrir, að þetta væri aðeins heimilað, en ég lít svo á, að það sé skylda að draga frá lágmarkið a. m. k. Ég vil benda honum á, að í brtt. minni hl. n. er lágmarkið fært nokkuð niður. Og fyrir 3. umr. mætti koma með brtt. um að færa það enn meir niður, ef mönnum sýndist svo. En ég tel miklu varlegra að áskilja þó einhvern frádrátt, ef menn byggja ekki upp á sama stað, en það þarf ekki endilega að vera á þessu sviði, 15–20%.

Annað atriði hjá hv. þm. N.-Ísf. var, að iðgjöldin hefðu verið ákveðin af handahófi. Hversu sem það hefir verið, þá er ekki svo gert nú. Þau er ákveðin eftir lýsingum virðingarmanna, samkv. taxta og reglugerð félagsins. Vitanlega væri alveg óverjandi að gera það af handahófi.

Hv. frsm. meiri hl. endurtók sömu ástæður og fyrr hafa heyrzt. Hann sagði m. a., að það, að stj. væri ekki enn búin að semja frv. um breyt. á stjórn félagsins, væri gagnstætt beinni skipun í lögum þess. Ég viðurkenni þetta. En vanræksla stj. nær frá fyrsta árinu, þegar lögin voru í gildi, svo að ekki er hægt að brigzla einni stj. um það, sérstaklega, sem allar stjórnir síðustu 12 ár eiga óskilið mál um. Og þótt þetta frv. sé afgr., er jafnhægt að skora á stj. með sérstakri þál., ef þörf þykir, að semja þetta frv., sem gert er ráð fyrir í 25. gr. laganna.

Þá minntist hv. frsm. á lausafjártryggingarnar og útfærslu þeirra. Fyrst og fremst taldi hann til, að það væri lítill sjóður fyrir þeim, ef þær væru færðar út. Þetta er að vísu rétt, en það er hugsunin, að hann geti vaxið með vaxandi tryggingu. Stofnsjóðurinn er miðaður við það, sem safnazt hefir undanfarin ár fyrir lausafjártryggingar, og það er um 10 þús. kr. En ennþá minna var fyrir hendi, þegar ráðizt var í að taka alla kaupstaðina niður að 300 íbúum í tryggingu. Þá var enginn, sjóður til og ekkert nema 800 þús. kr. ábyrgð ríkissjóðs. Og sú ábyrgð stendur eftir sem áður. Hún er til baktryggingar. Þetta var ennþá nauðsynlegra í upphafi, því þess má vænta, að ekki þurfi að taka til þessarar ábyrgðar nú, þar sem félagið er búið að safna sjóði, sem er um eina millj. í heild sinni.

Þá gat hv. frsm. um, að það gæti verið álitamál, hvort gagnkvæma ábyrgðin ætti aðeins við um lausafjártryggingar og föstu tryggingarnar. Það hefir þegar verið bent á þetta í ástæðunum með frv. og því skotið til þingsins til athugunar. Þó hefir þetta verið svo fram til þessa. Hv. þm. geta lagt höfuð sín í bleyti um þetta atriði, og þar á eftir má reyna, hvort breyt. á því fær meirihlutafylgi.

Þá vék hv. frsm. af nýju að þeim ástæðum, sem færðar eru fyrir því í nál. minna hl., hvílík nauðsyn sé á, að þetta frv. nái fram að ganga á þessu þingi. Hv. þm. Mýr. hefir svarað þessu að því leyti, sem sveitasjóðina snertir, svo að ég get að mestu leitt þetta hjá mér, enda hefi ég gert skýra grein fyrir því áður. Vil ég þó leyfa mér að lesa upp kafla úr bréfi frá einum oddvita úti á landi, sem hefir með einn sveitarsjóðinn að gera. Þessi bréfkafli lýsir þessu vel frá mínu sjónarmiði. Oddvitanum farast svo orð:

„Ég vil geta þess, að vátryggjendum í sjóði hreppsins er alltaf að fækka, og er ástæðan til þess sú, að allir þeir, sem nú byggja, byggja úr steinsteypu og vátryggja í öðrum sjóðum, þar sem þeir hafa ekki á sinni eigin ábyrgð neitt af því, sem vátryggt er. Afleiðingin af þessu er sú, að brunabótasjóðir hreppanna sitja eftir með alla timburhjallana og torfbæina, sem mest brunahætta stafar af, en þetta gerir brunabótasjóði hreppanna að einskonar fjárhættuspili, sem aldrei var þó tilgangur brunabótafélaganna, og ekki er heldur í verkahring hreppsfélaganna sem slíkra.

Þessu fyrirkomulagi þarf að breyta sem fyrst í viðunandi horf, með meira öryggi fyrir vátryggjendur, þannig að einn sjóður annist allar vátryggingar sveitabýla, jafnvel þó hreppsnefndir yrðu að hafa á hendi innheimtur iðgjalda og hafa eftirlit með vátryggingunum.

