13.03.1930
Neðri deild: 52. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í B-deild Alþingistíðinda. (59)

1. mál, fjárlög 1931

Einar Jónsson:

Það er ekki um það að efast, að það er góðgirni hæstv. forseta samfara áhugaleysi allmargra þm. í gærkvöldi í því að mæla fyrir till. sínum, sem olli því, að umr. var ekki lokið í nótt. Fyrir þetta hafa verið umr. þennan dag allan og þingið því staðið einum degi lengur en nauðsyn krafði. En það ætti aldrei að eiga sér stað að eyða meiri tíma til þingstarfa en þörf er á. En það er nú svo, að það munar ekki um einn blóðmörskepp í sláturtíðinni, og heldur ekki þótt þingtíminn lengist um einn dag, eða jafnvel þótt það taki vikutíma að ljúka því, sem hægt hefði verið að gera á einum degi.

Það er annars dálítið eftirtektarvert, hversu lítinn áhuga þm. hafa fyrir till sínum við umr. fjárl. Það er að sumu leyti reyndar ekki undarlegt. Þær eru margar þannig lagaðar, að þeim getur ekki verið alvara með að koma fram með þær hér í þessari hv. deild. Aðalatriðið virðist vera, hvernig verja skuli afganginum, þegar lögboðin gjöld hafa verið greidd, og ennfremur að sýnast fyrir kjósendum. Þetta eru mest styrkir til hins og þessa, ekki allir jafnþarfir, en flestir alveg óþarfir. Stærstu styrkirnir eru venjulega þarfastir. Það eru þeir, sem koma almenningi mest til gagns og heilla. Það eru verklegu framkvæmdirnar, sem verða að mestu gagni. Það eru vegir, brýr, símar, vitar og lendingarbætur, jarðrækt, sandgræðsla, áveitur, vatnaskemmdir, skólar, spítalar eða sjúkraskýli, hressingarhæli o. fl.

Þetta eru þau atriði, sem eiga að ganga fyrir flestum öðrum um það, hvernig verja skuli því fé, sem fyrir hendi er, til þess að hjálpa landsmönnum. Landsfé á ekki að fleygja út fyrir óþarfa. Það eru söngmenn, listmálarar, leikarar, byggingar fyrir bíó og kaffihús. Þá þolir það enn nokkra bið að reisa skrifstofubákn, sundhöll, prentsmiðju o. fl. Þetta útheimtir svo mikla peninga, að ekki er hægt að ætlast til þess, að því verði öllu framgengt í einu. Þm. verða að moða úr þessu og meta það, hvað gagnlegast er.

Það er ekki vafi á því, að mest ber að keppa að því að bæta samgöngur, atvinnuvegi, menningu o. þ. h. Það á ekki að vera að styrkja fúskara og aðra, sem álíta sjálfa sig færa til alls, en geta svo ekkert gert, sem að gagni má koma, þegar á reynir. Eða hvað gagnar það þjóðinni, þótt söngmönnum fjölgi fram úr öllu hófi? Þeir færu þá að keppa hver við annan, en enginn fengist til þess að hlusta á þá.

Ég skal ekki flytja hér langa ræðu, frekar en vandi minn er. Þó get ég ekki hjá því komizt að minnast hér á 4 brtt., vegna þess hve undarleg meðmæli voru færð fyrir þeim. Það voru regluleg mótmæli, en ekki meðmæli.

Hv. frsm. (BA) mælti með styrknum til Hóladómkirkju. Hann lýsti því yfir, að á undanförnum árum hefði verið veitt nokkurt fé til kirkjunnar, en það hefði alltaf orðið henni til ógagns. Ég tel það verulega illa farið, að styrkur, sem vera á kirkjunni til endurbóta, skuli verða henni til ógagns. En ef styrkurinn hefir undanfarin ár orðið henni til ógagns, grunar mig, að svo muni fara enn um þennan styrk. Mun ég ekki greiða honum atkv ., því ég vil á engan hátt verða Hóladómkirkju til ógagns.

Hv. 3. þm. Reykv. færði hér fram rök fyrir því að hækka styrk til Stórstúku Íslands. Hann áleit sjálfsagt að samþ. þennan styrk, vegna þess mikla ágóða, sem ríkið hefði af einkasölunni. Nei, ég held að Stórstúkan eigi ekki hærri styrk skilið fyrir það. Það er ég og mínir líkar sem eiga þann styrk skilið (hlátur), nema þá þeir, sem í Stórstúkunni eru, svíki meira en nokkrir aðrir. Annars grunaði mig strax, þegar þessi till. kom fram og ég sá, að hv. 3. þm. Reykv. var aðalflm. hennar, að honum myndi í rauninni ekki vera alvara, enda hefi ég sannfærzt ennþá betur við það að heyra hann mæla fyrir henni. Ekki svo að skilja, að hann sé ekki bindindismaður nú. Síður er svo. Mér dettur það alls ekki í hug.

3. brtt. er. um að veita Halldóri Kiljan Laxness styrk til ritstarfa. Flm. hennar er hv. þm. V.-Ísf. Hann taldi þá ástæðu til að veita þessum manni styrk, að hann skrifaði á annan hátt en þjóðin gæti fellt sig við. Meðmæli hans voru þau, að hann væri nú sem galinn foli, en mundi verða góður hestur. Mér finnst þetta ekki nóg. Það er engin reynsla fengin fyrir því, að hann verði góður hestur. Ég vil ekki verðlauna hann fyrr en hann hefir sýnt það. Þá má minna á það, að 2 hv. þdm. hafa kynokað sér við að lesa hér upp úr „Tímanum“ greinir eftir þennan höfund. Sé þetta rétt, er það vottur þess, að þar standi svo mikið hastarlegt klám, að það sé ekki lesandi upp yfir heiðvirðu fólki. Það er alveg satt; slíkt er ekki lesandi upp hér. En þetta er allt af því, að þetta er galinn foli, en ekki hestur.

4. till. er um risnufé skólanna. Hv. frsm. vitnaði í það, að þetta ætti að vera til þess að koma á samúð milli kennara og nemenda. Þetta á að vera nokkurskonar sykurmoli til þess að gera nemendurna góða. Hér er þó önnur leið að fara fyrir kennarana. Það er heiðarleg framkoma, kennsla og lipur stjórn, sem eykur samúð milli kennara og nemenda, en ekki brauð og sykur og annað rusl.

Eins og ég gat um í byrjun orða minna, var ég ekki ánægður með þá tilhögun, sem var hér á umr. í gærkvöldi. Ég skal því ekki vera að lengja hér umr. frekar eða gera þm. leiða, meir en orðið er, og skal því hætta. (ÓTh: Mér finnst það ekki hafa verið svo leiðinlegt).