17.01.1930
Sameinað þing: 1. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í B-deild Alþingistíðinda. (599)

Minning látinna sjómanna

Aldursforseti (BK):

Samkvæmt venju vil ég fyrst geta þeirra fyrrverandi þingmanna, er látizt hafa síðan síðasta þing var sett og getið var þá látinna þingmanna. Þrír fyrrverandi þingmenn hafa látizt á þessu tímabili.

Fyrst lézt Þorleifur Jónsson póstmeistari. hinn 2. apríl f. á. Hann var fæddur 26. apríl 1855. Gekk í latínuskólann 1876 og útskrifaðist þaðan 1881 með ágætiseinkunn. Þar næst gekk hann í Kaupmannahafnarháskóla og tók þar heimspekipróf 30. jan. 1883. Las þar lögfræði árin 1881–84, en hvarf síðan heim vegna afleiðinga af þungum sjúkdómi. Heima dvaldi hann eitt ár, en tók svo við útgáfu og ritstjórn Þjóðólfs árin 1886–1891. Búskap rak hann árin 1894–1900 í Svínavatnshreppi, og var oddviti þess hrepps 1895–1900. Í bæjarstjórn Reykjavíkur sat hann árin 1891–1893. Póstafgreiðslumaður í Reykjavík var hann árin 1900–1919, en skipaður póstmeistari úr því til ársloka 1928. Alþingismaður fyrir Húnavatnssýslu var hann árin 1886–1900.

Þorleifur Jónsson var bæði gáfumaður og mikill námsmaður og hinn mesti drengskaparmaður. Hann var sístarfandi, og rækti hvert starf með hinni mestu samvizkusemi og skyldurækni, enda var hann trúmaður. Hann mun síðustu árin hafa talið sig alsannfærðan um, að hann mundi lifa eftir líkamsdauðann og að hann mundi uppskera eftir því, sem hann hefði sáð. Er það ekki lítils virði fyrir neinn að eiga slíkt veganesti.

Þá lézt prófessor Eiríkar Briem hinn 27. október f. á.

Hann var fæddur 17. júlí 1846. Lærði undir skóla hjá Davíð Guðmundssyni, sem síðar varð prestur og prófastur að Reistará og Hofi, en síðan gekk hann í latínuskólann árin 1860–1863. Var síðan eitt ár heima, en tók stúdentspróf 1864. Hann gekk síðan í prestaskólann 1866, en tók inntökupróf í öllu, sem heimtað var til burtfararprófs, og tók síðan burtfararprófið árið eftir, 1867. Síðan réðist hann skrifari hjá Pétri biskupi Péturssyni 1867–1874, en var veitt Þingeyraklaustur 1873 og vígðist þangað 1874. Skipaður var hann prófastur í Húnavatnssýslu 1877. En árið 1880 var honum veitt 2. kennaraembættið við prestaskólann, en 1. kennaraembættið 1909, og gegndi hann því embætti. þangað til sá skóli var lagður niður 1911.

Það er ekki nema eðlilegt, að maður með jafnmiklum og fjölbreyttum gáfum, sem prófessor E. B. var, og sem naut almenns trausts, væri við margt riðinn.

Þannig var hann í hreppsnefnd Sveinsstaðahrepps árin 1875–1880, í bæjarstjórn Reykjavíkur 1883–1891, alþingismaður fyrir Húnavatnssýslu 1881–1891. Konungkjórinn þingmaður 1901–1915, forseti sameinaðs þings 1891 og 1901–1917, gæzlustjóri Landsbankans 1886-1912 og 1916–1917, framkvæmdarstjóri Söfnunarsjóðsins 1886–1920. Í stjórn Bókmenntafélagsins 1873–1874, 1891–1904 (og forseti þess 1900–1904). Í stjórn Landsbókasafnsins 1886–1907. Þjóðvinafélagsins, varaforseti 1882–1891, 1894–1897, 1903–1909 og frá 1914. Í stjórn Búnaðarfélags Suðurlands 1886–1900, Búnaðarfélags Íslands 1900–1909. Í stjórn Fornleifafélagsins 1887–917 (þar af formaður 1893–1917), kvennaskólans í Húnavatnssýslu 1879–1880 og kvennaskólans í Reykjavík frá 1882. Í stjórn Biblíufélagsins frá 1891. vátryggingarsjóðs sjómanna 1904–1909, styrktarsjóðs Hjálmars Jónssonar 1904–1924, sjúkrasjóðs hins íslenzka kvenfélags frá 1905. Í verðlaunanefnd gjafasjóðs Jóns Sigurðssonar 1885–1909. Í milliþinganefnd um kirkjumál 1904–1906. Í nefnd til að meta hlutabréf Íslandsbanka (kosinn formaður af hæstarétti) 1921–1922. Auk þess hafði hann ýms önnur störf með höndum. Þannig varð hann um 1870 fyrstur kennari hér í sjómannafræði, kenndi meðal annara fyrsta forstöðumanni stýrimannaskólans hér og lagði þannig grundvöllinn undir þekkinguna á því sviði. Þá skrifaði hann reikningsbók sína 1869, sem kom út í mörgum útgáfum, og ýmsar nytsamar greinar í tímarit.