Það hefir komið til tals í fullri alvöru hér í hreppnum, að allir hreppsbúar vátryggðu býli sín annarsstaðar en í sjóði hreppsins, til þess að losa hreppsfélagið við þá áhættu, sem af brunabótasjóðnum getur stafað fyrir hreppinn.

Nú í sumar hefir eitt steinhús, sem áður hafði verið vátryggt í hreppnum, verið endurbyggt og stækkað og vátryggt í öðrum sjóði.

Nú eru því ekki nema 19 býli vátryggð í brunabótasjóði hreppsins, en flest hafa þau verið 29. Þetta er mikil afturför og slæm fyrir tekjur sjóðsins og áhættu“.

Þetta bréf lýsir þeim ástæðum vel, sem fyrir því eru, að þessar breyt. megi ekki dragast lengur.

Hv. frsm. sagðist ekki geta skilið það, að ekki væri hægt að koma fram breytingum á endurtryggingum án þess að l. félagsins væri breytt. Ég skal upplýsa það, að þar sem fyrirhugað er, að breyt. verði gerðar á 1. félagsins, er þess ekki að vænta, að hægt verði að framkvæma breytingar á endurtryggingunni, fyrr en séð er, á hvaða grundvelli félagið stendur.

Það kom fram hjá hv. frsm., að hann ber lítið traust til mín um það, að till. frv. séu á skynsamlegum grundvelli byggðar. Þar sem ég er enginn sérfræðingur í þessum málum, tek ég þetta ekki sem móðgun við mig, persónulega, en hinu get ég lýst yfir, að ég bar till. undir tvo sérfræðinga, og létu þeir báðir svo um mælt við mig, að till. væru á réttum grundvelli reistar og færu í rétta átt. Þó að hv. frsm. tæki því ekki tillit til mín um þetta mál, vænti ég þess, að hann taki tillit til þess, sem sérfræðingarnir segja. (PO: Till. hafa aldrei verið bornar undir Brynjólf Stefánsson). Ég átti sjálfur tal við Brynjólf Stefánsson um þetta mál, og lét hann svo um mælt, að till. færi einmitt í þá átt, sem hann hefði hugsað sér. Ég hefi ekki séð þær till., sem Brynjólfur hefir nú síðar gert í þessu máli, en svo hefir sagt mér maður, sem vinnur í skrifstofu hjá mér, að Brynjólfur hafi sagt þetta sama við sig. Hinu sama lýsti og hæstv. forsrh. yfir í ræðu sinni um þetta mál í dag. (SE: Brynjólfur hefir sagt við mig, að hann væri andvígur lausafjártryggingunum). Um það atriði hefir Brynjólfur ekkert ákveðið sagt við mig, enda getur það verið skiljanlegt frá sjónarmiði annara vátryggingarfél., að þeim þyki álitamál, hversu heppileg útfærsla lausafjártrygginganna hjá Brunabótafél. sé.

Ég hefi áður lesið hér upp úr áliti þess sérfræðings, sem skriflega umsögn hefir gefið um þetta frv., og vil gera það enn til viðbótar. Honum farast svo orð, meðal annars:

„Það, sem einkum mælir með því að láta tryggingarskylduna framvegis ná til minni kauptúnanna og sveitanna, er það, að á þann hátt er náð þeirri eðlilegu og æskilegu útbreiðslu brunatrygginga, sem með frjálsu fyrirkomulagi ekki myndi náð, fyrr en að löngum tíma liðnum. Þó má gera ráð fyrir, að afnám sjálfsábyrgðarinnar myndi verða til þess að flýta fyrir útbreiðslu þeirra“.

„Hvað sjálfsábyrgðina snertir, má segja, að það fyrirkomulag, að tryggðu beri nokkurn hluta af áhættunni, er nú að öllu úrelt. Upphaflega mun þetta ákvæði hafa átt að aftra mönnum frá gálauslegri umgengni með tryggða muni, en á hinn bóginn varð það til að hefta eðlilega útbreiðslu trygginga“.

„Hvað snertir afnám sérábyrgða kauptúna og sveita er það fljótsagt, að sú breyting er alveg sjálfsögð, frá tryggingarteknisku sjónarmiði séð“.

Ég hefi þá að nokkru rætt þau atriði, sem færð hafa verið fram frv. til foráttu, og býst ekki við, að standa þurfi um málið langar umr. úr þessu, þar sem málið hefir þegar verið rætt allítarlega frá báðum hliðum.

Út af till. hv. meiri hl. um að taka málið út af dagskrá, svo að hægt verði að athuga till. Brynjólfs Stefánssonar, vil ég segja það, að ég fæ ekki séð, að þess gerist nokkur þörf. Það liggur í augum uppi, að n. gefst kostur á að kynna sér till. hans milli umr., eða á þeim tíma, sem verður á milli þessarar og 3. umr.