01.04.1930
Efri deild: 66. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 293 í C-deild Alþingistíðinda. (609)

131. mál, bæjarstjóri á Siglufirði

Frsm. meiri hl. (Ingvar Pálmason):

Meiri hl. allshn. hefir ekki séð ástæðu til að mæla með því, að frv. þetta verði samþ. nú, og eru ástæðurnar fyrir því að nokkru tilgreindar í dagskrár till. þeirri, sem meiri hl. flytur á þskj. 351.

Fyrir þinginu lágu engar upplýsingar um þetta mál, nema eitt símskeyti frá bæjarfógetanum á Siglufirði, sem er þess efnis, að bæjarstj. á Siglufirði skorar á Alþ. samþ. frv., ef fram kemur, sem heimili Siglfirðingum að kjósa sérstakan bæjarstjóra. Það má nú segja, að þetta skeyti er dálítið undarlegt, svo ekki sé frekar kveðið að orði. Venjulega kemur fram um slík mál bein krafa. En þarna ber skeytið með sér, að bæjarstj. hefir ekki verið viss um, að slíkt frv. kæmi fram. Rétt er að geta þess, að áskorun sú, sem í símskeytinu stendur, var í bæjarstj. samþ. með 5:4 atkv. En einn, bæjarstjóri, sat hjá, taldi sér málið skylt og óskaði ekki eftir breytingu. Í grg. frv. eru færð nokkru frekari rök fyrir þessu. Er þar vitnað í annan kaupstað, sem ekki er stærri, en er þó búinn að fá þessa heimild. Er það Seyðisfjörður. En þar stendur öðruvísi á. Á Seyðisfirði er bæjarfógetinn líka sýslumaður í allstóru héraði, Norður-Múlasýslu. Hefir hann því líka fullkomin sýslumannsstörf. Sama er að segja um bæjarfógetann á Ísafirði, Akureyri og Hafnarfirði. En á Siglufirði er umdæmi bæjarfógetans ekkert annað en bærinn. Má því segja, að bæjarstj. falli ágætlega saman við bæjarfógetastarfið. Sérstaklega er það svo um allar innheimtur. Innheimta vörugjalds og tolla fyrir ríkissjóð og innheimta bryggjugjalds fyrir kaupstaðinn er hvorttveggja innheimt af sömu vörunum og fer því ágætlega saman. Bæjarfógetinn þar er líka maður á bezta aldri og vel fær um að inna þetta hvorttveggja af hendi, enda vil ég segja, að hann gerir það mjög samvizkusamlega. Frá þeirri hlið, sem að löggjafarvaldinu snýr, er því engin þörf á að skipa nýjan bæjarstjóra. Hinsvegar ber líka að líta á kröfu Siglfirðinga um þetta. Ég ætla ekki að mótmæla, að þeir hafi þann kröfurétt eins og aðrir bæir, og er sanngjarnt að verða við honum. En ég vil fá málið svo vel undirbúið frá þeim, að þeir viti þó, a. m. k., hvað þeir sjálfir vilja. Mér finnst málið liggja svo fyrir nú, að ástæða sé til að löggjafarvaldið gefi Siglfirðingum kost á að láta álit sitt koma skýrt fram um vilja sinn í þessu máli. Fyrr en þeir koma með þessa kröfu formlega, sé ég enga ástæðu fyrir löggjafarvaldið að skerast í leikinn. — Ég hefi spurt þm. kjördæmisins um það, hvað þeir vissu um þetta mál. Og þeir hafa báðir svarað því, að þeir vissu ekkert, nema það, sem stæði í skeytinu. Þeim hefir ekki verið sent eitt orð um að flytja þetta mál, og hefði það þó vitanlega verið eðlilegasta leiðin. Hinsvegar er það ljóst, að þegar þetta kemur fram í bæjarstj. á Siglufirði, þá er ekkert víst, að frv. um þetta komi fram. Og fylgi þess þar er ekki meira en svo, að það merst í gegn með því, að einn sitji hjá. En svo hefir nú þó úr rætzt, að frv. hefir komið fram, þó á annan hátt sé en þann venjulega. Ég held, að hv. deild taki réttast á þessu máli með því að samþ. dagskrá meiri hl. allshn., því mér finnst það þó vera fyrsta atriði hvers máls, og það ekki svo lítilsvert, að það komi inn í þingið sæmilega rétta leið. Ég veit, að hv. flm. leggur ekki mikið upp úr þessu og svarar eflaust, að ef þetta er ekki vilji Siglfirðinga, þá verði heimildin heldur ekki notuð. En það væri nú nærri því hlægilegt, ef löggjafarvaldið færi að troða upp á þá réttindum, sem þeir svo ekki vildu nota. Hitt getur vel verið, að ef eindregin krafa kæmi um þetta frá Siglfirðingum, þá væri rétt að veita þeim þetta. En inn á það skal ég ekki fara að þessu sinni.