Prófessor Eiríkur Briem var miklum og fjölbreyttum gáfum gæddur. Djúpvitur, athugull og yfirlætislaus. En það, sem því sérstaklega einkenndi hann, var ófrávíkjanleg réttsýni og ráðvendni. Hafði ég sjálfur oft tækifæri til að reyna þessa mannkosti hans, þegar hann var gæzlustjóri í Landsbankanum, samtímis mér, hér á Alþingi og þegar hann var formaður í nefnd þeirri 1921, er mat hlutabréf Íslandsbanka.

Prófessor E. B. gerði sér mikið far um að koma alþjóð að liði og fann mjög til hinnar almennu fátæktar í landinu. En það var honum ljóst, eins og öðrum gætnum fjármálamönnum, að ekki væri hægt að bæta fjárhag manna nógu almennt og á traustum grundvelli, nema með löngum tíma. Og fjarri mun honum hafa verið að halda, að það mætti takast á stuttum tíma með fyrirhyggjulitlu stjórnmálabrölti eða byltingu, því það gæti ekki leitt til neins aukins þjóðarauðs, þ. e. almennt aukins auðs einstakra manna, félaga og stofnana, sem hlaut þó að vera grundvöllurinn undir aukinni almennri velmegun og grundvöllurinn undir því að geta séð fyrir aukinni fólksfjölgun í landinu. Þess vegna hugsaði hann upp stofnun Söfnunarsjóðsins, sem eina af leiðunum til þess að bæta varanlega hag almennings. Hugsaði hann það mál aðallega á eigin hönd. án þess að hafa fyrir sér erlendar fyrirmyndir. Hann gerði sér vonir um, að ef þjóðin tæki þessari hugmynd sinni eins vel og hún ætti skilið og notaði sjóðinn nógu almennt samkvæmt tilganginum, þá mundi sjóðurinn aukast svo með tímanum, að flest eða öll börn landsins yrðu borin með fæðingunni til einhvers arfs, sem yrði heilbrigður grundvöllur undir fjárhagslegri afkomu þeirra, þegar þau færu að eiga með sig sjálf. En hið uppsafnaða fé sjóðsins hlaut jafnframt að verða öflug stoð almennings, er leita þyrfti hagkvæmra lána til nauðsynlegra fyrirtækja.

Prófessor E. B. gerði sér vonir um með vaxandi þekkingu almennings á nytsemi sjóðsins, að Alþingi yrði aldrei svo skipað, að það hróflaði við söfnunarsjóðslögunum eða fyrirkomulagi sjóðsins, honum til skaða. Þess er og að vænta, að Alþingi láti sjóðinn verða ævarandi minnisvarða þess manns, sem með svo fölskvalausum hug stofnaði söfnunarsjóðinn til viðreisnar hag almennings.

Þess vil ég og geta, að prófessor E. B. mun hafa verið fyrsti þingmaðurinn í Evrópu, sem bar fram frumvarp til laga á þingi um styrktarsjóð handa alþýðufólki. Gerði hann það á þingi 1887, þó frumvarpið yrði ekki að lögum fyrr enn á þinginu 1889.

Það fór ekki mikið fyrir prófessor E. B. á þingi, en þrátt fyrir það voru tillögur hans mjög svo teknar til greina, ekki sízt í fjármálunum. Hann var líka á þingi á þeim tíma, sem sérþekking og rök óeigingjarnra og heiðarlegra þingmanna fengu að njóta sín.

Yfir höfuð hygg ég, að eigi sé ofmælt, þótt sagt sé, að prófessor E. B. hafi verið einn með göfugustu og nýtustu þingmönnum þjóðarinnar.

Loks lézt magister Bogi Th. Melsted í Kaupmannahöfn hinn 12. nóvember f. á. Hann var fæddur 4. maí 1860. Lauk stúdentsprófi 1882 og meistaraprófi í sögu 1890. 1893 var hann settur aukaaðstoðarbókavörður í ríkisskjalasafni Dana, en hætti því starfi 1903. Hann stofnaði Fræðafélagið og var ritstjóri þess. Stjórnaði hann því í 18½ ár. Það má segja, að hann væri stofnandi Sláturfélags Suðurlands, því hann var fyrsti frumkvöðullinn að því, að þetta félag var stofnað. Frá 1903 hefir hann meðal annars unnið að því að rita Íslandssögu, og eru komin út af henni 3 bindi. Auk þess hefir hann skrifað minni Íslandssögu. Alþingismaður var hann fyrir Árnessýslu aðeins eitt ár, árið 1893.

Sjálfur hafði ég aldrei tækifæri til að kynnast þessum þingmanni, en einn af þeim, sem hefir getið hans opinberlega eftir fráfall hans, segir meðal annars svo: „Bogi (Melsteð) var alla tíð tryggur Íslendingur, enda þótt leið hans hafi meiri hluta æfinnar legið um fjarlæg lönd. Hann var ætíð hinn tryggasti vinur íslenzkra námsmanna í Kaupmannahöfn. Hann var síðustu árin heiðursfélagi í Stúdentafélaginu í Höfn, og hefir hans aldrei verið getið í þeim félagsskap nema með hinni mestu virðingu“.

— Vil ég biðja hv. þm. að heiðra minningu þessara látnu þingmanna með því að standa upp.

[Allir þm. stóðu upp úr sætum sínum.]